Hjukrun.is-print-version

Vaktin mín: Gjörgæsludeildin á Hringbraut

RSSfréttir
19. maí 2022

Áslaug Arnoldsdóttir gjörgæsluhjúkrunarfræðingur

Gjörgæsludeildin á Hringbraut sinnir mjög fjölbreyttum sjúklingahópi, bæði börnum og fullorðnum; fólki eftir stórar aðgerðir eða alvarleg veikindi sem þarf á flókinni gjörgæslumeðferð að halda til lengri eða skemmri tíma. Deildin sérhæfir sig meðal annars í meðferð sjúklinga með vandamál frá hjarta og æðakerfi, lungum, nýrum og meltingu. Deildin er sjö rúma deild og er ein þriggja gjörgæsludeilda á landinu.

Mig hafði lengi langað að vinna á gjörgæslunni en lét ekki verða af því fyrr en sjö árum eftir útskrift þá með nokkurra ára reynslu frá hjartadeild og af störfum erlendis í farteskinu. Síðan þá eru liðin 21 ár og mikil breyting hefur orðið á starfsemi deildarinnar á þeim tíma svo ekki sé minnst á aukið álag. Þrátt fyrir það er alltaf viss eftirvænting að mæta til vinnu enda tel ég að vandfundið sé eins frábært samstarfsfólk og þar.

 

Kvöldvakt

 

Vaktin byrjar klukkan 15 en ég er mætt snemma. Mér finnst gott að taka inn stemninguna á deildinni áður en ég byrja og fá mér einn kaffibolla með þeim sem eru að koma á kvöldvaktina með mér. Fá að heyra aðeins hvernig gengur með ákveðna sjúklinga, skoða planið fyrir vaktina og undirbúa mig fyrir verkefnin sem fyrir liggja. Á þessari vakt er deildin full, þar af eru tveir sjúklingar með virka COVID-19 sýkingu og þegar ég geng inn á deildina sé ég samstarfsfólk klæða sig í hlífðarfatnað sem þarf að vera í til að sinna þeim sjúklingum af öryggi.

Þessa vakt er ég vaktstjóri, ég byrja á því að spjalla við vaktstjóra morgunvaktar. Þá fæ ég yfirsýn yfir þá sjúklinga sem liggja á deildinni og við förum yfir mönnun. Við erum sammála um að mönnun næturvaktar sé tæp og ekki megi mikið út af bregða því hlutirnir geti breyst hratt á gjörgæsludeild. Við förum yfir möguleika í stöðunni og ákveðum að ég skuli reyna að finna einhvern sem getur verið á aukavakt næstu nótt. Ég sendi nokkur SMS til starfsmanna sem eru í fríi og set inn færslu á Facebook-síðu hjúkrunarfræðinga deildarinnar og spyr hvort einhver geti komið á aukavakt. 

Yfirfærsla klínískrar ábyrgðar á milli vakta er misjafnlega útfærð eftir deildum en á gjörgæslunni fer hún oft fram við rúm sjúklings. Það er að mörgu að hyggja og vaktaskiptin eru oft notuð til skoðanaskipta um hjúkrunarmeðferð sjúklings þar sem ýmsar hugmyndir eru ræddar. Að því loknu gera hjúkrunarfræðingar .og gesti﷽ilja við en ekki s´sit af virðingu við þann sem er að skilja við en ekki söryggistékk þar sem farið er yfir tækjabúnað, lyf og annað í umhverfi sjúklings sem gæti þurft að nota á vaktinni sem fram undan er.

Venjulega er einn hjúkrunarfræðingur með hvern sjúkling, stundum tveir ef sjúklingur er mjög krítískt veikur eða í einangrun. Sjúklingar á gjörgæslu eru í langflestum tilvikum undir ströngu eftirliti sem þýðir meðal annars að þeir eru aldrei skildir eftir einir, það eru alltaf hjúkrunarfræðingar og/eða sjúkraliðar á sjúkrastofunni.

Ég fer á allar stofur til að sjá hvort ég get aðstoðað. Það er yfirvofandi andlát á deildinni og þann sjúkling þarf að flytja á einbýli og til þess þarf margar hendur. Að því loknu slökkvum við ljós á ganginum á deildinni. Það er gert af virðingu við þann sem er að skilja við en ekki síst til að minna starfsfólk og gesti deildarinnar á að ganga hljóðlega um. Ég er svo hjá sjúklingnum á meðan sá hjúkrunarfræðingur sem hugsar um hann fer inn í aðstandendaherbergi og ræðir við fjölskyldu sjúklingsins.

Á annarri stofu á að taka sjúkling sem var í opinni hjartaaðgerð fyrr um daginn á rúmstokk og ég fer til að aðstoða við það.  Til þess þarf a.m.k. þrjá starfsmenn þar sem sjúklingurinn er enn tengdur við hjartarafsjá, vökvadælur og dren svo ekki sé minnst á að einn og einn sjúkling svimar við fyrstu framúrferð og þá er gott að hafa margar hendur til stuðnings. 

Ég kíki á vaktstjórasímann til að sjá hvort einhver hafi svarað beiðni minni um að koma á næturvaktina og þá hringir hann. Í símanum er hjúkrunarfræðingur af legudeild á Hringbrautinni. Fyrr um daginn hafði verið útskrifaður til þeirra sjúklingur af gjörgæslunni og sú sem hringir vill fá ráðgjöf. Gjörgæsludeildir Landspítala veita legudeildum á Hringbraut og í Fossvogi formlegan stuðning, meðal annars með eftirliti með ákveðnum sjúklingum, eftir útskrift af gjörgæslu. Þetta kallast eftirgæsla. Eftirgæsla er reglubundið mat og eftirlit með sjúklingi sem legið hefur á gjörgæslu í að minnsta kosti 72 tíma.

Klínískir sérfræðingar í gjörgæsluhjúkrun sinna eftirgæslu á dagvinnutíma, utan þess tíma, sinna eftirgæslu annaðhvort vaktstjórar á gjörgæsludeildum eða þeir hjúkrunarfræðingar sem hjúkruðu viðkomandi í gjörgæslulegunni. Ég þekki sjúklinginn sem um ræðir og læt samtarfsfólk mitt vita að ég fari af deildinni til að kíkja á hann. Þegar ég kem á deildina, byrja ég á því að tala við hjúkrunarfræðinginn sem er ábyrgur fyrir sjúklingnum og við förum svo saman til sjúklingsins. Þegar málið hefur verið leyst sammælumst við um að gjörgæsluhjúkrunarfræðingur á næturvakt muni hringja til að heyra hvernig gangi.

Á leiðinni til baka kem ég við í matsalnum og kippi með mér einhverjum kræsingum í kvöldmatinn. Vaktin líður áfram, við skiptumst á að fara í mat og þegar allir eru komnir til baka hjálpumst við að með hin ýmsu verk, aðhlynningu, sáraskipti, lyfjagjafir, framúrferðir, blóðprufur, samtöl við ættingja, annaðhvort í síma eða á deildinni, og skráningu svo eitthvað sé nefnt.

Enn hringir síminn og áður en ég svara honum, loka ég augunum og sendi beiðni út í kosmosið um að þetta sé einhver að segjast ætla að fórna nætursvefninum og koma á næturvakt. Í símanum er hins vegar sérfræðingurinn á vaktinni. Hún segir mér að á leiðinni í hús sé maður sem hafi farið í hjartatopp í heimahúsi og þurfi á gjörgæslu að halda. Hann muni fyrst fara í hjartaþræðingu og sneiðmyndatöku en koma að þeim rannsóknum loknum á deildina. Ég er eini lausi hjúkrunarfræðingurinn svo það gefur auga leið að ég taki við sjúklingnum sem er á leiðinni til okkar. 

Við hjálpumst að við að undirbúa komu hans, yfirfara stæði og tækjabúnað og blanda þau lyf sem við þurfum til að meðhöndla sjúklinginn. Ég bið einn af sjúkraliðunum okkar að fara með gjörgæslurúm á hjartaþr kollegum af morgunvaktinni eða tandendur mannsins.   sjð sj að skilja við en ekki sæðingarstofuna svo hægt sé að flytja sjúklinginn upp til okkar á öruggan hátt. Það er allt tilbúið fyrir komu sjúklings og ég tek mér tíma til að kíkja enn á vakstjórasímann. Þar leynist SMS frá hjúkrunarfræðingi sem er til í að koma á næturvaktina. Ég hringi strax í hana til að staðfesta vaktina og bæti henni á planið. 

Ég nýti tímann áður en sjúklingurinn, sem ég á að taka við, kemur á deildina til að heyra í öllum hjúkrunarfræðingum vaktarinnar um ástand sjúklinganna til að geta gefið næsta vaktstjóra yfirsýn yfir deildina. Renni yfir mönnun og ráðfæri mig við góðan kollega um niðurröðun verkefna fyrir næstu vakt og við gerum smávægilegar breytingar.

Enn hringir síminn og í þetta skipti er það sérfræðingurinn okkar að láta vita að þau séu á leiðinni á deildina með sjúklinginn. Ég finn hvernig púlsinn verður aðeins hraðari því verkefnið fram undan er bæði krefjandi og spennandi. 

Þegar nýr sjúklingur leggt inn á deildina eru allir tilbúnir að aðstoða. Móttakan gengur vel, sjúklingurinn er í öndunarvél og með sídreypi í æð sem styðja við hjarta og æðakerfi og lyf til slæfingar. Við tengjum hann í hjartasírita og getum þannig séð í beinni útsendingu helstu lífsmörk eins og púls, blóðþrýsting, öndunartíðni og hita og getum brugðist við hratt og örugglega ef einhverjar breytingar verða. Ég fer yfir meðferðina með sérfræðingi og við leggjum línur fyrir næstu klukkustundirnar.

Tíminn hefur liðið hratt og áður en ég veit af er næturvaktin mætt. Við förum yfir mál sjúklingsins, fyrirhugaða meðferð og hvað hefur þegar verið gert. Ég veit að ég skil sjúklinginn minn eftir í öruggum höndum og fer og leita uppi vaktstjóra næturvaktarinnar til að gefa henni yfirsýn yfir deildina og plön morgundagsins. Þau geta auðveldlega riðlast, þannig er starfsemi gjörgæslunnar einfaldlega. Þar breytast hlutirnir hratt og ég veit að þegar geng inn á deildina á næstu vakt gætu aðstæður á deildinni verið allt aðrar. Það og akkúrat það er það besta en líka það erfiðasta við að vinna á gjörgæslu.

Vaktinni minn er lokið og ég geng út af deildinni, tæmi hugann og það eina sem ég spái í núna er hvaða leið ég ætla að ganga heim.

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála