23.
maí 2003
Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
Laugavegi 116
150 Reykjavík
Reykjavík 23. maí 2003
Efni: Ályktun frá Fulltrúaþingi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga
Fulltrúaþing Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga haldið dagana 15. og 16. maí 2003 hvetur til þess að innan heilsugæslunnar verði mótuð heildstæð og uppbyggileg vímuvarna- og íhlutunarstefna.
Rökstuðningur:
Innan heilsugæslunnar eru ótvírætt sóknarfæri á sviði heilsueflingar og forvarna, þar með áfengis- og vímuvarna. Undanfarið hefur farið fram töluverð umræða um hlutverk heilsugæslunnar í vímuvörnum og hvernig hægt sé að efla þær. Hjúkrunarfræðingar hafa víða sýnt áhuga á vímuvörnum en eru óöruggir með úrræði og leiðir. Heildstæð endurskoðun á vímuvarnastarfi innan heilsugæslunnar og mótun verkmiðaðrar, uppbyggilegrar stefnu myndi ótvírætt verða hjúkrunarfræðingum í heilsugæslu stuðningur í daglegu starfi.
Í heilbrigðisáætlun heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins fram til 2010, sem samþykkt var af Alþingi fyrr á árinu, eru áfengis-, vímuefna- og tóbaksvarnir meðal helstu forgangsverkefna.
Misnotkun áfengis- og ólöglegra vímuefna er vaxandi vandamál í flestum vestrænum löndum. Stundum er talað um útbreiðslu vímuefna í vestrænu samfélagi sem faraldur. Enn er sem betur fer aðeins um lítinn minnihlutahóp að ræða sem er háður þessum efnum. Hins vegar eru blikur á lofti. Ef heldur sem horfir fara ýmsar afleiðingar lífernis sem einkennist af vímuefnaneyslu s.s. berklar, kynsjúkdómar og lifrarbólga að haga sér sem sjálfstæður faraldur innan fárra ára.
Samkvæmt könnun sem IMG-Gallup framkvæmdi fyrir áfengis- og vímuvarnaráð haustið 2001 hafa rúmlega 90% landsmanna neytt áfengis þegar tvítugsaldri er náð og svipað hlutfall hafði neytt áfengis einhvern tíma á 12 mánaða tímabili áður en könnunin var lögð fyrir. Tíðni alkóhólisma hefur mælst á bilinu 3,5 – 6,5%. Skráð umsetning áfengis hefur aldrei verið meiri og var skv. upplýsingum Hagstofu Íslands árið 2002 6,5 l af hreinum vínanda á hvern íbúa 15 ára og eldri. Kannanir Rannsókna og greiningar ehf. (R&G) meðal nemenda í efstu bekkjum grunnskóla og framhaldsskólanema benda til að neysla ólöglegra vímuefna, aðallega hass færist í aukana. Samkvæmt könnun R&G sem gerð var meðal framhaldsskólanema árið 2000 hafa 12% þeirra prófað hass þrisvar eða oftar.
Upplýsingar um síaukna eftirspurn eftir meðferð vegna áfengis– og vímuefnavanda berast frá meðferðarstofnunum fyrir alla aldurshópa. Þessa aukningu má e.t.v. að nokkru leyti rekja til aukins meðferðarframboðs og almennrar vitundarvakningar um eðli vandans. Einnig ber meira á ýmsum öðrum afleiðingum sem rekja má til neyslu vímuefna s.s. nauðgunum, kynsjúkdómum, ofbeldi, slysum og afbrotum. Aukin krafa um frelsi hvarvetna í þjóðfélaginu, ný tækni og breyttar aðstæður í vestrænu samfélagi hafa í för með sér að þær aðgerðir sem einkennt hafa forvarnarstarf í áfengis- og vímuvörnum á Íslandi virka ekki eins og áður. Ísland er nú hluti af stóru alþjóðasamfélagi með landamæri í mótun. Aukið frjálsræði og mikið framboð af sífellt fjölbreyttari vímuefnum kallar því á hertar áfengis- og vímuvarnaaðgerðir.
Sumum börnum er hættara en öðrum við að lenda í vandræðum vegna áfengis- og vímuefnaneyslu síðar á ævinni. Börn sem verða fyrir tilfinningalegu áfalli, koma frá fjölskyldum sem valda ekki uppeldishlutverki sínu af einhverjum orsökum, börn með þroska- og hegðunarraskanir og þau sem glíma við sértæka námsörðugleika eru í þekktum áhættuhópum. Sem betur fer hefur viðhorf til barna í slíkum aðstæðum breyst nokkuð á undanförnum árum þó enn sé langt í land til að hlutur þeirra sé réttur. Hvernig þessum börnum er sinnt af aðstandendum sínum og öðrum sem með þeim starfa t.d. í skólanum getur haft úrslitaáhrif á hvernig þeim reiðir af í lífinu.
Það er almennt viðurkennt að ávinningur felist í því að seinka því að börn byrji að neyta áfengis og þar með annarra vímuefna þar sem það auki líkur á að þau nái að fóta sig í lífinu. Evrópuskrifstofa Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar gaf árið 2001 út yfirlýsingu þess efnis að öll börn og unglingar eigi rétt á að alast upp í umhverfi sem er verndað fyrir afleiðingum áfengis- og vímuefnaneyslu og, eftir því sem unnt er, markaðssetningu á slíkum varningi. Lögð hefur verið áhersla á að vinna að þessum markmiðum með því að beina tilmælum til foreldra um að setja börnum sínum mörk, sýna þeim áhuga og fylgjast með hvar og með hverjum þau eru. Í því sambandi er hjúkrunarfræðingar í einstakri aðstöðu í íslensku samfélagi. Heilsugæsluhjúkrunarfræðingar eru velkomnir inn á heimili svo til allra nýfæddra barna. Líklega hefur engin stétt jafngóða yfirsýn yfir aðbúnað á heimilum íslenskra barna og hjúkrunarfræðingar sem sinna ung- og smábarnavernd. Auk þess hafa þeir tækifæri til að ræða við foreldrana í einrúmi á þeirra eigin heimili. Hjúkrunarfræðingar eru því í einstakri aðstöðu til að veita fjölskyldum sem á þurfa að halda stuðning og ráðgjöf t.d. um uppeldi. Slík samtöl geta falið í sér mikilvæga vímuvörn.
Ef vel á að vera þurfa forvarnir að hefjast heima þegar börnin eru ung og hætturnar virðast víðs fjarri. Það er of seint að byrja að ala upp ungling. Lítil börn þurfa að hafa ákveðinn ramma um háttatíma og útivistartíma til að finna aðhald og öryggi. Hvað áfengis- og vímuefnaneyslu unglinga varðar skiptir skýr afstaða foreldra öllu máli. Niðurstöður ýmissa rannsókna, m.a. Sigrúnar Aðalbjarnardóttur, gefa til kynna að unglingar sem eiga foreldra sem hvorki neyta áfengis né annarra vímuefna eru ólíklegust til að hefja neyslu hvers kyns vímuefna. Unglingar sem eiga foreldra sem gefa skýr skilaboð um að þeir vilji ekki að börnin þeirra neyti áfengis á meðan þau eru undir lögaldri eru ólíklegri til að drekka en þau sem eiga foreldra sem kaupa áfengi handa þeim. Loks gefa rannsóknir til kynna að unglingum sem eiga foreldra sem fylgjast með þeim í leik og starfi, leggja sig fram um að þekkja vini þeirra og vita hvar þeir halda sig reiðir betur af en hinum sem njóta ekki slíks aðhalds. Allir sem koma á einhvern hátt að uppeldi og umönnun barna og unglinga, ekki síst starfsfólk heilsugæslu, þurfa að hafa samráð sín á milli, vinna þverfaglega til að þróa framboð af fjölbreyttum stuðningsúrræðum og fræðslu fyrir uppalendur og börn í áhættuhópum. Mikilvægt er að stjórnvöld styðji foreldra í uppeldishlutverkinu með ákvörðunum sínum og að þeir finni að þeir eigi bakhjarl í ýmsum opinberum stofnunum samfélagsins s.s. heilsugæslu, skóla, lögreglu og félagsþjónustu.
Loks er vert að taka fram að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur bent á að heilbrigðisstarfsfólk geti með venjubundum samtölum við fólk sem neytir mikils áfengis, án þess að teljast áfengissjúklingar, haft áhrif til að draga úr heildarneyslu áfengis í samfélögum og breytt neyslumynstri einstaklinga til betri vegar.
Af ofansögðu ætti að vera ljóst að það skiptir máli hvernig staðið er að áfengis- og vímuvörnum á vegum heilsugæslunnar og að framlag hjúkrunarfræðinga til þeirra getur vegið þungt.
F.h. stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga
__________________________________
Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður
Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga
Afrit sent:
Guðjón Magnússon, forstjóri Lýðheilsustöðvar
Guðmundur Einarsson, forstjóri Heilsugæslunnar í Reykjavík
Þórunn Ólafsdóttir, hjúkrunarforstjóri Heilsugæslunnar í Reykjavík