Halla Eiríksdóttir, varaformaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga
„Þetta sumar verður það versta til þessa,“ sagði hjúkrunarfræðingur við mig um daginn. Flestir hjúkrunarfræðingar fá sem betur fer að fara í samfellt fjögurra vikna frí núna í sumar en gera það með jafnvel með sektarkennd því að samstarfsfólkið þarf að hlaupa hraðar á meðan, þar sem ekki hefur tekist að fylla upp í lausar stöður.
Í þessu ástandi spyr maður sig, hver er ábyrgð vinnuveitanda gagnvart starfsfólki sínu? Og hvers vegna ætla vinnuveitendur hjúkrunarfræðingum að hlaupið hraðar og hraðar? Hvers vegna endurtekur sagan sig á hverju sumri? Það læðist að manni sá grunur að heilbrigðiskerfið í heild njóti góðs af vilja hjúkrunarfræðinga til að hjálpa skjólstæðingum sínum og samstarfsfólki.
En það eru fleiri atriði sem valda áhyggjum þegar horft er inn í sumarmánuðina. Mikil vöntun er á faglærðu og reyndu starfsfólki getur ýtt undir óöryggi í starfi. Það og hraðinn eykur hættuna á mistökum.
Að bregðast samstarfsfólki með því að standa með sjálfum sér og neita að koma á aukavaktir veldur svo meiri vanlíðan. Við erum nú komin með fyrirbærið „samviskubitaáreiti“ sem felur í sér reglulegt áreiti samstarfsmanna í gegnum síma og samfélagsmiðla til að fá hjúkrunarfræðinga á aukavakt þegar þeir eiga að vera í fríi og vilja ekki meiri vinnu.
Ábyrgð vinnuveitenda er mikil
Hjúkrunarfræðingar eru starfandi í heilbrigðiskerfi og vegna fjölda þeirra mynda þeir stóran hluta þess mannafla sem það er byggt á í kerfinu. Hjúkrunarfræðingar starfa á margan hátt við óviðunandi aðstæður í vinnu og mæta á sama tíma reglulega gagnrýni gagnvart heilbrigðiskerfinu úti í samfélaginu. Þurfa sumir jafnvel að vera málsvarar fyrir vinnustaðinn eða allt heilbrigðiskerfið.
Millistjórnendur eru í skrúfstykkinu. Þeir þurfa að mæta kröfum yfirmanna sinna um rekstur deilda sem eru vanmannaðar og eru með óánægju starfsmanna alfarið á sínum herðum. Fæstir millistjórnendur fá þann stuðning sem til þarf til að standa af sér þennan ágang. Þetta er fólkið sem fer einna verst út úr vinnuálagi og endar í langtímaveikindum.
Þarna er ábyrgð vinnuveitenda mikil. Mín niðurstaða er að heilbrigðiskerfið á ágætar byggingar með hita og ljós en innihaldið er að nálgast það sem við þekkjum frá þróunarlöndum. Kröfur vestrænnar menningar um heilbrigðisþjónustu sem einkennist af fagmennsku, hátækni og öryggi er ekki borin uppi af fámennri stétt. Þjónustan er að færast nær því sem einkennir tilviljunarkennda þjónustu í stað samfelldrar og faglegrar heilbrigðisþjónustu. Ríkisvaldið er með flesta hjúkrunarfræðinga í starfi og ráðuneyti málaflokksins æðsta yfirvaldið en í áranna rás hefur fjármagn verið helsta umræðuefni milli forstjóra stofnana og ráðuneytis í stað þess að heilbrigðisþjónusta og þróun hennar sé meginstefið.
Hjúkrunarfræðingar eru útsettari fyrir meðvirkni
Á meðan við höldum áfram að berjast fyrir því að eitthvað verði að gert þá verða hjúkrunarfræðingar að gæta sín. Þeir þurfa að hlúa betur að eigin heilsu og draga úr meðvirkni gagnvart vinnustaðnum. Þekkja leiðir til að standa með sjálfum sér og leita sér aðstoðar ef með þarf. Meðvirkni er þekkt fyrirbæri meðal umönnunaraðila og eru hjúkrunarfræðingar útsettari fyrir þeim kvilla sökum vinnu sinnar.
Það er engin lagaleg skylda til að vera inn í Facebook-hóp vinnustaðarins, hvað þá að vera með kveikt á hópspjalli þar sem sífellt er verið að óska eftir fólki á vakt. Munið að það þarf ekki að koma með neina afsökun fyrir því hvers vegna þú vilt ekki vinna umfram vinnuskyldu. Það þarf ekki að vera ferðalag, afmæli eða brúðkaup, þú mátt alveg vera heima og gera ekki neitt. Þegar upp er staðið er engum greiði gerður með því að vinna umfram eigin mörk, slíkt endar aldrei vel.
Hjúkrunarfræðingar, standið með sjálfum ykkur og þekkið ykkar mörk.