Sigrún Brynja Einarsdóttir, nefndarritari,
nefndasvið Alþingis,
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík.
1. desember 2003
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) hefur fengið til umsagnar frv. t. laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum, 38. mál 130 löggjafarþings 2003-2004.
Fyrir hönd Fíh vil ég leggja til eftirfarandi breytingar á orðalagi frumvarpsins:
- gr.
Hver sem greiðir fyrir vændi skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.
Skýringar:
Gerð er tillaga um breytingu á orðinu kynlífsþjónustu í vændi til að skýra betur og gera afdráttarlausara að hverju þessi breyting á almennum hegningarlögum lýtur. Þykir rétt að afmarka orðalag frumvarpsins við vændi en það hugtak hefur verið um árabil í almennum hegningarlögum. Í þeim sænsku sérlögum sem höfð hafa verið sem fyrirmynd er yfirleitt vísað í hugtökin samræði og önnur kynferðismök í tengslum við hugtakið kynlífsþjónustu. Er því ætlast til að hugtakið vændi verði skýrt á sama hátt, þ.e. að vændi taki til samræðis og annarra kynferðismaka eins og þau hugtök voru skýrð í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 40/1992 og eins og þau hafa verið skýrð í réttarframkvæmd fram til þessa dags.
Það er hins vegar brýnt að taka með ýmsum hætti á hinum margbreytilegu myndum klám- og kynlífsiðnaðarins sem orðið kynlífsþjónusta nær til.
Mikilvægt er að refsiákvæði séu skýr. Ísland er nú eina ríkið á Norðurlöndunum þar sem refsisvert er að stunda vændi í framfærsluskyni og er slík háttsemi refsiverð með fangelsi allt að 2 árum. Sömu viðurlög gilda þegar börnum yngri en 18 ára er boðin greiðsla til kynferðismaka, sbr. 4 mgr. 202. gr. hgl. Lagt er til í þessu frumvarpi að því verði breytt og ábyrgð færð yfir á þann sem velur að kaupa vændi. Refsing við slíku í sænskum sérlögum er sekt eða fangelsi allt að 6 mánuðum og gilda sömu viðurlög þegar í hlut eiga börn yngri en 18 ára sbr. 10 gr. sænsku laganna í kynferðisbrotakafla þeirra.
Lagt er til að hér á landi verði einnig unnt að beita sektum þó að viðurlögin geti orðið fangelsi allt að 2 árum.
Greinargerð:
Ýmsar skýrslur alþjóðastofnana eins og Sameinuðu þjóðanna greina frá því að algengasta mannréttindabrot í heiminum í dag er ofbeldi gegn konum. Jafnframt er réttarstaða kvenna víða bágborin og aðstæður þeirra erfiðar við að sjá sér og sínum farborða. Sameinuðu þjóðirnar og margar aðrar alþjóðlegar stofnanir hafa um áratuga skeið unnið ötullega að því að styrkja stöðu kvenna og að því að rannsaka og finna leiðir til að vinna gegn því ofbeldi sem konur eru beittar. Um þessi mál hafa verið gerðir margir samningar sem við Íslendingar eigum aðild að.
Ofbeldið tekur á sig ýmsar myndir en ein birtingarmynd þess er sú neyð að selja öðrum aðgang að líkama sínum. Mansal hefur lengi verið stundað í þágu vændis og meginreglan verið sú að konur frá fátækari hlutum heimsins hafa verið fluttar til hinna efnaðri með skipulegum hætti.
Eftir hrun Sovétríkjanna hafa á síðastliðnum árum orðið gríðarlegir fólksflutningar frá löndum Austur-Evrópu. Mikil fátækt og úrræðaleysi fylgdi þeim þjóðfélagsbreytingum sem urðu í þessum löndum og í kjölfarið fylgdi mansal í stórum stíl á ungum stúlkum til Vestur-Evrópu sem eru fyrst og fremst notaðar í skemmtanaiðnaði og vændi. Rannsóknir sýna að hlutskipti þeirra er oft vægast sagt ömurlegt og er ekkert annað en þrælahald en að baki mansalinu standa vel skipulagðir glæpahringir sem jafnframt stunda önnur alvarleg lögbrot eins og peningaþvætti og eiturlyfjasmygl. Vændi á Vesturlöndum, t.d. Norðurlöndunum er nú órjúfanlega tengt þessu mansali og hafa stjórnvöld þessara landa brugðist við til að stemma stigu við þessari skelfilegu þróun.
Rannsóknir meðal þeirra einstaklinga sem stunda vændi sýna að staða þeirra er afar veik. Margir hafa orðið fyrir kynferðislegri misnotkun í bernsku eða æsku og margir eru háðir neyslu fíkniefna sem þeir þurfa stöðugt að fjármagna. Líðan þeirra svipar oft til annarra sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi. Sjálfsmynd þeirra er oft brotin, þeir þjást af þunglyndi og sektarkennd og reyna jafnvel sjálfsvíg til að losna út úr eymd sinni.
Mikilvægar upplýsingar um stöðu og aðstæður þeirra sem stunda vændi hér á landi fengust í skýrslu um vændi á Íslandi sem unnin var á vegum dómsmálaráðherra og kom út í mars 2001. Einnig hafa síðari rannsóknir leitt enn frekar í ljós veika stöðu unglinga í vændi.
Af þessu má ljóst vera að mikilvægt er að ráðast gegn því mannréttindabroti og þeirri valdbeitingu sem felst í kaupum á kynlífi og kynlífsþjónustu.
Með því frumvarpi sem hér um ræðir er sýnd viðleitni til að taka með táknrænum og markvissum hætti á þeirri eftirspurn sem er í raun grundvöllur þess ofbeldis sem vændi er. Gerð er tilraun til þess að færa ábyrgð til þess sem er virkur þátttakandi í þeim verknaði sem vændi er og er í raun ráðandi aðili um kaupin.
Fyrir hönd Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga legg ég eindregið til að þetta frumvarp verði samþykkt með þeim breytingum sem getið er um hér að ofan.
Jafnframt er mjög mikilvægt að gera ráðstafanir til þess að styrkja sérstaklega þá einstaklinga sem hafa leiðst út í vændi og gera þeim kleift að fóta sig í lífinu á nýjan leik. Vil ég sérstaklega benda á samstarfsverkefnið Kvennasmiðjan sem Tryggingastofnun og Félagsþjónustan í Reykjavík hafa rekið fyrir ungar konur undanfarið með mjög góðum árangri.
Kveðja,
Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður
Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga