Síðustu daga og vikur hef ég ásamt starfsfólki kjara- og réttindasviðs farið hringferð um landið til að heyra hljóðið í hjúkrunarfræðingum. Á rúmum mánuði héldum við á þriðja tug funda og hef ég heyrt á þriðja hundrað hjúkrunarfræðinga tala opinskátt um störf sín síðasta vetur, í heimsfaraldrinum og hvernig sumarið fram undan horfir við þeim.
Fundarröð Fíh um landið
Það var mjög gott að fá loksins tækifæri til að hitta hjúkrunarfræðinga augliti til auglitis, á þeirra vettvangi eftir meira en tvö ár af Covid-19 faraldri. Faraldurinn snerti alla hjúkrunarfræðinga og þjóðin sá það skýrt að ekki hefði verið hægt að komast í gegnum þetta jafn klakklaust, ef ekki hefði verið fyrir þeirra óeigingjörnu störf. Landspítali og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins voru hvað helst áberandi í fjölmiðlaumfjöllun um faraldurinn og er ástæðan fyrir því nálægð við stóru fjölmiðlana. Covid var líka á öllum öðrum heilbrigðisstofnunum og hjúkrunarheimilum, það var enginn undanskilinn. Þó svo að þjóðfélagsumræðan kunni að stikla á stóru þá er það hlutverk Fíh að minna á heildarmyndina að þegar kemur að stefnumótun og ákvarðanatöku.
Það á enginn að vera einn
Hjúkrunarfræðingar hafa viðrað miklar áhyggjur af mönnun í sumar. Dæmi eru um að enginn sæki um lausa stöðu né komi í sumarafleysingar. Til að bæta þá stöðu þarf að setja mönnunarviðmið sem meinar heilbrigðisstofnunum að starfa undir lágmarksmönnun. Enginn vill vera aleinn með of marga sjúklinga á sinni ábyrgð. Það hefur sýnt sig víða um heim að þegar tryggt er að slíkt gerist ekki, þá langar hjúkrunarfræðinga að koma til starfa. Þetta óheilbrigða starfsumhverfi hefur leitt til þess að hjúkrunarfræðingar geta ekki að fullu aðskilið vinnu og einkalíf vegna áreitis um að koma til vinnu utan þeirra vinnuskyldu.
Eins og við vitum þá gerast flestar breytingar hægt og það þarf að berjast fyrir öllum breytingum, sama hversu sjálfsagðar þær eru. Það er hlustað á okkur þegar við stöndum saman, heilbrigðisráðherra brást vel við áskorun síðasta aðalfundar um að leiðrétta kynbundinn launamun, sagði hann að stjórnvöld væru að vinna að því sama. Boltinn er svo hjá okkur að minna á þetta við samningaborðið á komandi kjarasamningavetri. Hver hjúkrunarfræðingur er þess virði.
Tæmum ekki batteríin
„Þetta er búið að vera ótrúlega þungt og sumarið framundan verður bara þyngra,“ er setning sem ég heyrði reglulega á fundunum núna í maí. Þetta er bein afleiðing af áratugalöngu tali um að „stelpurnar hlaupa bara hraðar og redda þessu“.
Við þurfum að sýna okkur mildi. Sömu mildi og við sínum okkar skjólstæðingum.
Við erum harðkjarna fagstétt og þurfum ekki að láta klappa fyrir okkur eða heyra hvað við séum frábær. Við þurfum aftur á móti að vera metin að verðleikum og muna að við gerum engum greiða til lengri tíma að keyra okkur út. Hver og einn þarf að finna leið til að setja mörk þegar kemur að vinnunni. Við verðum að finna jafnvægið milli vinnu og einkalífs og virða það eftir bestu getu því það gerir það enginn fyrir okkur. Notum því sumarið á milli vakta og sumarfríið til að hlaða batteríin og pössum okkur á að tæma þau ekki. Farðu eftir eigin ráðum sem þú myndir ráðleggja þínum skjólstæðingi í þessari stöðu og sýndu þér frekar mildi.