Hjukrun.is-print-version

Stóðu vaktina í Laugavegshlaupinu

RSSfréttir
24. júní 2022

Sölvi Sveinsson skrifar:

Laugavegshlaupið verður haldið þann 16. júlí næstkomandi en hlaupið er um 55 kílómetrar þar sem þátttakendur hlaupa úr Landmannalaugum í Þórsmörk. Leiðin er krefjandi, hlaupið er í snjó, yfir ár, í gegnum hraun og sanda með tilheyrandi brekkum.

Í fyrra, þegar hlaupið var haldið 17. júlí, var bæði mótvindur, sól og talsverður hiti sem gerði mörgum hlaupurum erfiðara fyrir.

Fjórir hjúkrunarfræðingar og einn læknir sinntu sjúkragæslu í Þórsmörk og einn hjúkrunarfræðingur var við Emstrur en alls kláruðu um 450 hlauparar hlaupið í ár. Við endamarkið í Þórsmörk var reist sjúkratjald sem allir hlauparar fóru í gegnum. Tjaldið var tvískipt þar sem frískir hlauparar sátu í stólum en fyrir þá sem þurftu meiri aðhlynningu voru legubekkir. Helstu verkefnin í sjúkratjaldinu fólust í því að sjá til þess að hlaupararnir fengju næringu og drykki en einnig þurfti að búa um sár og hrufl. Nokkrir þátttakendur þurftu að fá æðalegg og vökva í æð og vöðvakrampar og verkir hér og þar hrjáðu nokkuð marga hlaupara eftir þessa hrjóstrugu og löngu leið.

Dagmar Hlín Valgeirsdóttir, Brynja Böðvarsdóttir, Sölvi Sveinsson, Birna Björnsdóttir, hjúkrunarfræðingar, og Fjóla Dögg Sigurðardóttir, læknir. Mynd/Brynja Böðvarsdóttir


Skemmtileg áskorun að vinna í sjúkratjaldi fjarri mannabyggðum

Það var áberandi hversu miklar tilfinningar hlaupararnir upplifðu þegar þeir komu í mark, bæði gleði og sorg. Líkt og gengur og gerist náðu sumir markmiði sínu en aðrir ekki. Í sjúkratjaldinu skapaðist skemmtileg stemning þar sem hlauparar deildu upplifun sinni af hlaupinu hver með öðrum. Að fá að taka þátt í sjúkragæslu fjarri mannabyggðum var áhugavert og hollt fyrir mig sem hjúkrunarfræðing. Að stíga fyrir utan hið hefðbundna sjúkrahúsumhverfi og þurfa að bjarga sér var áskorun því starfsaðstæðurnar voru svo gjörólíkar því sem ég þekki úr mínu starfi á Landspítala.

Dagurinn var annasamur og langur en að sama skapi skemmtilegt ævintýri. Ég gæti vel hugsað mér að sinna fleiri svona verkefnum í framtíðinni og læt nokkrar svipmyndir úr sjúkragæslunni í Þórsmörk í sumar fylgja með svo lesendur fái betri innsýn í stemninguna og aðstæður á staðnum.

Vefur Laugavegshlaupsins

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála