Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga skrifaði undir nýjan kjarasamning við ríkið fyrir hádegi 12. apríl 2023.
Um er að ræða skammtímasamning til 12 mánaða sem gildir frá 1. apríl 2023 til 31. mars 2024.
Samningurinn er í takt við þær áherslur sem Fíh lagði upp með við upphaf viðræðna og tryggir launahækkanir og kjarabætur fyrir hjúkrunarfræðinga sem starfa hjá ríkinu.
Samningurinn felur í sér ákveðnar breytingar á vaktaálagi og vaktahvata auk verkáætlunar um þau atriði sem verða tekin til sérstakrar skoðunar á samningstímanum svo sem vinnutíma í dagvinnu og vaktavinnu, endurskoðun veikindakafla og fleira.
Samningurinn verður kynntur hjúkrunarfræðingum sem starfa hjá ríkinu á fjórum fundum, þar af einum á ensku.
Fimmtudaginn 13. apríl kl. 12:00-13:00 á Teams
Fimmtudaginn 13. apríl kl. 17:00-18:00 á Teams
Föstudaginn 14. apríl kl. 15:30-16:30 á Teams
Fundur á ensku, mánudaginn 17. apríl 16:00-17:00 á Teams
Hlekkir á Teams-fundina verða aðgengilegir á Mínum síðum.
Kynningarefni vegna samningsins verður að finna inni á Mínum síðum eftir fundinn 14. apríl. Athugið að kynningarefnið og efni fundanna er trúnaðarmál og einungis ætlað hjúkrunarfræðingum.
Rafræn atkvæðagreiðsla fer fram á Mínum síðum og hefst laugardaginn 15. apríl kl. 12:00 og lýkur mánudaginn 24. apríl kl.12:00. Aðeins hjúkrunarfræðingar með fulla aðild að félaginu geta greitt atkvæði.
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur skrifað undir samning við Reykjavíkurborg, hefjast kosningar um þann samning föstudaginn 14. apríl, sjá hér. Samningaviðræður við önnur sveitarfélög og Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu standa enn yfir.