Hjukrun.is-print-version

Alþjóðadagur hjúkrunarfræðinga 12. maí

RSSfréttir
12. maí 2022

Í dag, fimmtudaginn 12. maí, er alþjóðadagur hjúkrunarfræðinga. Dagurinn er haldinn árlega í tilefni af fæðingardegi Florence Nightingale.

 

Skortur á hjúkrunarfræðingum ógn við heiminn

 

Alþjóðaráð hjúkrunarfræðinga, ICN, gáfu út skýrslu í dag og segja í yfirlýsingu að skortur á starfsfólki vera stærstu hættuna sem heilbrigðiskerfi heimsins standa frammi fyrir. Alþjóðaráðið hvetur ríkisstjórnir heimsins til að fjárfesta í hjúkrunarfræðingum til að hægt sé að tryggja almennt heilbrigði á heimsvísu.

„Hjúkrunarfræðingar hafa gefið sig alla í baráttunni gegn Covid-19, Ebólu, störf á hamfarasvæðum og stríðssvæðum. Þrátt fyrir það þurfa hjúkrunarfræðingar horfa upp á mönnunarvanda, skort á öryggi við vinnu, mikið vinnuálag og lág laun. Það er kominn tími til að grípa til aðgerða til að auka öryggi á vinnustað, verja hjúkrunarfræðinga og tryggja bæði líkamlega og andlega heilsu þeirra,“ segir Pamela Cipriano, forseti ICN.

„Starfsmenn heilbrigðiskerfa heimsins eru 70 prósent konur en aðeins 25 prósent stjórnenda. Þær þurfa að bera allar þær byrgðar að vera í lágt launuðum störfum, vera ekki metnar að verðleikum ásamt því að þurfa oft að halda heimili og sjá um ólaunaða umönnun. Það er hægt að styrkja þessar konur og auka jafnrétti kynjanna með því að fjárfesta í hjúkrunarfræðingum.“

Cipriano segir að leiðbeiningar þess efnis liggi fyrir af hálfu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO. „Við vitum alveg hvað þarf að gera. Við þurfum að hætta að tala og grípa til aðgerða til að styðja við hjúkrunarfræðinga.“

Howard Catton, framkvæmdastjóri ICN, segir hjúkrunarfræðinga skipta sköpum bæði við að halda uppi heilbrigðiskerfum en líka við að viðhalda heimsfriði og öryggi þjóða. „Það gæti ekki verið skýrara að það er ekki nóg gert til að styðja hjúkrunarfræðinga og annað heilbrigðisstarfsfólk, það kom bersýnilega í ljós þegar 180 þúsund heilbrigðisstarfsmenn létu lífið í Covid-19 heimsfaraldrinum,“ segir hann. „Sá fjöldi hjúkrunarfræðinga sem vantar til starfa á heimsvísu er ein stærsta hættan sem heilbrigðiskerfin standa frammi fyrir en ríkisstjórnir eru ekki að gefa því nægan gaum. Aðgangur fólks að heilbrigðisþjónustu er lykilþáttur til að byggja upp öruggt, efnahagslega sterkt og farsælt þjóðfélag, það er ekki hægt ef það er ekki nóg af hjúkrunarfræðingum.“

Fram kemur í skýrslu ICN sem kemur út í dag að miðað við aldurssamsetningu þá sé þörf á 13 milljónum hjúkrunarfræðingum til starfa á næstu árum.

Þá séu hjúkrunarfræðingar mun líklegri til að verða fyrir kynferðislegri áreitni við störf en aðrar starfsstéttir. Tekið er dæmi frá Bandaríkjunum þar sem kannanir sýna að 64 prósent hjúkrunarfræðinga finnist álagið vera allt of mikið, þá eiga 67 prósent hjúkrunarfræðinga þar erfitt með svefn. Einnig er tekið dæmi frá Japan þar sem 20 prósent hjúkrunarfræðinga þar í landi fundu fyrir fordómum í Covid-19 faraldrinum.

Alls eru 130 þjóðir með félög sem eru hluti af ICN, þar á meðal Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga.

 

Þörf á að viðurkenna framlag hjúkrunarfræðinga

 

Evrópusamtök hjúkrunarfélaga segja í bréfi sínu til allra hjúkrunarfræðinga í Evrópu í tilefni Alþjóðadags hjúkrunarfræðinga, að dagurinn sé gott tækifæri til að hugsa til mikilvægra starfa hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra sem unnið eru á hverjum degi. „Þörfin til að viðurkenna framlag hvers hjúkrunarfræðings og hverrar ljósmóður er enn meiri í ár í ljósi Covid-19 faraldursins, í samhengi við áratugalanga vanfjárfestingu og nú síðast stríðsins í Úkraínu sem ógnar friði heimsins,“ segir í bréfinu.

„Á þessum degi, 12. maí 2022, ítreka Evrópusamtök hjúkrunarfélaga samstöðu sína með öllum hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum. Við vitum að hjúkrunarfræðingar og ljósmæður skipta sköpum í lífum fólks og það er með auðmýkt sem samtökin þakkar ykkur öllum fyrir ykkar framlag.“  

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála