5. nóvember 2007
Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga ályktaði eftirfarandi á fundi sínum þann 5. nóvember 2007:
Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (FÍH) skorar á alþingismenn að standa vörð um forvarnarstefnu í áfengismálum og greiða atkvæði gegn frumvarpi til laga um breytingu ýmissa lagaákvæða sem varða sölu áfengis og tóbaks.
Áfengisvandinn er vaxandi heilbrigðisvandamál hér á landi og kostnaður samfélagsins vegna hans fer vaxandi. Í gögnum frá Lýðheilsustöð kemur fram að áætlaður heildarkostnaður þjóða af völdum áfengisneyslu sé á bilinu 1-3% af þjóðarframleiðslu. Áfengi hefur neikvæð áhrif á fjölda sjúkdóma, er oft orsakaþáttur í slysum og getur haft veruleg neikvæð samfélagsleg áhrif. Áfengisneysla á meðgöngu hefur skaðleg áhrif á þroska barnsins og síðar á fullorðinsárum. Rannsóknir hafa sýnt að samband er á milli aðgengis að áfengi og neyslu. Aukið aðgengi að áfengi mun án efa leiða til aukinnar áfengisneyslu unglinga og annarra einstaklinga í áhættuhópum.
Í Heilbrigðisáætlun til ársins 2010, sem samþykkt var samhljóða á Alþingi þann 20. maí 2001, eru áfengis-, vímuefna- og tóbaksvarnir settar fram sem fyrsta markmið. Þar eru sett fram markmið um að minnka heildarneyslu áfengis hér á landi og ekki síður að vinna gegn neyslu ungs fólks. Að mati stjórnar FÍH vinnur umrætt frumvarp gegn þessum markmiðum Heilbrigðisáætlunarinnar.
F.h. stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga
Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður
s. 540-6400 og 861-2892