Kæru hjúkrunarfræðingar.
Þetta ár byrjar með tilþrifum eins og þið hafið vafalaust tekið eftir. Síðastliðnu ári lauk á uppbyggilegum skilaboðum, snemma í áramótaávarpi Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Þar sagði hún umbúðalaust að þrátt fyrir ágæta stöðu á heimsvísu þá væri staðreyndin sú að hér á landi væru konum enn borgað minna en körlum. „Þessu eigum við að breyta þannig að fullt jafnrétti kynjanna verði ekki bara draumur heldur veruleiki,“ sagði Katrín. Þetta eru mjög jákvæð skilaboð til hjúkrunarfræðinga sem samkvæmt síðasta gerðardómi bera öll þess merki að vera vanmetin kvennastétt.
Tækifærið fyrir Katrínu og ríkisstjórnina til að breyta þessu er handan við hornið. Í mars rennur út miðlunartillaga ríkissáttasemjara og við setjumst aftur að samningaborðinu. Í ár verða liðin tólf ár frá því að hjúkrunarfræðingar sömdu síðast um launakjör. Við vitum öll hvernig ástandið í heilbrigðiskerfinu hefur breyst síðan þá og það er fullt tilefni fyrir alla landsmenn að hugsa um hvernig þeir sjá kerfið fyrir sér eftir önnur tólf ár.
Í dag, mánudaginn 16. janúar, hefst hringferð Fíh um landið til að ræða við hjúkrunarfræðinga um komandi kjarasamninga. Við byrjum í Keflavík og endum á Norðurlandi í lok febrúar. Fundirnir verða ekki bundnir við stofnanir heldur svæði. Það verða tveir fundir haldnir með hjúkrunarfræðingum sem starfa á höfuðborgarsvæðinu.
Á fundunum verður lögð lokahönd á kröfugerðina okkar fyrir komandi kjarasamninga. Efnið sem við erum með í höndunum núna byggir á fundunum sem við áttum með hjúkrunarfræðingum um allt land í maí síðastliðnum, kjarakönnuninni sem lögð var fyrir félagsmenn síðasta haust og kjararáðstefnunni sem haldin var með trúnaðarmönnum í kjölfarið. Ég vonast til að sjá sem flesta hjúkrunarfræðinga á fundunum og hlakka mikið til að ræða við ykkur og hlusta á ykkar sjónarmið.
Það eru ýmis jákvæð teikn á lofti á þessu ári. Heilbrigðisráðuneytið vinnur nú að lagafrumvarpi um refsiábyrgð heilbrigðisstarfsfólks. Í ráðuneytinu er einnig unnið að umfangsmikilli mönnunargreiningu þvert á heilbrigðiskerfið sem á að hjálpa til við að kortleggja mönnunina nú og þörfina til framtíðar. Brýn verkefni sem við höfum lengi beðið eftir að klárist.
Á vettvangi félagsins verður einnig mikið um að vera. Í lok september heldur félagið ráðstefnuna HJÚKRUN 2023 þar sem boðið verður upp á áhugaverða fyrirlestra, veggspjaldakynningar og fróðlegar málstofur. Það var mjög ánægjulegt að hitta ykkur á hjúkrunarþinginu í fyrra og finna kraftinn í okkar framúrskarandi fagfólki.
Alþjóðadagur hjúkrunarfræðinga föstudaginn 12. maí næstkomandi verður tvískiptur. Fyrri hluti dagsins er tileinkaður aðalfundi félagsins en að honum loknum gleðjumst við saman í mat og drykk ásamt skemmtidagskrá. Við vitum ekki í dag hvar við verðum stödd í kjarabaráttunni en látum það ekki trufla okkur enda full þörf er á að koma saman og gleðjast.
Á aðalfundinum verður kosið í mörg embætti í hinum ýmsu nefndum og ráðum og hvet ég ykkur eindregið til að gefa kost á ykkur. Félagið er aldrei sterkara en mannauðurinn sem það hefur að geyma og leggur hendur á plóginn.
Ég hlakka til að sjá ykkur á hringferðinni um landið, dagskrána má sjá hér að neðan: