Hjukrun.is-print-version

Félagsráðsfundur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga

RSSfréttir
25. febrúar 2005

haldinn föstudaginn 25. febrúar 2005 kl. 10:00-15:00 að Suðurlandsbraut 22.

Dagskrá:

1. Kjaramál

Kynning á stöðu í kjaraviðræðum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga við samninganefnd ríkisins (SNR). Elsa og Helga Birna kynntu drög að samningi BHM samflotsins við ríkið. Viðræður eru langt á veg komnar og vonast er til að skrifað verði undir samning eftir helgina. Þó búið sé að móta helstu atriði varðandi nýtt launakerfi eru enn nokkur atriði óljós sem eftir er að vinna betur. Elsa lagði áherslu á að hún teldi vera mikil sóknarfæri fyrir hjúkrunarfræðinga í þessum samningi og benti á að um leið og nýja launakerfið tekur gildi raðast enginn hjúkrunarfræðingur undir 200 þúsund krónum á mánuði í grunnröðun og hæstu laun í nýju launatöflunni eru rúmlega 200 þúsund krónum hærri en hæstu laun í núgildandi launatöflu. Hins vegar munu margir hjúkrunarfræðingar lenda á svipuðum stað eftir vörpunina í nýju launatöfluna og því þarf að leggja mikla áherslu á að dreifa úr þeim hópi.

Umræður urðu í kjölfarið og leist fundarmönnum frekar vel á þessa samninga þrátt fyrir að margt sé enn óljóst. Lögðu fundarmenn áherslu á að það verði að vera sveigjanleiki í kerfinu og passa þurfi mjög vel upp á að við njörvum okkur ekki of mikið niður í skilgreiningar.

Elsa sagði einnig frá bókun sem BHM, BSRB og SNR hafa undirritað varðandi sérstaka skoðun á vaktavinnufyrirkomulagi. Einnig greindi Elsa frá samningi BHM, BSRB og KÍ við SNR um hækkun framlags í fjölskyldu- og styrktarsjóð og einnig hækkun á tryggingabótum vegna vinnuslysa.

2. Kynning á rekstrarreikningi 2004 og fjárhagsáætlun 2005.

Ingunn kynnti stöðu ársins 2004 en endanlegt og endurskoðað uppgjör verður lagt fram á fulltrúaþinginu í vor. Áætlun fyrir 2005 verður endurskoðuð eftir að kjarasamningar verða verða komnir í höfn.

3. Fulltrúaþing 9.-10. maí 2005.

Elsa kynnti helstu atriði í starfsáætlun stjórnar sem lögð verður fyrir á fulltrúaþinginu. Greindi hún frá starfi minjanefndar og samstarfi hennar og Þjóðminjasafns varðandi skráningu hjúkrunarminja og gerð safnastefnu félagsins. Fræðslunefnd hefur lagt til að gerð verði könnun á væntingum félagsmanna til fræðslu á vegum félagsins og gert er ráð fyrir að hún verði framkvæmd á næsta starfsári. Einnig sagði hún frá tillögu stjórnar varðandi ráðningu alþjóðafulltrúa og var góður stuðningur fyrir henni hjá fundarmönnum. Verið er að vinna að endurskoðun stefnu félagsins og er gert ráð fyrir að hún verði lögð fyrir fulltrúaþingið.

Fyrirhuguð endurskoðun á starfsemi sem vera átti annað megin verkefni félagsins í vetur hefur ekki gengið eins og gert var ráð fyrir en þeirri vinnu verður framhaldið á næsta starfsári stjórnar.

Tillaga kom fram um að setja á starfsáætlun stjórnar að vinna að því sérstaklega (í ljósi áðurnefndrar bókunar) að gera vaktavinnu eftirsóknarverðari en nú er.

Elsa kynnti fyrstu drög að tillögum til lagabreytinga en stjórn hefur unnið að gagngerri endurskoðun laga félagsins og mun leggja tillögur sínar fyrir fulltrúaþingið.


Erlín sagði frá starfi Kjörnefndar og óskaði eftir framboðum og/eða ábendingum varðandi framboð í stjórn og nefndir félagsins.

Aðalbjörg fór yfir undirbúning varðandi kosningu fulltrúa á þingið.

4. Önnur mál

Lagðar voru fram fimm ályktanir til samþykktar eða synjunar. Eftirfarandi ályktanir voru samþykktir:

• Ályktun varðandi fækkun stöðugilda hjúkrunarfræðinga á öldrunarstofnunum.

• Ályktun um búsetuskilyrði aldraðra á öldrunarstofnunum.

• Ályktun gegn klámvæðingu.

• Ályktun til stuðnings banni við reykingum á veitingar- og skemmtistöðum.

Ályktun varðandi kynningu og markaðssetningu lyfja var dregin til baka.

Formaður Reykjavíkurdeildar auglýsti eftir framboðum til setu á fulltrúaþingi og sagði frá væntanlegum aðalfundi í mars þar sem kosnir verða fulltrúar á þingið.

Hrafn Óli Sigurðsson varpaði fram spurningunni um hlutverk félagsins varðandi aðkomu að hjúkrunarnámi í landinu. Taldi hann að félagið ætti að hafa meira um það að segja, sérstaklega varðandi hvaða framhaldsnám kennt er og innihald námsins. Fundarmenn töldu þetta þarfa umræðu og töldu mikilvægt að bæði fagdeildirnar og stjórn gerðu sig meira gildandi varðandi þetta mál. Elsa benti á að tímabært væri að endurvekja menntanefnd félagsins og taka upp formlegt samband við bæði H.Í. og H.A.

Fleira ekki gert.
Fundi slitið kl. 15:10.

Aðalbjörg J. Finnbogadóttir


Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála