Ráðstefnan Handleiðsla og nýhugsun verður haldin 23. júní kl. 9-17 á Grand Hótel Reykjavík.
Umræðan um starfstengda streitu og kulnun hefur oft falist í fræðslu um einkenni og skilgreiningar en félagslegri vinnuvernd innan fyrirtækja og stofnana verið gefinn minni gaumur. Handleiðslufélag Íslands hefur ávallt lagt ríka áherslu á forvarnargildi handleiðlsu sem verndandi og sjálfsagðan þátt í vinnuvernd og fagvernd.
Á ráðstefnunni verður farið yfir nýjustu rannsóknir um kulnun en dr. Ingibjörg Jónsdóttir, forstöðumaður Streiturannsóknarstofnunar Gautaborgar mun fjalla um orsakir, forvarnir og meðhöndlun. Miriam Ullrich, stjórnarfulltrúi Evrópusamtaka handleiðara (ANSE) mun fræða um tilgang og gæðaviðmið samtakanna ásamt því að segja frá því sem er helst á döfinni í nánustu framtíð. Gerian Dijkhuzen, fulltrúi landsamtaka handleiðara og markþjálfa í Hollandi mun vera með vinnustofu þar sem skapandi aðferð í handleiðslu verður kynnt og leggur hún áherslu á að nota fleiri aðferðir en samtalið.
Ráðstefnustjóri er Ingibjörg Isaksen, alþingismaður, en hún hefur látið sig líðan starfsmanna í velferðarþjónustu varða og lagði meðal annars fram þingsályktunartillögu þess efnis að fela heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp til að greina og gera tillögur að fyrirkomulagi til að efla geðheilsu fagfólks sem vinnur við að hjálpa öðrum. Tillagan hefur nú þegar verið til umfjöllunar hjá Velferðarnefnd alþingis.
Hljómsveitin Eva mun krydda ráðstefnuna en þær stöllur hafa lengi fjallað um áhrif streitu og kulnunar og luma á ýmsum góðum ráðum. Í lok ráðstefnunnar verður boðið upp á hanastél í tilefni afmæli Handleiðslufélags Íslands en það var stofnað 23. júní árið 2000. Hátíðarkvöldverður er síðan valmöguleiki fyrir alla ráðstefnugesti og greiðist sér.
Síðast en ekki síst ber að nefna að Ella Kristín Karlsdóttir, formaður mun setja ráðstefnuna og mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, mun flytja ávarp.
Handleiðslufélag Íslands - Handís er þverfaglegt félag og vonar að efni ráðstefnunar höfði til allra þeirra sem vilja efla sig í starfi og hlúa að líðan í starfi.