„Bæta þarf starfsaðstæður hjúkrunarfræðinga, draga þarf úr álagi og samþykkja mannsæmandi laun fyrir stéttina í samræmi við álag. Gerðardómur í þriðja sinn er eitthvað sem má ekki gerast,“ sagði Guðný Birna Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur og varaþingmaður, í sinni fyrstu ræðu á Alþingi. Guðný Birna sat í stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga 2020 til 2022.
Í umræðum undir liðnum Störf þingsins í morgun benti hún á að ekki væri notast við skilgreind mönnunarviðmið sem miða við starfsálag sem hver starfsmaður getur sinnt, á meðan væri gengið á starfsfólkið.
„Við göngum endalaust á fólkið sem mætir þar til við klárum það, þau gefast upp og hætta og almenningur þjáist fyrir það,“ sagði hún.
„Bæta þarf starfsaðstæður hjúkrunarfræðinga, draga þarf úr álagi og samþykkja mannsæmandi laun fyrir stéttina í samræmi við álag. Gerðardómur í þriðja sinn er eitthvað sem má ekki gerast.“
Spurði hún svo þingheim: „Er ekki komið nóg af þessu ástandi?“