Hjukrun.is-print-version

Ályktun stjórnar Fíh um boðaðar sparnaðaraðgerðir

RSSfréttir
10. maí 2004

Ályktun stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um boðaðar sparnaðaraðgerðir á LSH



Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) lýsir miklum vonbrigðum með að enn skuli stefnt að frekari niðurskurði á Landspítala háskólasjúkrahúsi. Samkvæmt upplýsingum frá formanni stjórnarnefndar LSH, sem fram komu í fréttum nú um helgina, hefur stjórnarnefnd verið gert að leggja fram tillögur um verulegan sparnað í rekstri spítalans árið 2005. Öllum sem til þekkja er ljóst að ekki er unnt að lækka rekstrarkostnað LSH meira en orðið er án þess að loka deildum og hætta að veita ákveðna heilbrigðisþjónustu.

Þær ráðstafanir sem gripið hefur verið til á þessu ári til að lækka rekstrarkostnað LSH hafa þegar dregið úr öryggi sjúklinga og valdið því að þeir fá í sumum tilfellum lakari meðferð en áður. Það er með öllu óásættanlegt fyrir sjúklinga og heilbrigðisstarfsmenn að slík staða sé uppi.
Um nýliðin mánaðarmót komu til framkvæmda þær breytingar sem stjórnendur LSH voru þvingaðir til að hrinda fram vegna sparnaðarkröfu þessa árs. Aðdragandi þessara breytinga hefur reynst starfsfólki sjúkrahússins erfiður, starfsöryggi er verulega ógnað og það hefur verið svipt starfsánægju sinni. Stöðug árás stjórnvalda á öryggi sjúklinga og vinnuumhverfi hjúkrunarfræðinga og annarra starfsmanna LSH er með öllu óásættanleg.

Stjórn Fíh krefst þess að fyrr en áhrif þeirra aðgerða sem gripið var til í upphafi þessa árs eru fyllilega komin í ljós, hvað varðar öryggi sjúklinga, gæði meðferða og starfsskilyrði hjúkrunarfræðinga og annarra starfsmanna LSH, verði ekki gerðar frekari kröfur um sparnað í rekstri LSH.


Samþykkt á fundi stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga 10 maí 2004.
Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála