Anna María Þórðardóttir, sérfræðingur í bráðahjúkrun, hefur verið tilnefnd í starfshóp ráðherra sem meta á möguleika þess að afnema refsiábyrgð heilbrigðisstarfsfólks vegna atvika í heilbrigðisþjónustu.
Anna María hefur áralanga reynslu við greiningu og úrvinnslu atvika á Landspítala og jafnframt veitt slíka ráðgjöf til annarra heilbrigðisstofnana.
Starfshópurinn var skipaður 19. maí, Fíh gerði athugasemd við að ekki var hjúkrunarfræðingur í hópnum og brást ráðherra skjótt við bréfi Fíh með því að óska eftir tilnefningu hjúkrunarfræðings.
Ráðherra hefur falið starfshópnum að leggja til útfærslu á lagabreytingu og einnig að meta hvort setja eigi í sérlög ákvæði um svokallaða cumulativa hlutlæga refsiábyrgð heilbrigðisstofnana, eða ábyrgð án sakar.
Starfshópurinn á að hafa víðtækt samráð við hagsmunaaðila, s.s. félög heilbrigðisstarfsfólks, auk félaga, samtaka og annarra sem geta talað máli notenda heilbrigðisþjónustu. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili ráðherra niðurstöðum sínum eigi síðar en 1. september næstkomandi.