Hjukrun.is-print-version

Ályktun stjórnar Fíh um boðaðar uppsagnir á LSH

RSSfréttir
15. desember2003

Ályktun stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um boðaðar uppsagnir á LSH



Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) lýsir þungum áhyggjum af samdrætti í þjónustu og fyrirhuguðum uppsögnum starfsfólks á Landspítala háskólasjúkrahúsi. Nú þegar Alþingi hefur gert hlé á störfum er ljóst að um frekari fjárveitingar til rekstrar LSH verður ekki að ræða. Uppsagnir allt að 200 starfsmanna blasa því við með þeirri skerðingu á þjónustu sem óhjákvæmilega mun fylgja í kjölfarið.

Stjórn Fíh harmar að mögulegar afleiðingar þessa hafa ekki verið ræddar opinberlega í aðdraganda ákvörðunarinnar. Ljóst er að samdráttur í þjónustu LSH kallar á aukna þörf fyrir þjónustu í heilsugæslu, í vaktþjónustu lækna, hjá sérfræðilæknum og öðrum sjálfstætt starfandi heilbrigðisstéttum, og hjá félagsþjónustu sveitarfélaga. Sparnaður í rekstri LSH mun því valda útgjaldaauka hjá öðrum opinberum stofnunum. Alls er óvíst hvort gæði þjónustunnar verði sambærileg.

Stjórn Fíh leggur áherslu á þá hættu sem skapast getur, til framtíðar litið, þegar sérhæfðum heilbrigðisstarfsmönnum er sagt upp störfum. Landspítali háskólasjúkrahús er sérhæfðasta heilbrigðisstofnun landsins. Það sérmenntaða starfsfólk sem nú kann að missa starf sitt þarf því væntanlega að leita út fyrir landsteinana eftir nýju starfi. Mikilvæg sérfræðiþekking mun því óhjákvæmilega tapast, þekking sem tekur mörg ár eða áratugi að byggja upp að nýju.

Stjórn Fíh ítrekar þann lagalega rétt Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga að stjórnendur LSH hafi fullt samráð við félagið ef til uppsagna hjúkrunarfræðinga kemur.



Samþykkt á fundi stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga 15. desember 2003.
Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála