Haldinn að Suðurlandsbraut 22 þann 10. apríl 2006 kl. 13.30
Mættir:
Til Afgreiðslu
1. Fundargerð síðasta fundar. Samþykkt
2. Verksamningur við ESKO Global S.A. um viðhald og vefumsjón fyrir vefsvæðið
www.hjukrun.is . Ritari víkur af fundi.
Formanni falið að ræða við verktaka um nánari útfærslu á tveimur þáttum samningsins og ganga síðan frá samningnum. Formanni jafnframt falið að skrifa ritstjóra Tímarits hjúkrunarfræðinga með áréttingu um þann þátt í starfi hans sem snýr að innsetningu efnis á vefsvæði félagsins.
Til umræðu
3. Minnispunktar frá söguritara um væntanlega bókaútgáfu og drög að útboðsgögnum.
Formaður kynnir minnispunkta. Stjórn vísar minnispunktum ásamt endurskoðuðum áætlunum söguritara til söguritunarnefndar með beiðni um endurskoðaða áætlun sem tekur til allra verkþátta við útgáfu bókarinnar, (sbr. minnispunkta) auk áætlunar um heildarkostnað verksins. Stjórn óskar eftir upplýsingum um hvernig stuðningi við útgáfuna verði háttað.
4. Verkefni í tengslum við erlent samstarf.
Vigdís Hallgrímsdóttir kemur á fundinn. Halla Grétarsdóttir kynnir undirbúning að fundum erlendis. Farið yfir efni SSN fundar í Færeyjum .
Vård i Norden. Umræða um kynningarátak til að kynna tímaritið fyrir íslenskum lesendum með það að markmiði að fjölga áskrifendum. Erla Kolbrún er fulltrúi Fíh í ritstjórn. Vigdísi falið að ræða við hana.
Tilkynna þarf fulltrúa á stjórnarfundinn sem haldinn verður í Noregi í ágúst fyrir 20 maí nk. 11.-13. október verður SSN ráðstefna í Helsingfors í Finnlandi. Vorfundur 2007 verður í Kaupmannahöfn og stjórnarfundur og ráðstefna haustsins 2007 verður á Íslandi 22.-26. október. Haustráðstefna 2008 verður haldin í Færeyjum og verður efnið framtíðarsýn í hjúkrun.
Gæðavísar í heilbrigðisþjónustunni. Vigdís kynnir málið og ákveðið að Elsa setji sig í samband við Margréti Björnsdóttur hjá HTR um framhald málsins og hugsanlega aðkomu Fíh að því.
5. Mannekla í hjúkrun – Fundur á LSH og hugmynd um átak í að efla mönnun á öldrunarstofnunum. Formaður kynnir umræðu undangenginna daga, þær viðræður sem hún hefur átt við forsvarsmenn St. Jósefsspítala. Mikil umræða er í landinu sem og á þingi um öldrunarmál. Fundur hjúkrunarráðs LSH um manneklu í hjúkrun sem haldinn var sl. miðvikudag var sérlega vel sóttur og þar komu fram opinskáar lýsingar á ástandinu á spítalanum.
Stjórn ræddi um þá hjúkrunarfræðinga sem hafa opnað umræðuna af hreinskilni og hve nauðsynlegt sé að standa vörð um stöðu þeirra. Framundan eru fundir hjá Landlækni sem og hjá hjúkrunarfræðideild HÍ í vikunni um hvað er til ráða.
Heilbrigðisráðherra mun ætla að ræða við menntamálaráðherra um fjármögnun hjúkrunarfræðináms.
Stjórn samþykkti eftirfarandi ályktanir annarsvegar um LSH og hinsvegar um öldrunarstofnanir.
Ályktun stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um öldrunarstofnanir (liður 5. í fundardagskrá):
Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga hvetur stjórnvöld og stjórnendur öldrunarstofnana til að gera nú þegar sérstaka þjónustusamninga um rekstur stofnananna þar sem skýrt verði kveðið á um gæði og magn þjónustunnar, og þann mannafla sem krafist er til að tryggja viðeigandi þjónustu hverju sinni. Starfsemi öldrunarstofnana er ein mikilvægasta þjónusta samfélagsins og stjórnvöldum ber siðferðileg skylda til að tryggja fullnægjandi og viðeigandi hjúkrun þeirra einstaklinga sem þar búa. Það verður aðeins gert með skýrum samningum um þjónustuna og eftirliti með rekstri stofnananna og gæðum þeirrar þjónustu sem þar er veitt.
Ályktun stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um skort á hjúkrunarfræðingum á LSH (liður 5. í fundardagskrá):
Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) tekur undir ályktun og áskorun almenns fundar hjúkrunarfræðinga á Landspítala-háskólasjúkrahúsi sem haldinn var þann 5. apríl sl. þar sem lýst var yfir miklum áhyggjum vegna skorts á hjúkrunarfræðingum á LSH. Stjórn Fíh ítrekar mikilvægi hjúkrunarmönnunar og bendir á niðurstöður rannsókna sem sýna óyggjandi tengsl minni fjölda hjúkrunarfræðinga á vakt, og gæði þjónustunnar og öryggi sjúklinga. Af erlendum rannsóknum að dæma má áætla að á LSH verði um 3000 einstaklingar á ári fyrir óhöppum eða atvikum sem ekki tengjast beint veikindum þeirra. Rannsóknir sýna að áhrifamesta aðferðin til að fækka slíkum óhöppum og ótímabærum andlátum er að fjöldi hjúkrunarfræðinga á hverri vakt sé hæfilegur.
Þá skorar stjórn Fíh á yfirstjórn LSH að bæta starfsaðstöðu þeirra hjúkrunarfræðinga sem í dag starfa við þessar erfiðu aðstæður á LSH. Aukin veikindaforföll og aukin starfsmannavelta benda eindregið til aukins álags á hjúkrunarfræðinga. Hvorutveggja er mjög kostnaðarsamt fyrir stofnunina auk þess að rýra gæði þjónustunnar og öryggi sjúklinga.
Til kynningar:
6. Beiðni um umsagnir um tillögu til þingsályktunar um takmörkun auglýsinga á óhollri matvöru, 162. mál og um tillögu til þingsályktunar um hreyfingu sem valkost í heilbrigðiskerfinu, 220.mál.
Samþykkt að vísa málunum til umsagnar fagdeildar heilsugæsluhjúkrunarfræðinga og fagdeildar hjartahjúkrunarfræðinga.
7. Önnur mál.
a. Þingsályktunartillaga um upplýsingar í ökuskírteini um vilja til líffæragjafar. 629. mál.
Ritari kynnir málið. Samþykkt að ritari skrifi drög að athugasemd um málið sem síðan yrði send Alþingi.
Fundi slitið kl. 16.00
Fundargerð ritaði