Hjukrun.is-print-version

Páskakveðja frá samningaborðinu

RSSfréttir
31. mars 2023

Kæru hjúkrunarfræðingar.

Við í samninganefnd Fíh nú fundað fimm sinnum með samninganefnd ríkisins með það að markmiði að semja um kjarasamning fyrir hjúkrunarfræðinga. Við höfum einnig fundað tvisvar sinnum með samninganefnd Reykjavíkurborgar. Þó svo að ég sé bundin trúnaði um það sem á sér stað við samningaborðið þá get ég sagt ykkur að samtalið er af hinu góða og síðustu daga hefur orðið verulega gott skrið í samræðunum. Miðað við stöðuna í dag þá vonast ég til að við lendum samningi í aprílmánuði.

Stóru bandalögin tvö, BHM og BSRB, hafa náð samkomulagi við ríkið og hefur það, eins og samningarnir sem gerðir voru á almenna markaðnum, áhrif á okkar samningsumhverfi. Í þessari umferð kjaraviðræðna virðist það ætla að verða hjúkrunarfræðingum til góðs. Samninganefndir félagsins, sem hafa öflugt bakland stjórnar og trúnaðarmannaráðs, vinna þétt og örugglega saman að sem bestri niðurstöðu fyrir hjúkrunarfræðinga og tökum ekki afstöðu nema að vel athuguðu máli.

Bandalögin hafa nú samið til skamms tíma, aðeins tólf mánuði í stað fimmtán mánaða á almenna markaðnum. Það er gert til þess að verja kaupmátt þeirra fólks. Nú þegar við öll erum farin að finna fyrir verðbólgunni, bæði þegar við verslum í matinn og greiðum af húsnæði. Samningar bandalaganna eru annars eðlis en samningarnir árið 2014 sem margir hjúkrunarfræðingar muna eftir, þá var einungis samið um einfalda launahækkun til fjórtán mánaða. Nú höfum við tækifæri til að berjast fyrir breytingum, þar á meðal fyrir nauðsynlegri endurskoðun og lagfæringum á einstökum atriðum í Betri vinnutíma.

Við erum ekki ein í baráttunni um bætt kjör. Við fylgjumst náið með stöðunni í Bretlandi þar sem hjúkrunarfræðingar hafa staðið í verkfallsaðgerðum frá því fyrir jól. Nú standa yfir kosningar hjá Royal College of Nursing (RCN) á Englandi um tilboð ríkisins um 5 prósent launahækkun ásamt eingreiðslu á bilinu 280 þúsund og 640 þúsund krónum, á núverandi gengi. Þetta tilboð er ekki í samræmi við kröfur RCN um launahækkun ofan á verðbólgu. Samninganefnd RCN hefur gefið út að nú þegar sé búið að hafna ótal tilboðum frá ríkinu og þetta sé lokatilboðið. Við sjáum hvernig fer.

 

Á vettvangi félagsins

Það er nóg um að vera á vettvangi félagsins. Tímarit hjúkrunarfræðinga kom út núna í mars, stórglæsilegt tímarit mettað af áhugaverðu efni. Orlofsvefurinn er opinn fyrir bókanir í sumar, í boði eru nítján orlofshúsnæði, þar af tvö á Spáni og eitt í Danmörku. Orlofsnefndin vill koma til móts við félagsfólk varðandi gæludýr og eru nú í boði fimm orlofshús sem leyfa gæludýr. Styrkupphæð starfsmenntunarsjóðs hækkaði nú í vikunni og fór úr 240 þúsund krónum á tveggja ára tímabili upp í 350 þúsund krónur, gott skref til að auka starfshæfni hjúkrunarfræðinga.

Aðalfundur félagsins fer fram föstudaginn 12. maí næstkomandi, kjörnefndin auglýsir nú eftir framboðum til stjórnar sem og í nefndir og stjórnir sjóða félagsins. Þetta er gullið tækifæri fyrir félagsfólk til að hafa áhrif á gangverkið.

Annað sem hefur komið upp úr dúrnum er að þónokkur fjöldi hjúkrunarfræðinga er ekki með fulla aðild að félaginu. Um leið og byrjað er að starfa sem hjúkrunarfræðingur þá berast greiðslur til félagsins og dyrnar opnast að sjóðum félagsins. Það er félagafrelsi í landinu og því er það undir hverjum og einum komið að skrá aðild sína. Aðeins með fullri aðild er hægt að kjósa í embætti á aðalfundi félagsins, kjósa um kjarasamning og sækja um í B-hluta vísindasjóðs. Til að kanna fulla aðild þá er farið inn á Mínar síður og smellt á flipann Persónuupplýsingar.

Í haust munum við í samvinnu við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri, Landspítala og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins halda vísindaráðstefnuna Hjúkrun 2023. Aðalfyrirlesararnir liggja nú fyrir, það verða Dr. Peter Griffiths og Dr. Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, ég er mjög spennt að heyra hvað þau hafa að segja okkur. Ráðstefnan fer fram fimmtudaginn 28. september og föstudaginn 29. september, ég legg til að þið klárið að taka dagana frá sem fyrst.

Sama hvernig fer á næstu dögum og vikum þá eru páskarnir handan við hornið. Ég vona að þið fáið nauðsynlega hvíld á milli vakta og verkefna yfir hátíðina, þið eigið það svo innilega skilið að hlúa að ykkur sjálfum og njóta gleðistunda með þeim sem ykkur standa næst.

Ég óska ykkur öllum gleðilegra páska.

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála