Kjara- og réttindasvið Fíh átti góðan fund með trúnaðarmönnum hjúkrunarfræðinga í vikunni. Rætt var um kjarabaráttuna framundan þar sem gildandi kjarasamningur rennur út 31. mars næstkomandi.
Einnig var farið yfir sumarið, flestir hjúkrunarfræðingar fengu sumarfrí en víða var skortur á afleysingum. Margir nefndu að á meðan á orlofinu stóð hafi áhyggjur af þeim sem stóðu vaktina í þeirra fjarveru haft áhrif í fríinu. Hægt var að draga úr starfsemi á sumum stöðum á meðan meira álag var á þeim sem voru við vinnu á meðan aðrir voru í sumarfríi. Mikið var um aukavaktir vegna víðtæks mönnunarvanda.
Sérstaklega var rætt um stöðuna á Sjúkrahúsinu á Akureyri í sumar, álagið var mikið, sjúkrahúsið sett á óvissustig og kalla þurfti á hjúkrunarfræðinga úr sumarfríi ásamt fleiru.
Trúnaðarmenn voru hvattir til að mæta á Kjararáðstefnu Fíh sem fram fer á Selfossi 3. og 4. október, sú ráðstefna er ætluð trúnaðarmönnum og öðrum sem koma að kröfugerð.
Allir hjúkrunarfræðinga sem láta sig kjaramál varða á sínum vinnustað eru hvattir til að gefa kost á sér til trúnaðarmannastarfa, ekki veitir af öllum sem hafa áhuga í komandi kjaraviðræðum.