Hjukrun.is-print-version

Ályktun stjórnar Fíh um sérhæfða hjúkrun í heimahúsum

RSSfréttir
15. desember2003

Ályktun stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um sérhæfða hjúkrun í heimahúsum





Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) mótmælir harðlega einhliða ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins (TR) um breytingar á framkvæmd samnings við Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga um hjúkrun í heimahúsum vegna alvarlegra og langvinnra sjúkdóma og slysa.  Í samningi Fíh og TR frá 21. ágúst 2003 er bókað að á samningstímanum muni samningsaðilar ræða um framtíðarfyrirkomulag þjónustunnar.  Ekkert samráð var haft við Fíh um þær breytingar á skipulagi við framkvæmd samningsins sem TR hefur nú tekið í gildi.


Sérhæfð heimahjúkrun hefur byggst upp s.l. 15 ár og sífellt meiri þörf er fyrir þjónustuna.  Með sérhæfðri heimahjúkrun hefur tekist að útskrifa sjúklinga fyrr af sjúkrahúsum en ella væri, en veita þeim eftir sem áður flókna verkjameðferð og aðra einkennameðferð, eða þá hjúkrunarmeðferð sem er forsenda útskriftar af sjúkradeildum.  Sérhæfð hjúkrunarþjónusta í heimahúsum hefur einnig skapað skilyrði þess að sjúk börn geti frekar fengið meðferð utan sjúkrahúsa.  Hið sama á við um geðsjúka.


Í ljósi yfirvofandi samdráttar í þjónustu Landspítala háskólasjúkrahúss og þess að stjórnendur hafa boðað að legutími á LSH verði styttur meir en orðið er, má ljóst vera að enn frekari þörf verður fyrir sérhæfða hjúkrun í heimahúsum.  Þær breytingar á skipulagi þjónustunnar sem TR hefur nú einhliða gripið til stefna hins vegar sérhæfðri heimahjúkrun í hættu.


Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga krefst þess að TR afturkalli þær breytingar sem orðið hafa og í samræmi við bókun í samningi aðilanna, hafi fullt samráð við Fíh um alla endurskoðun á fyrirkomulagi þjónustunnar.






Samþykkt á fundi stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga 15. desember 2003.





Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála