Hjukrun.is-print-version

Frestun niðurfellingar orlofs

RSSfréttir
23. mars 2023

Gengið hefur verið frá samkomulagi um framlengingu á heimild til frestunar á niðurfellingu orlofsdaga um eitt ár eða til 30. apríl 2024. Þetta þýðir að hjúkrunarfræðingar hafa nú lengri tíma til að taka út eldra orlof.  Eftir sem áður eru hjúkrunarfræðingar hvattir til að taka orlof sér til hvíldar í stað þess að safna því upp. 

Í síðustu kjarasamningum á opinberum vinnumarkaði var samið um að orlof sem ekki er tekið á orlofsárinu falli niður og átti ákvæðið að taka gildi frá og með 1. maí 2023. Í ljósi utanaðkomandi aðstæðna á samningstímanum hefur þessu nú verið frestað til 30. apríl 2024. Eftir þann dag fellur eldra orlof niður.

Launagreiðendur bera ábyrgð á að skipuleggja orlofstöku að teknu tilliti til óska hjúkrunarfræðinga eins og unnt er vegna starfseminnar og þurfa jafnframt að gera tímasettar áætlanir um úttektir á uppsöfnuðu orlofi hjá þeim hjúkrunarfræðingum sem það á við. 

Hjá ríkisstarfsmönnum og starfsfólki Reykjavíkurborgar hefur niðurfellingu orlofs, sem getur numið 60 dagar að hámarki, verið frestað til 30. apríl 2024 en Samband íslenskra sveitarfélaga hefur frestað niðurfellingu um ótilgreindan tíma og eiga stjórnendur hjá sveitarfélögum að gera skriflegt samkomulag við starfsfólk sitt um töku uppsafnaðs orlofs. Náist slíkt samkomulag ekki fyrir 15. apríl 2023 skal sveitarfélag tilkynna starfsmanni eigi síðar en 1. maí 2023 hvernig orlofstöku skuli háttað þannig að tryggt verði að starfsmaður nái að ljúka töku uppsafnaðs orlofs. 

Nánar um orlof 

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála