Fulltrúaþing Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga haldið 15. og 16. maí 2003 krefst þess að ríkið láti nú þegar framkvæma úttekt á launamun karla og kvenna starfandi hjá stofnunum sínum. Sérstaklega verði skoðaðar og bornar saman mismunandi starfsstéttir með mikinn meirihluta karla annars vegar og mikinn meirihluta kvenna hins vegar.
Rökstuðningur
Kjarasamningi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga annarsvegar og Fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, Reykjavíkurborgar, St. Franciskuspítala og Reykjalundar hinsvegar sem undirritaður var 1. maí 1997 fylgdi eftirfarandi yfirlýsing:
Það er yfirlýst stefna ríkis og Reykjavíkurborgar að jafna þann launamun karla og kvenna sem ekki er hægt að útskýra nema á grundvelli kyns. Með nýju launakerfi gefst tækifæri til að vinna að þeim markmiðum. Með það í huga munu fjármálaráðherra og Reykjavíkurborg láta gera úttekt á áhrifum nýs launakerfis á launamun karla og kvenna starfandi hjá stofnunum sínum á samningstímabilinu.
Þessi úttekt hefur ekki enn verið gerð. Við samningsgerðina árið 2001 var ítrekað gengið eftir þessari úttekt. Svör sem fengust voru að vegna erfiðleika við starfaflokkun hjá ríkinu væri ekki unnt að vinna þessa úttekt. Hinsvegar var sterklega gefið í skyn af hálfu samninganefndar ríkisins að vilji væri fyrir því hjá ríkinu að framkvæma úttektina og yrði það gert um leið og starfaflokkun lægi fyrir. Í trausti þessa lagði samninganefnd Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga ekki ríka áherslu á að endurtaka yfirlýsinguna í nýjum samningi, enda ljóst að munnlegt samkomulag skal gilda og að óuppfyllt yfirlýsing fellur ekki úr gildi.
Að auki má geta þess að aðildarfélög BHM, sem höfðu ofannefnda yfirlýsingu eða sambærilega í kjarasamningum sínum, skrifuðu fjármálaráðherra og borgarstjóranum í Reykjavík bréf 19. maí 2000 og fóru fram á að úttektin á launamuninum yrði gerð. Í svarbréfi fjármálaráðuneytis sem undirritað var 30. maí 2000 kom fram að hafinn væri undirbúningur að könnun á áhrifum launakerfisins á launamun karla og kvenna og að þess væri vænst að niðurstöðurnar lægju fyrir áður en samningstímabilið rynni út. Skýrsla um samanburð á launum karla og kvenna hjá Reykjavíkurborg árið 2001 var gefin út í maí 2002.
Hjúkrunarfræðingar eru að stærstum hluta kvennastétt. Laun þeirra hafa að öllu jöfnu verið ívið lægri en laun þeirra stétta sem þeir bera sig saman við. Hjúkrunarfræðingar krefjast þess að úttekt á launamun kynjanna verði gerð strax og að hægt verði að sjá hvar hjúkrunarfræðingar raðast í samanburði við sambærilegar stéttir sem eru að stærstum hluta skipaðar körlum. Með sambærileika er átt við menntun, ábyrgð og hæfni.