Kæru hjúkrunarfræðingar.
Haustið er gengið í garð og flestir hjúkrunarfræðingar aftur komnir á kaf í vinnu eftir sumarleyfi. Því miður fengu ekki allir að njóta frísins í friði án þess að vera kallaðir til vinnu. Það sem verra er að ekki náðu allir að njóta þess að vera í fríi sem skyldi, þeir vissu að álagið myndi aukast á þá sem voru eftir og stóðu vaktina og fannst það erfitt. Svona á þetta ekki að vera.
Framundan er baráttan til að breyta þessu. Gildandi gerðardómur og miðlunartillaga renna út 31. mars á næsta ári og félagið er fyrir löngu komið af stað í vinnu við kjarabaráttuna. Í byrjun október heldur Fíh kjararáðstefnu á Hótel Selfossi fyrir trúnaðarmenn, þar sem lagður verður grunnur að kröfugerð fyrir komandi kjarasamninga.
Í haust er einnig margt um að vera sem snýr að faginu. Þann 25. október verður haldið Hjúkrunarþing þar sem unnið verður að aðgerðaráætlun til næstu þriggja ára sem byggir á stefnu Fíh í hjúkrunar- og heilbrigðismálum til 2030. Framtíðarsýn hjúkrunarfræðinga er bæði ögrandi og spennandi, störf hjúkrunarfræðinga taka sífelldum breytingum þó ekki sé vikið frá grunnstoðum hjúkrunar. Í stefnunni eru mörg stefnuviðmið og ég hlakka til að taka þátt í því með ykkur að sjá þau verða að veruleika.
Það eru mörg námskeið á dagskrá félagsins í haust og má t.d. nefna að færri komust að en vildu á námskeið í sár og sárameðferð. Það eru einnig mörg málþing á döfinni og ég hvet ykkur til að fylgjast með viðburðunum sem verða auglýstir á samfélagsmiðlum félagsins.
Það er nefnilega svo margt sem kemur okkur hjúkrunarfræðingum við, enda helsti talsmaður okkar skjólstæðinga. Hjúkrunarfræðingar eru harðkjarna fagstétt sem að mínu mati, fær ekki kjör í samræmi við ábyrgð og álag í starfi.
Það var gott að að hitta ykkur í hringferðinni síðastliðið vor eftir langan og erfiðan faraldur. Ég fæ vonandi að hitta ykkur aftur í vetur þegar við förum aðra hringferð til að heyra í ykkur hljóðið fyrir komandi kjaraviðræður. Það er brýnt að stjórnvöld komi að samningaborðinu sem fyrst, sérstaklega í ljósi mikilla vaxtahækkana og verðbólgu.
Hjúkrunarfræðingar hafa setið undir tveimur gerðardómum frá 2015 og ekki náð samningum um launakjörin síðan 2011. Hvernig svo sem veturinn verður, þá ríður á að við stöndum saman sem aldrei fyrr. Það er ljóst að eftir allt sem á undan er gengið og óvissuna sem framundan er, þá er það lykilatriði að við hjúkrunarfræðingar þéttum raðirnar og sameinumst í baráttunni fyrir bættum kjörum.
Við sjáumst í vetur!