Hjukrun.is-print-version

Stjórnarfundur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga

RSSfréttir
5. júlí 2004

haldinn 5. júlí 2004 kl. 14:00

Mættir: Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður, Erlín Óskarsdóttir, 1.varaformaður, Dagbjört Þyri Þorvarðardóttir, 2.varaformaður, Herdís Herbertsdóttir, gjaldkeri, Jón Aðalbjörn Jónsson, ritari, Elín Ýrr Halldórsdóttir, meðstjórnandi, Halla Grétarsdóttir, meðstjórnandi og Ingibjörg Sigmundsdóttir, varamaður.

Dagskrá:

1. Fundargerð stjórnarfundar 14. júní samþykkt.

2. Þátttaka í ICN Work force forum í september 2004.

Elsa gerði grein fyrir fyrirhuguðum kostnaði við að senda einn fulltrúa á fundinn sem haldinn verður á Nýja Sjálandi. Kostnaðurinn færi aldrei undir 300 þúsund og sennilega meira. Á þessum fjárhagslið eru einungis tæp 300 þús eftir. Stjórn samþykkir að sitja hjá að þessu sinni og Elsu falið að skrifa ICN bréf þar sem Fíh afþakkar setu á fundinum að þessu sinni.

3. Staðfesting á greiðslu ferðakostnaðar vegna kjaramála.

Elsa gerði grein fyrir því að BHM hafði óskað eftir því að Fíh sendi tvo fulltrúa á fund til Noregs þar sem fulltrúar BHM voru að kynna sér kjaramál. Tveir fulltrúar sóttu fundinn fyrir hönd Fíh og var heildarkostnaður við ferðina 275.800 kr. Stjórn samþykkti erindið.

4. Umsókn fagdeildar krabbameinshjúkrunarfræðinga um styrk.

Fagdeildin sækir um styrk vegna fundarsetu stjórnarfulltrúa í ráðgjafanefnd EONS. Þar sem umsóknarfrestur um styrki til fagdeilda er liðinn og erindið samrýmist ekki samþykktum stjórnar er erindinu hafnað.

5. Bréf frá félagsmanni.

Tekið fyrir mál félagsmanns vegna málsóknar hans á hendur Landspítala-háskólasjúkrahúsi. Fundarmenn fengu greinargerð um málið afhenta. Stjórn samþykkir að veita styrk að kr. 250.000.- vegna málskostnaðar með því skilyrði að að styrkurinn verði endurgreiddur ef málið vinnst og umsækjandi þarf ekki að bera málskostnað.

6. Bréf frá stjórn Orlofssjóðs Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Íbúðin að Klapparstíg 1 sem sjóðurinn hefur nýverið fest kaup á var afhent 1.júlí s.l. Stjórn hefur borist bréf frá orlofsnefnd þar sem óskað er eftir heimild stjórnar til að kaupa innbúi í íbúðina og til að láta mála hana. Áætlaður kostnaður er milli 1-2 milljónir króna. Erindið samþykkt.

7. Fundartími stjórnar til áramóta.

Jón Aðalbjörn óskaði eftir umræðu um fyrirhugaða fundartíma og gerði grein fyrir því að hann flyst búferlum til Kaupmannahafnar 1. september n.k. Hann mun sitja fundi stjórnar áfram með örfáum undantekningum. Eins lýsti hann áhuga sínum á að vinna áfram við heimasíðu félagsins. Gengið var frá fundartímum stjórnar fram að áramótum. Fundir verða áfram annan hvern mánudag og færist fundartíminn til kl. 14.00.

 

8. Staðfesting á starfsreglum Austurlandsdeildar.

Farið var yfir þær breytingar sem gerðar hafa verið á starfsreglum deildarinnar og voru þær samþykktar.

9. Skipun vinnuhóps vegna nýútgefinna gæðastaðla fyrir aðgerðir á einkaskurðstofum bæklunarlækninga og gæðastaðal fyrir svæfingar og deyfingar á einkaskurðstofum.

Félaginu hefur borist bréf frá Bryndísi Ólafsdóttur, hjúkrunarfræðingi þar sem hún gerir verulegar athugasemdir við nýútgefna gæðastaðla fyrir aðgerðir á einkaskurðstofum bæklunarskurðlækna. Eins hefur félaginu borist tölvupóstur frá Hrafni Óla Sigurðssyni þar sem hann átelur vinnubrögðin við gerð gæðastaðlanna svo og innihald þeirra. Formanni falið að senda viðkomandi fagdeildum Fíh bréf þar sem óskað er eftir að þær fari nákvæmlega yfir gæðastaðlana og gefi álit sitt á þeim.

10. Umbun til hluta starfsmanna við Heilsugæsluna í Reykjavík.

Félaginu hafa borist ábendingar um að hluti starfsmanna Heilsugæslunnar í Reykjavík hafi fengið umbun vegna trúmennsku og ósérhlífni. Tengist þetta mál uppsögnum hluta starfsmanna Miðstöðvar heimahjúkrunar og kjaradeilum þeirra sl. vetur. Einungis þeir starfsmenn sem ekki sögðu upp hafa fengið þessa umbun sem er á formi “dekurdags” á snyrtistofu. Stjórn samþykkir að kæra málið til Félagsdóms á grundvelli 4.greinar laga um stéttarfélög og vinnudeildur frá 1938 og mun stjórn óska eftir því að lögfræðingur BHM taki málið að sér.

11. Einstaklingsmál

Tekið fyrir einstaklingsmál og fundargerð skráð í trúnaðarbók.

12. Starfsmannasamtöl.

Vegna umfangs verkefna hjá fjármálastjóra félagsins samþykkir stjórn að fela formanni og gjaldkera að leita eftir ráðgjöf frá utanaðkomandi aðila vegna endurskoðunar á fjármálaumsýslu félagsins.

13. Önnur mál:

- Elsa sagði frá því að Anna-Karin Eklund hafi boðið sig fram til stjórnar ICN. Anna-Karin Eklund er varaformaður sænska félagsins og hefur mikla reynslu af starfi ICN. Elsa hefur því dregið framboð sitt til baka og verður Anna-Karin Eklund í framboði fyrir hönd norðurlandaþjóðanna.

- Svar hefur borist frá Þórólfi Árnasyni borgarstjóra við umleitan félagsins um styrk frá borginni vegna afmælisfagnaðar félagsins í Hafnarhúsinu 5. nóvember n.k. Borgarstjóri hafnar ósk félagsins um að borgin felli niður gjald fyrir aðstöðuna í Hafnarhúsinu. Afmælisnefndin mun gera stjórn grein fyrir stöðu mála síðar.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl.16.40.

Næsti fundur boðaður eftir sumarleyfi 16. ágúst kl.14.00.

Dagbjört Þyri Þorvarðardóttir.

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála