Hjukrun.is-print-version

Umsögn um frumvarp til laga

RSSfréttir
13. apríl 2004

Nefndasvið Alþingis

Austurstræti 8 - 10

150 Reykjavík

     Reykjavík, 13. apríl 2004

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og samvinnunefnd um málefni norðurslóða, 652. mál, stjórn. 

Í umræddu frumvarpi er gert ráð fyrir að stjórn Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar (SVS) verði lögð af.  Stofnun Vilhjálms Stefánssonar er fyrst og fremst rannsóknastofnun sem starfar í samvinnu við aðrar slíkar hérlendis og erlendis. Í þriggja manna stjórn stofnunarinnar hefur valist fólk með ólík sérsvið og margvísleg tengsl við háskóla og rannsóknastofnanir erlendis.  Hlutverk stjórnar SVS var að fjalla um stefnu og starfsáætlanir stofnunarinnar.  Forstöðumanni stofnunarinnar er því ótvíræður styrkur að faglegum og rannsóknabundnum tengslum stjórnarmanna.

Í umræddu frumvarpi er gert ráð fyrir að samvinnunefnd um málefni norðurslóða starfi áfram.  Ekki kemur fram í greinargerð með frumvarpinu hvernig starfstengslum samvinnunefndarinnar og forstöðumanns SVS verði háttað en skv. núgildandi lögum er formaður stjórnar SVS jafnframt formaður samvinnunefndarinnar.  Í samvinnunefnd um málefni norðurslóða eru fulltrúar hinna ýmsu opinberu stofnana sem vinna á sviðum er tengjast málefnum norðurslóða.  Staða samvinnunefndarinnar gagnvart forstöðumanni og þeirri starfsemi sem fram fer í Stofnun Vilhjálms Stefánssonar verður því að vera ljós.

Í ljósi ofanritaðs telur undirrituð þær breytingar sem boðaðar eru í umræddu frumvarpi ekki til bóta fyrir störf og vöxt Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar.

Virðingarfyllst,

________________________________________

Elsa B. Friðfinnsdóttir

Starfandi formaður síðast skipaðrar stjórnar SVS

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála