Hjukrun.is-print-version

Gleðilega hátíð

RSSfréttir
20. desember2022

Kæru hjúkrunarfræðingar.

Nú er langt liðið á aðventuna, jólin nálgast óðfluga og styttist í nýtt ár. Það hefur margt verið á döfinni hjá félaginu á árinu sem er að líða. Skemmst er að minnast ráðstefnunnar HJÚKRUN 2022, hjúkrunarþings og kjararáðstefnunnar. Ánægjulegast var þó að geta loksins hitt ykkur í eigin persónu þó svo að faraldrinum sé hvergi nærri ekki lokið.

Ég er sjálf spennt fyrir árinu 2023. Árið hefst á hringferð minni og kjarasviðs í kringum landið til að ræða við hjúkrunarfræðinga um komandi kjaraviðræður. Gerðardómi lýkur í lok mars og við erum tilbúin að setjast að samningaborðinu. Við finnum fyrir miklum meðbyr enda veit þjóðin upp á hár hversu faglegir og framúrskarandi íslenskir hjúkrunarfræðingar eru.

Það gleður mig að geta strax beðið ykkur um að taka frá alþjóðadag hjúkrunar, sem er föstudagurinn 12. maí næstkomandi. Eftir hádegi verður haldinn aðalfundur félagsins og í framhaldi af honum gleðjumst við saman í mat og drykk auk skemmtidagskrár sem verður í boði en óháð stöðu okkar í kjarabaráttunni er full þörf á að koma saman og gleðjast.

Munið að huga að ykkur sjálfum á þessum dimmasta tíma ársins, kerti eru til þess að kveikja á þeim og njóta fallegrar birtu en förum þó varlega. Þakka ykkur kærlega fyrir árið sem er að líða. Þakka ykkur fyrir að taka þátt í viðburðum félagsins og könnunum. Þakka ykkur sérstaklega þið sem standið vaktina á meðan landsmenn njóta samvista með fjölskyldum og vinum á stórhátíðisdögunum.

Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og hlakka til að hitta ykkur á nýju ári.

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála