Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
bt. Guðríðar Þorsteinsdóttur
Vegmúla 3
150 Reykjavík
Reykjavík, 31. ágúst 2007
Efni: Umsögn um drög að reglugerð um eftirlit landlæknis með rekstri heilbrigðisþjónustu og faglegar lágmarkskröfur.
Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) þakkar fyrir að fá tækifæri til að gera athugasemdir við drög að reglugerð um eftirlit landlæknis með rekstri heilbrigðisþjónustu og faglegar lágmarkskröfur. Stjórnin telur reglugerðina ná, í flestum þáttum, að setja skýrari ramma um eftirlitshlutverk landlæknis, en fram kemur í lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007 og í lögum um landlækni, nr. 41/2007.
Stjórn Fíh fagnar sérstaklega ákvæðum III. kafla reglugerðardraganna.
Stjórn Fíh gerir hins vegar athugasemd við 11. gr. reglugerðarinnar þar sem fjallað er um faglegar lágmarkskröfur hvað varðar mönnun í heilbrigðisþjónustu. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur á undanförnum misserum ítrekað bent á mikilvægi þess að skýrar viðmiðunarreglur gildi um mönnun í heilbrigðisþjónustu, bæði hvað varðar fjölda hjúkrunarfræðinga og samsetningu mannaflans. Félagið hefur vísað til fjölda vísindarannsókna sem sýna ótvírætt fram á tengsl mönnunar hjúkrunarfræðinga og afdrifa sjúklinga. Þá má einnig benda á mikilvægi skýrra krafna um mönnun í ljósi aukins vilja stjórnvalda til að bjóða út einstaka þætti heilbrigðisþjónustunnar, eins og fram kemur í VII. kafla laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2207. Við slíka útboðs- og tilboðsgerð er nauðsynlegt að fyrir liggi nákvæmlega hvernig mönnun þjónustunnar skuli háttað. Stjórn Fíh beinir því þeirri áskorun til ráðuneytisins að skýrar verði kveðið á um mönnun í heilbrigðisþjónustu en gert er í þessum drögum.
Virðingarfyllst,
F.h. stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga,
________________________________________
Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður