12.
maí 2005
Reykjavík 12. maí 2005
Ályktun frá Fulltrúaþingi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga
Fulltrúaþing Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga haldið 9.og 10. maí 2005 krefst þess að framlög á fjárlögum til háskólanna verði aukið þannig að þeir geti staðið undir þeim kröfum sem gerðar eru til háskólamenntunar. Þingið leggur sérstaka áherslu á að stjórnvöld tryggi að fjárframlög til hjúkrunarmenntunar á Íslandi séu í fullu samræmi við sænska reiknilíkanið sem notað er við útdeilingu fjár til háskólamenntunar.
Rökstuðningur:
Undanfarin ár hefur stúdentum í háskólum hér á landi fjölgað verulega. Gerðar eru miklar kröfur til háskólanna um gæði náms og rannsóknir. Yfirvöld háskólanna hafa lýst því yfir opinberlega að miðað við fjölda nemenda og kröfur til kennslu og rannsókna nægi fjárveitingar ríkisins ekki til að standa undir rekstrarkostnaði. Íslendingar hafa verið, og vilja vera, samkeppnisfærir á alþjóðamarkaði hvað háskólanám varðar. Til að svo verði hér eftir sem hingað til er nauðsynlegt að auka fjárframlög ríkisins til háskóla landsins.
Frá árinu 1999 hafa fjárveitingar til kennslu við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri verið byggðar á reiknilíkani sem þróað var í Svíþjóð og hefur verið notað þar. Reiknilíkanið tekur einungis til grunnnáms. Líkanið skiptist í 7 reikniflokka og er hver reikniflokkur misdýr. Námsleiðir eru flokkaðar í reikniflokka út frá því hversu kostnaðarsöm kennsla viðkomandi námsleiðar er. Þannig er nám sem byggir eingöngu á fyrirlestrum flokkað í ódýran flokk, en nám þar sem kennslan er mikið einstaklingsbundin, mikið um tilraunir o.s.frv. flokkuð í dýran flokk. Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og heilbrigðisdeild Háskólans á Akureyri hafa allt frá því að flokkunarkerfið var tekið upp mótmælt og sagt að hjúkrunarfræði hafi verið flokkuð ranglega. Þannig sé námið mun dýrara en flokkurinn sem hjúkrunarfræðin hefur verið flokkuð í gefur til kynna. Ekki hefur gengið að fá þetta leiðrétt.
Árið 2001 var flokkun hjúkrunarnáms í Svíþjóð breytt og námið sett í dýrari flokk. Er það í kjölfar þess að hjúkrunarnám þar er nú komið í háskóla. Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri sóttu þá strax um að leiðrétt yrði flokkun hjúkrunarnáms á Íslandi. Það hefur ekki gengið eftir.
Ályktun frá Fulltrúaþingi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga
Fulltrúaþing Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga haldið 9.og 10. maí 2005 krefst þess að framlög á fjárlögum til háskólanna verði aukið þannig að þeir geti staðið undir þeim kröfum sem gerðar eru til háskólamenntunar. Þingið leggur sérstaka áherslu á að stjórnvöld tryggi að fjárframlög til hjúkrunarmenntunar á Íslandi séu í fullu samræmi við sænska reiknilíkanið sem notað er við útdeilingu fjár til háskólamenntunar.
Rökstuðningur:
Undanfarin ár hefur stúdentum í háskólum hér á landi fjölgað verulega. Gerðar eru miklar kröfur til háskólanna um gæði náms og rannsóknir. Yfirvöld háskólanna hafa lýst því yfir opinberlega að miðað við fjölda nemenda og kröfur til kennslu og rannsókna nægi fjárveitingar ríkisins ekki til að standa undir rekstrarkostnaði. Íslendingar hafa verið, og vilja vera, samkeppnisfærir á alþjóðamarkaði hvað háskólanám varðar. Til að svo verði hér eftir sem hingað til er nauðsynlegt að auka fjárframlög ríkisins til háskóla landsins.
Frá árinu 1999 hafa fjárveitingar til kennslu við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri verið byggðar á reiknilíkani sem þróað var í Svíþjóð og hefur verið notað þar. Reiknilíkanið tekur einungis til grunnnáms. Líkanið skiptist í 7 reikniflokka og er hver reikniflokkur misdýr. Námsleiðir eru flokkaðar í reikniflokka út frá því hversu kostnaðarsöm kennsla viðkomandi námsleiðar er. Þannig er nám sem byggir eingöngu á fyrirlestrum flokkað í ódýran flokk, en nám þar sem kennslan er mikið einstaklingsbundin, mikið um tilraunir o.s.frv. flokkuð í dýran flokk. Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og heilbrigðisdeild Háskólans á Akureyri hafa allt frá því að flokkunarkerfið var tekið upp mótmælt og sagt að hjúkrunarfræði hafi verið flokkuð ranglega. Þannig sé námið mun dýrara en flokkurinn sem hjúkrunarfræðin hefur verið flokkuð í gefur til kynna. Ekki hefur gengið að fá þetta leiðrétt.
Árið 2001 var flokkun hjúkrunarnáms í Svíþjóð breytt og námið sett í dýrari flokk. Er það í kjölfar þess að hjúkrunarnám þar er nú komið í háskóla. Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri sóttu þá strax um að leiðrétt yrði flokkun hjúkrunarnáms á Íslandi. Það hefur ekki gengið eftir.