Dr. Amelia Tuipulotu hefur verið skipuð yfirhjúkrunarfræðingur Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, WHO, (e. Chief Nursing Officer). Alþjóðaráð hjúkrunarfræðinga, ICN, fagnar skrefi WHO að skipa yfirhjúkrunarfræðing svo fljótt eftir að forveri Tuipulotu, Elizabeth Iro, tilkynnti að hún myndi láta af störfum.
Tuipulotu var yfirhjúkrunarfræðingur Tonga á árunum 2014 til 2019, síðar heilbrigðisráðherra landsins til 2021. Hún er heiðursdósent við Háskólann í Sydney í Ástralíu og situr í framkvæmdastjórn WHO.
Pamela Cipriano, forseti ICN, segir í tilkynningu að hún hlakki til samstarfsins við Tuipulotu. „Í mörg ár var WHO ekki með yfirhjúkrunarfræðing, það var ekki fyrr en árið 2017 sem Iro var skipuð, það var eftir langa baráttu ICN fyrir embættinu,“ segir Cipriano. „ICN trúir því staðfastlega að árangurrík heilbrigðisstefna þurfi á rödd hjúkrunarfræðinga að halda og allar þjóðir þurfi að hafa embætti yfirhjúkrunarfræðings í stjórnsýslunni sem heyrir undir ráðherra.“