Skatturinn hefur opnað fyrir skil á skattframtali fyrir einstaklinga árið 2023 og því minnum við þá hjúkrunarfræðinga sem fengu styrk á árinu 2022 að huga að því að færa kostnað til frádráttar á móti styrkgreiðslum. Frádrátturinn getur aldrei orðið hærri en móttekin greiðsla. Í þeim tilfellum þar sem styrkir eru ekki skattskyldir þarf að færa kostnað til frádráttar á móti styrk á skattframtali.
Styrkir úr Starfsmenntunarsjóði, Styrktarsjóði og Vísindasjóði birtast sjálfkrafa á netframtali félagsfólks. Hægt er að skrá kostnað á móti styrkjum úr Starfsmenntunarsjóði og vegna greiðslna úr Vísindasjóði.
Styrkir til náms, rannsókna og vísindastarfa eru skattskyldar tekjur, en á móti styrk er heimilt að færa til frádráttar beinan kostnað við nám, s.s. skólagjöld og námsbækur. Ekki er heimilt af færa til frádráttar kostnað við framfærslu sem telst vera persónulegur kostnaður. Þá er óheimilt er að færa kostnað vegna kaupa á eignum til frádráttar á móti þessum styrkjum.
Á móti styrkjum úr Vísindasjóði sem teljast til rannsókna og vísindastarfa er heimilt að færa beinan kostnað við hvert verkefni. Oft er um að ræða styrki vegna tiltekinna lengri og umsvifameiri verkefna sem eru þá gerð upp eins og rekstur. Einnig er hægt að færa frádrátt á móti styrkjum úr Styrktarsjóði vegna líkamsræktar og endurhæfingar (t.d. sjúkraþjálfun, nudd, nálastungur og kirópraktor), heimilt er að færa til frádrátt á móti upp að hámarki 60.000 kr.
Frádráttur á móti námsstyrkjum færist í reit 149 á tekjusíðu og í reit 157 vegna líkamsræktar- og endurhæfingarstyrkja.
Aðrir styrkir eru skattskyldir. Ekki er heimilt að færa frádrátt á móti styrkjum (persónuleg útgjöld), vegna gleraugnakaupa, heyrnartækjakaupa, glasafrjóvgunar, krabbameinsskoðunar, tannviðgerða, sálfræðiþjónustu og útfarar.