Hjukrun.is-print-version

Þrír nýir stjórnarmenn og ný deild stofnuð á aðalfundi

RSSfréttir
12. maí 2022

Aðalfundur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga fór fram á Hilton Reykjavík Nordica og Teams fimmtudaginn 12. maí 2022. Í fyrsta sinn var notast við rafrænar kosningar og þannig hægt að gera hjúkrunarfræðingum kleift að taka þátt í fundinum án tilliti til staðsetningar. Á fundinum var stofnuð ný deild, Karladeild Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, deild sem er ætlað að auka aðsókn, draga úr brottfalli og vera ráðgefandi um málefni karla í hjúkrun.

Kosningar

Þrír nýir stjórnarmenn voru kjörnir á aðalfundinum. Sex voru í framboði og voru þær Anna Kristín B. Jóhannsdóttir, Guðlaug Ásta Gunnarsdóttir og Hulda Björg Óladóttir kjörnar í stjórn.

Stjórn Fíh 2022 til 2023

Anna Kristín B. Jóhannsdóttir
Guðbjörg Pálsdóttir - formaður
Guðlaug Ásta Gunnarsdóttir
Guðrún Yrsa Ómarsdóttir
Halla Eiríksdóttir
Hildur Björk Sigurðardóttir
Hulda Björg Óladóttir

Varamenn:
Ásdís M. Finnbogadóttir
Hulda Sveinbjörg Gunnarsdóttir

 

Ritnefnd Fíh 2022 til 2023

Kristín Linda Hjartardóttir
Páll Biering
Sigrún Sunna Skúladóttir
Sölvi Sveinsson
Þórunn Sigurðardóttir
Þorgerður Ragnarsdóttir
Þóra Jenný Gunnarsdóttir
 

Skoðunarmenn reikninga 

Herdís Herbertsdóttir
Þórgunnur Hjaltadóttir

 

Ársreikningar voru samþykktir sem og starfsáætlun næsta starfsárs. Engar lagabreytingar voru samþykktar.

 

 

Hvatningarstyrkir 

 

 

Katrín Ösp Jónsdóttir er sjálfstætt starfandi hjúkrunarfræðingur hjá Heilsu og sálfræðiþjónustunni á Akureyri. Hún hefur unnið ötullega að því að koma málefni samúðarþreytu í umræðuna. Mikil vinna er fram undan í þeim málum. Katrín Ösp er nú mastersnámi, þar er hún m.a. að skrifa um áföll í starfi hjúkrunarfræðinga.

 

Margrét Guðnadóttir er verkefnastjóri SELMA, sérhæft öldrunarteymi hjúkrunarfræðinga og Læknavaktarinnar sem tók til starfa hjá heimahjúkrun Reykjavíkurborgar árið 2020. Margrét hefur einstaka sýn á verkefnið, markmið þess og þróunarmöguleika með hag aldraðra í heimahúsum að leiðarljósi.

 

Atli Már Markússon hefur staðið fyrir námskeiði, kennslu og þjálfun fyrir hjúkrunarfræðinga sem vilja starfa í sjúkraþyrlum. Atli Már hefur gífurlegan metnað fyrir því að bæta þjónustu við sjúklinga utan sjúkrahúsa.

 

Stefanía Birna Arnardóttir starfar í Geðheilsumiðstöð barna og hefur verið í hópi frumkvöðla sem hafa vakið athygli á nauðsyn snemmtækrar íhlutunar þegar foreldrar með geðrænan vanda eiga von á barni. Stefanía Birna vinnur nú innan heilsugæslunnar þar sem foreldrum og ungbörnum er sinnt út frá tengslakenningum.

 

Hrafnhildur Lilja Jónsdóttir er kennslu- og þjálfunarstjóri á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Hún hefur unnið ötullega að því að byggja upp hermisetur á sjúkrahúsinu og sett metnað í að skipuleggja sérhæfð námskeið fyrir hjúkrunarfræðinga og annað starfsfólk. Hrafnhildur Lilja er einnig virk í alþjóðlegu samstarfi, þar á meðal við eflingu á námi í sjúkraflutningum.

 

Styrkhafar B-hluta Vísindasjóðs

 

 

Alma Rún Vignisdóttir

Reynsla hjúkrunarstjórnenda af endurkomu í vinnu eftir fæðingarorlof

 

Elísabeth Tanja Gabríeludóttir

Reynsla einstaklinga af því að lifa af hjartastopp: Sálrænar áskoranir og þörf fyrir faglegan stuðning

 

Emilía Fönn Andradóttir

Upplifun kvenna af því að greinast með meðgöngusykursýki

 

Guðrún Stefánsdóttir

Eftirlit með lífsmörkum og einkennum nýbura. Þýðing, staðfæring og forprófun matsskalans „Newborn Early Warning Trigger and Track (NEWTT)“

 

Guðrún Kristjánsdóttir

Áhrif innlagnar barns á nýburagjörgæslu og almenna gjörgæslu vegna hjartasjúkdóms á álag, líðan, og heilsu foreldra (sjálfstæð framhaldsumsókn og hluti af fyrra verkefni)

 

Helga Bragadóttir

Óframkvæmd hjúkrun, teymisvinna, mönnun og forysta á hjúkrunarheimilum á Íslandi – forrannsókn

 

Helga Jóhannesdóttir

Reynsla nýútskrifaðra hjúkrunarfræðinga af fyrstu árunum í starfi

 

Ingibjörg Ósk Guðmundsdóttir

Reynsla eldri borgara með sykursýki gerð 2 af sykursýkismóttöku á vegum heilsugæslunnar

 

Karólína Andrésdóttir

Hæfni, þjálfun og viðhorf heilbrigðisstarfsfólks Heilbrigðisstofnunar Austurlands til starfa í hópslysum og náttúruhamförum samkvæmt viðbragðsáætlun

 

Sóley Sesselja Bender

Sálræn vellíðan og útivist (psychological well-being and nature exposure)

 

Þuríður Geirsdóttir

Undirbúningur og raunstaða föstu hjá öldruðum sem mjaðmabrotna og fara í aðgerð á Landspítalanum

 

Unnur Guðjónsdóttir

Reynsla einstaklinga með offitu af notkun heilbrigðiskerfisins

 

Ályktanir

Sex ályktanir voru samþykktar, þær eru eftirfarandi:

1) Aðalfundur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga 12. maí 2022 hefur gífurlegar áhyggjur af vöntun á hjúkrunarfræðingum til starfa og skorar á yfirvöld að bæta kjör og starfsumhverfi til að fjölga hjúkrunarfræðingum í heilbrigðiskerfinu.

Tryggja þarf nægan fjölda útskrifaðra hjúkrunarfræðinga og draga úr brottfalli þeirra úr starfi skömmu eftir útskrift. Það er mikilvægt að mönnun hjúkrunarfræðinga sé tryggð til lengri og skemmri tíma. Sporna þarf við því að hjúkrunarfræðingar sæki í önnur störf og fá þá sem hafa horfið til annarra starfa aftur til baka. Leiðirnar til þessara bráðnauðsynlegu úrbóta er að finna í skýrslum heilbrigðisráðuneytisins Mönnun hjúkrunarfræðinga (2020) og Tillögur til fjölgunar útskrifaðra hjúkrunarfræðinga (2020) sem og eldri skýrslum sem innihalda sömu tillögur.

 

2) Aðalfundur Fíh skorar á heilbrigðissráðherra að beita sér fyrir leiðréttingu á kynbundnum launamun hjúkrunarfræðinga.

Útrýma þarf kynbundnum launamun sem fram kom meðal annars í niðurstöðu Gerðardóms árið 2020. Þar segir að vísbendingar eru um að hjúkrunarfræðingar séu vanmetin kvennastétt með tilliti til launa og ábyrgðar í starfi. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar segir að farið verði í aðgerðir til að draga úr kynbundnum launamun og jafnréttismál verði alltaf í forgrunni við ákvarðanatöku. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga fer fram á að unnið verði markvisst að því að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði og kerfisbundnu vanmati á störfum þar sem konur eru í meirihluta.

 

3) Aðalfundur Fíh skorar á heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir lagasetningu um mönnunarviðmið í heilbrigðiskerfinu til að tryggja öruggara starfsumhverfi og betri gæði heilbrigðisþjónustunnar.

Mikilvægi viðeigandi mönnunar er ótvírætt og ljóst að ófullnægjandi mönnun hjúkrunarfræðinga innan heilbrigðiskerfisins er farin að ógna öryggi skjólstæðinga og starfsfólks. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga krefst þess að sett verði viðmið um mönnun hjúkrunarfræðinga sambærileg og hjá þjóðum sem við viljum bera okkur saman við til að hægt sé að meta stöðuna út frá þjónustunni sem við veitum. Fjölþjóðlegar rannsóknir hafa sýnt fram á að lögfesting mönnunarviðmiða eykur mönnun hjúkrunarfræðinga og bætir þar með gæði þjónustunnar og öryggi skjólstæðinga.

 

 

4) Aðalfundur Fíh fer fram á að heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra leggi fram tillögu að lagabreytingum í tengslum við tilkynningar, rannsókn og málsmeðferð alvarlegra atvika í heilbrigðisþjónustu þar sem hjúkrunarfræðingar og annað heilbrigðisstarfsfólk kemur við sögu. Framganga yfirvalda í garð hjúkrunarfræðinga á síðustu árum kallar á breyttan lagaramma.

 

5) Aðalfundur Fíh skorar á heilbrigðisráðherra að skipa stöðu yfirhjúkrunarfræðings í efsta lagi stjórnsýslu heilbrigðismála í samræmi við tilmæli Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, WHO.

Hjúkrunarfræðingar gegna ótvíræðu forystuhlutverki við skipulagningu heilbrigðisþjónustu og veitingu hennar á öllum þjónustustigum. Til að hægt sé að ná fram markmiðum heilbrigðisstefnu stjórnvalda þarf fjölmennasta heilbrigðisstéttin að koma að borðinu. Í nýlegri skýrslu WHO er áréttað mikilvægt hlutverk hjúkrunarfræðinga við uppbyggingu heilbrigðiskerfa heimsins. Bendir WHO á að staða yfirhjúkrunarfræðings sé mikilvæg til þess að bæta heilbrigðisþjónustu í landinu.

„Hjúkrunarfræðingar eru hryggjarstykkið í heilbrigðiskerfi allra landa,“ sagði dr. Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri WHO. „Þessi skýrsla er áþreifanleg áminning um einstakt hlutverk hjúkrunarfræðinga og áminning um að tryggja að þeir fái þann stuðning sem þeir þurfa til að halda heiminum heilbrigðum. Um allan heim sýna þeir samúð sína, hugrekki, fagmennsku og áræði þegar þeir bregðast við COVID-19-heimsfaraldrinum. Aldrei áður hefur verið sýnt fram á gildi þeirra með skýrari hætti en nú.“

 

6) Aðalfundur Fíh beinir því til heilbrigðisráðherra að tryggja greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í heilbrigðisþjónustu sem veitt er af hjúkrunarfræðingum.

Nauðsynlegt er að auka kaup hins opinbera á sjálfstæðri þjónustu hjúkrunarfræðinga til að tryggja bætt aðgengi notenda heilbrigðisþjónustunnar og auka skilvirkni í heilbrigðiskerfinu. Slíkt stuðlar að aukinni nýsköpun og hagkvæmni í heilbrigðiskerfinu ásamt nýjum þjónustuleiðum í samræmi við þarfir notenda hennar.

 

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála