Jónína Eir Hauksdóttir er hjúkrunarfræðingur á bráðamóttökunni í Fossvogi, hún er einnig í hlutastarfi á Læknavaktinni og svo tekur hún að sér að vera hjúkrunarfræðingur á setti þegar verið er að taka upp erlendar kvikmyndir,sjónvarpsþætti eða annað efni hér á landi. Þær vaktir næra ævintýramanneskjuna Jónínu sem veit fátt skemmtilegra en að fá að fara á nýjar slóðir með tökuliði, leikurum og öllum hinum sem koma að svona verkefnum. Hún hefur unnið með heimsfrægum leikurum uppi á jöklum, úti í móa, oft fjarri mannabyggðum í alls kyns veðrum og vindum. Jónína segir að kuldinn sé erfiðasta áskorunin í starfi sínu sem set medic, eins og það heitir á ensku. Við settumst niður með ævintýramanneskjunni Jónínu og spurðum hana spjörunum úr.
Jónína útskrifaðist úr hjúkrunarfræði árið 1986 og hefur starfað við fagið síðan. „Fyrstu fimm árin eftir útskrift vann ég á Borgarspítalanum, eins og hann hét þá, á deild A-6 sem var almenn lyflækningadeild. Það var afskaplega lærdómsríkur og skemmtilegur tími. Á þessum tíma voru líka fjögur heila- og taugaskurðdeildarpláss á deildinni. Seinna fór ég svo að starfa á bráðamóttöku.“
Var nýfarin þegar hryllingurinn í Útey átti sér stað
Jónína segist alla tíð hafa verið í tveimur eða fleiri störfum í einu. „Í um sex ár var ég í 80 % starfi á bráðamóttökunni og fór svo fimm til sex sinnum á ári til Noregs þar sem ég tók oftast eins til tveggja vikna vinnutarnir, á hinum ýmsum deildum og bráðamóttökum. Stundum var ég lengur í einu. Mér fannst það á sínum tíma hressandi og skemmtilegt en eftir á að hyggja var þetta mikið álag. Kosturinn við að taka vinnutarnir erlendis er að maður kynnist mörgu fólki, lærir helling og upplifir nýja hluti. Ég var mest í Ósló, Bergen og Stavanger, tvisvar sinnum var ég í bænum Hönefoss, sem eyjan Útey tilheyrir, en það er bærinn sem tók við fórnarlömbum skotárásarinnar í Útey árið 2011. Ég var nýfarin þaðan þegar þessi hryllilegi atburður átti sér stað og þakka forsjánni fyrir að hafa ekki verið á vakt. Ég veit að nokkrir kollegar mínir á sjúkrahúsinu í bænum hættu að vinna við hjúkrun eftir þetta,“ segir hún sem lýsir vel hvaða afleiðingar það getur haft í för með sér að upplifa slíkan hrylling í starfi.
Ævintýrasækin og finnst gaman að fara út í vond veður
Jónína hefur, eins og fram hefur komið, ekki eingöngu starfað við hjúkrun á sjúkrahúsum hérlendis og erlendis því hún hefur fengið að upplifa ótrúleg ævintýri sem hjúkrunarfræðingur á kvikmyndatökustöðum um allt Ísland; í óbyggðum, í borginni, litlum þorpum og uppi á jöklum svo eitthvað sé nefnt.
En hvernig kom það til að hún fór að taka að sér verkefni sem hjúkrunarfræðingur á setti?
„Þetta ævintýri byrjaði fyrir meira en 20 árum síðan þegar ég var fyrst beðin um að taka að mér að vera á setti, en á þeim tíma var ekki algengt að hjúkrunarfræðingur væri til staðar við tökur á kvikmyndum. Það var að byrja þá og ég vissi í raun ekkert hvað ég átti að gera og þeir sem ég var að vinna fyrir á þessum tíma vissu það varla heldur. Í því verkefni var ég til að mynda beðin um að keyra vörubíl í bæinn því það var enginn annar til taks. Í dag er það orðið hluti af tryggingarsamningum hjá flestum löndum að það þurfi að vera hjúkrunarfræðingur á staðnum ef eitthvað kemur upp á. Ég fór í mitt fyrsta verkefni þegar læknir sem var að vinna með mér bað mig um það. Honum fannst ég líklegust til að hafa gaman af þessu því ég sæki svolítið í ævintýri og finnst bara gaman að fara út í vond veður. Ég játa að ég hef alveg lent í veseni en það hefur sloppið til. Ég fæ stundum brjálaðar hugdettur og framkvæmi þær kannski án þess að hugsa of mikið út í framhaldið, er jafnvel örlítið hvatvís,“ segir hún og hlær innilega.
Slysahættan mest í lok dags
Í þessu fyrsta kvikmyndaverkefni sem Jónína fór í var verið að taka upp bíómynd á Reykjanesi og margir heimsfrægir leikarar, eins og Helen Mirren og fleiri, voru mættir á tökustað.
„Áður en ég hélt af stað pakkaði ég verkjatöflum og fleiru ofan í tösku en faðir minn sem var læknir hjálpaði mér að útbúa sjúkratösku til að vera viðbúin þeim verkefnum sem upp gætu komið. Pabbi var meðal annars héraðslæknir á Egilsstöðum á sjöunda áratugnum og ýmsu vanur og gott að geta leitað til hans. Núna, eftir öll þessi ár og reynslu sem hjúkrunarfræðingur á setti, veit ég að ólíklegustu aðstæður geta komið upp. Leikararnir eru kannski bara tuttugu talsins en allur hópurinn er miklu stærri, oft eru yfir hundrað manns, og stundum miklu fleiri, á tökustað þegar verið er að gera kvikmynd eða sjónvarpsþátt. Auk þess er oft verið að vinna með stór farartæki og þunga hluti í erfiðum aðstæðum og allt skapar þetta slysahættu. Ég hef tekið eftir því að slysahættan er oft mest í lok tökudaga, sem yfirleitt eru tólf til sextán tíma langir, þegar allir eru orðnir þreyttir og að flýta sér að klára daginn og pakka niður, gerast slysin oft.“
Má ekki víkja frá þegar áhættuatriði eru tekin upp
Jónína segir að verkefnin geti verið allt frá hausverk til slysa þar sem hún þarf að veita fyrstu hjálp og senda þann slasaða á nærliggjandi heilsugæslu eða sjúkrahús.
„Ég hef stundum þurft að sauma fólk úti í móum eða uppi á jökli í alls konar veðrum. Ég þarf alltaf að meta hvað ég get klárað á tökustað en tíminn er peningar í kvikmyndabransanum og ef það þarf að senda leikara eða aðra frá tökustað til að, til dæmis, láta sauma nokkur spor, bíður kannski hundrað manna tökulið á meðan,“ útskýrir hún og segir að það hafi tekið sig mörg ár að átta sig á því að það er best þegar hún hefur ekkert að gera.
„Ef hjúkrunarfræðingurinn er verkefnalaus á setti, þá er enginn meiddur eða verkjaður en ég er þannig að mér finnst erfitt að gera ekki neitt og ef sú staða hefur komið upp þá hef ég farið í það að smyrja samlokur eða hjálpa til með öðrum hætti,“ segir hún hress í bragði. „Ég er alltaf til taks og er með talstöð svo hægt sé að ná í mig en ef verið er að taka upp áhættuatriði er ég kölluð á staðinn þar sem verið er að taka upp og má ekki víkja frá. Alltaf þegar verið er að taka upp við erfiðar aðstæður, jafnvel líka í slæmu veðri er ég ekki róleg fyrr en dagurinn er búinn. Það getur allt gerst þegar fólk er til dæmis að klöngrast í stórgrýti í stormi. Stundum fer heill dagur í að ná sandi úr augum ef það er verið að taka upp í sandstormi.“
Ættarmót á tökustað
Fjölbreytt, framandi og öðruvísi geta verkefni hjúkrunarfræðings á setti verið en hvað heillar Jónínu helst við þetta starf? „Þetta er mjög skemmtilegt og oft líka ævintýralegt en félagsskapurinn er það sem stendur upp úr. Líka það að fá að heimsækja staði sem ég myndi líklega ekki fara á eða komast á, ef út í það er farið. Að mæta á sett er eins og að mæta á ættarmót. Við erum öll verktakar og þetta er meira og minna alltaf sama fólkið sem fer í þessi kvikmyndaverkefni hér á landi. Við erum farin að þekkjast vel eftir mörg ár í bransanum. Það hefur verið rólegt út af faraldrinum en núna er allt að lifna við aftur sem er gaman.“
Jónína segir að verkefnin komi oft með litlum fyrirvara: „Stundum er ég beðin um að fara í tveggja vikna verkefni úti á landi með viku fyrirvara sem getur verið snúið þegar maður er í tveimur vaktavinnustörfum. Vinnuveitendur mínir hafa verið mér afar umburðarlyndir í gegnum tíðina og ég er þeim þakklát fyrir það. Ég er í 60 % starfi á bráðamóttökunni og 15% starfi á Læknavaktinni og hef ekki viljað binda mig meira. Ég vil hafa svigrúm til að sinna kvikmyndaverkefnum því þau gefa mér mikið. Í gegnum þau fæ ég að upplifa eitthvað sem ég myndi annars aldrei fá að upplifa og fæ að fara á ótroðnar slóðir og framandi staði sem eru forréttindi að mínu mati. Fyrir ekki alls löngu fór ég til dæmis með þyrlu upp á Skeiðarárjökul sem var gaman. Ég hef svo verið á tökustöðum í öllum seríum Game of Thrones sem teknar hafa verið upp að hluta til hér á landi. Ég hef unnið á setti við Kröflu, Mývatn, á Kárahnjúkum, Langjökli, Svínafellsjökli, í Ísafjarðardjúpi og svona mætti lengi telja,“ segir hún en bætir við að hún finni núna hjá sér þörf fyrir að eiga meiri tíma til að sinna fjölskyldunni. „En að vera hjúkrunarfræðingur á setti er fullkomið starf fyrir þá sem elska ævintýramennsku og vilja upplifa eitthvað nýtt.“
Lærði að hugsa út fyrir kassann á Gufuskálum
Aðspurð hvaða þekking úr starfi hafi nýst henni best á setti segir Jónína að námskeið sem hún sótti á Gufuskálum fyrir mörgum árum síðan hafi reynst henni ótrúlega vel í starfi á setti og breytt hugarfarinu.
„Þetta var vikunámskeið sem hét wilderness advanced life support og þarna sviðsettu þátttakendur, sem voru hjúkrunarfræðingar, læknar og slökkviliðsmenn, flugslys og alls konar slys og þurfu að læra að bjarga sér án þess að vera með tæki og tól sem vanalega eru til staðar í vinnuumhverfi okkar. Þarna lærði ég að hugsa út fyrir kassann; finna lausnir í flóknum aðstæðum sem hefur nýst mér sérlega vel í starfi hjúkrunarfræðings á setti. Auðvitað er líka öll mín reynsla af bráðamóttökunni og tengsl mín við hana ómetanleg,“ segir Jónína þakklát fyrir alla reynsluna því eftir spjall okkar er ljóst að hjúkrun í óbyggðum og óveðrum getur verið mikil áskorun og mikilvægt að pakka öllu mögulegu sem gæti komið að notum í sjúkratöskuna góðu.
Verkefni eru oft mörg og langir tökudagar fjarri mannabyggðum.
„Stundum fer ég í nokkurra vikna verkefni eins og þegar verið var að taka upp erlenda sjónvarpsseríu á Reyðarfirði. Þá er oft rólegt hjá mér fyrstu vikuna en þegar líður á aukast veikindi í hópnum. Sérstaklega þegar um lengri verkefni er að ræða. Fólk sefur oft lítið, vinnur gjarnan við erfiðar aðstæður og vinnudagar eru langir. „Þetta er alls ekkert glamúrlíf og þetta er oft skrítin hjúkrun, ef við getum orðað það þannig.“
Jónína segir kuldann oft vera erfiðustu áskorunina í þessu starfi: „Það getur verið rosalega erfitt að vera úti í kulda, roki og frosti, jafnvel uppi á jökli, í 12 tíma eða meira, samfleytt. Kuldinn er erfiðastur finnst mér, eins og þetta er dásamlegt starf í góðu verði. Þegar ég kem heim eftir langa vinnutörn er maður stundum búinn að gleyma hversdagslífinu og skilur ekkert að það þurfi að fara út í búð og þvo þvott,“ segir hún hlæjandi.
Ætlaði að verða kvikmyndastjarna
„Ég ætlaði mér aldrei að vinna á mörgum stöðum í einu. Nú á ég tvö barnabörn sem ég vil hafa meiri tíma fyrir og svo kláraði ég jógakennaranám í fyrra og langar að fara nýta það meira en það nýtist mér vel í starfi hjúkrunarfræðings. Oft er fólk á setti að bera þunga hluti til dæmis og biðja mig um verkjalyf vegna álags á stoðkerfið. Ég er, eftir þetta nám, hins vegar farin að kenna fólki að gera æfingar sem virka oft og þá er jafnvel hægt að sleppa verkjalyfjum en það er ekki alltaf tími fyrir þetta, en stundum.“
Að lokum spyr ég Jónínu hvort hún hafi alltaf ætlað sér að vera hjúkrunarfræðingur eða hvort eitthvað annað hafi heillað hana á yngri árum?
„Ég ætlaði alls ekki að læra hjúkrun. Ég ætlaði að verða kvikmyndastjarna, í dans- og söngvamyndum þegar ég var lítil eða vinna í sirkus,“ segir hún og hlær. En síðar þegar ég áttaði mig á hæfileikaleysinu, ætlaði ég í ferðamálafræði en þetta æxlaðist svona. Mamma var hjúkrunarfræðingur og pabbi læknir. Mig langaði að ferðast til Afríku og annarra fjarlægra landa og það var móðir mín sem hvatti mig til að fara í þetta nám af praktískum ástæðum. Hún sagði að ég yrði aldrei atvinnulaus og hún hafði rétt fyrir sér. Ég elska starfið mitt sem hjúkrunarfræðingur og það getur líka boðið upp á ferðalög og ævintýralegar upplifanir ef maður vill og þess vegna hef ég svo gaman af vinnu minni við kvikmyndatökur,“ segir hún að lokum og ljóst að fleiri kvikmyndaævintýri bíða Jónínu núna þegar heimsfaraldurinn er að fjarlægast.