Kæru hjúkrunarfræðingar.
Það var ótrúlega gott að fá loksins að hitta ykkur á ráðstefnunni Hjúkrun 2022 nú í mars en þar voru 350 hjúkrunarfræðingar skráðir til leiks. Þrívegis þurfti að fresta ráðstefnunni vegna faraldursins og þess að hjúkrunarfræðingar voru uppteknir við að halda heilbrigðiskerfinu á floti. Það var mjög ánægjulegt að finna fyrir orkunni í salnum og augljóst að við erum ekki að fara að missa móðinn enda má íslenskt samfélag ekki við því.
Það var frábært að heyra erindin sem voru flutt á ráðstefnunni og umræðurnar í kjölfarið. Fjölbreytni erinda var mikil og í raun stórkostlegt að sjá hvað hjúkrunarfræðingar hafa náð að sinna rannsóknum og fræðistörfum í hjúkrun undanfarið. Að mínu mati er þetta enn ein birtingarmyndin á styrk og krafti stéttarinnar sem annars hefur verið á kafi í að sinna landsmönnum í erfiðum heimsfaraldri.
Okkur virðist ekkert ómögulegt enda þekkingin mikil og hjúkrunarfræðinga að eiga hana og kynna fjölbreytta framþróun fagsins fyrir öðrum. Byrjum á því augljósa.
Við vitum að heilbrigðiskerfið er ekki komið á gott ról þó að það sé sagt að Covid-faraldurinn sé búinn. Við vitum að það þarf fleiri hjúkrunarfræðinga til starfa, það höfum við vitað í mörg ár. Við vitum að einhverjir hjúkrunarfræðingar eru að hætta störfum vegna langvarandi álags í starfi og ófremdarástands í mönnunarmálum, sem og starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga. En svo vitum við líka að málin eru hægt að þokast í rétta átt. Til dæmis er loksins byrjað að skoða af alvöru réttarstöðu heilbrigðisstarfsfólks í tengslum við tilkynningar og rannsókn alvarlegra atvika í heilbrigðisþjónustu.
Undirbúningur fyrir kjarasamninga er hafin en við losnum undan gerðardómi eftir ár. Við vitum að þjóðin stendur með okkur. Landsmenn sáu okkur að störfum í heimsfaraldrinum og ráðamenn vita mæta vel hversu miklar fórnir hjúkrunarfræðingar og annað framlínufólk hefur þurft að færa. Forseti Íslands þakkaði okkur kærlega fyrir störfin í heimsfaraldrinum. Fundur með nýjum heilbrigðisráðherra leiddi í ljós að það er full meðvitund um okkar helstu baráttumál og nauðsyn þess að grípa inn í strax. Það er því ekki til annars en að horfa bjartsýnisaugum til þess að gerðar verði nauðsynlegar og varanlegar breytingar okkur öllum til hagsbóta. Allavega verðum við að horfa fram á við með það langtímamarkmið. Á meðan getum við fagnað launahækkun vegna hagvaxtarauka.
Ég vona að þið fáið hvíld milli vakta og verkefna á næstunni, þið eigið það svo innilega skilið að hlúa að ykkur sjálfum og njóta gleðistunda með þeim sem ykkur standa næst.
Ég ætla fá að gera orð Ingu Valgerðar Kristinsdóttur, sérfræðings í heimahjúkrun, að mínum. Hjúkrunarfræðingar eru ekki aðeins hryggjarstykkið í heilbrigðiskerfinu, við erum hjartað í kerfinu.
Með þessum orðum óska ég ykkur gleðilegra páska.