Hjukrun.is-print-version

7. fundur stjórnar starfstímabilið 2007 - 2009

RSSfréttir
24. september 2007

Haldinn á Suðurlandsbraut 22, þann 24. sept. 2007 kl. 13:30

Mættir: Elsa B. Friðfinnsdóttir, Halla Grétarsdóttir, Elín Ýrr Halldórsdóttir, Eygló Ingadóttir, Gyða Ölvisdóttir, Hrund Helgadóttir, Stefanía Arnardóttir.

Til afgreiðslu:

1.      Fundargerð síðasta fundar.

Fundargerð síðasta fundar samþykkt.

2.      Endurskipun í embætti innan stjórnar FÍH.

Fríða Björg Leifsdóttir skipuð ritari stjórnar til eins árs í fjarveru Jóns Aðalbjörns Jónssonar.

3.      Viðbætur við rekstraráætlun fyrir 2007.

Aukafjárveiting samþykkt.

a)      ENDA ráðstefna. Beiðni Önnu Stefánsdóttir um styrk frá FÍH vegna ráðstefnunnar. Kaup á töskum og greiðsla vegna móttöku ráðstefnunnar þann 2. október samþykkt.

b)      Kostnaður við morgunverðarfundi Global Consulting Group samþykktur.

c)      Greiðslur til nefndarmanna í umbótanefnd.  Samþykkt að greiða nefndarmönnum fyrir fundi í nefndinni skv. reglum um þóknanir vegna nefndastarfa hjá FÍH.

d)     Stjórn samþykkir erindi formanns um leiðréttingu launa sbr. starfsreglur stjórnar.  Stjórn samþykkir afturvirka leiðréttingu launa sem er tvíþætt. Annars vegar frá 1. jan. 2006 til 30. sept. 2006 og hins vegar frá 1. okt. 2006 til dagsins í dag.

Elínu Ýrr er falið að breyta ráðningasamningi formanns.

Í kjölfar umræðna og afgreiðslu á erindi formanns FÍH um leiðréttingu launa lagði Eygló Ingadóttir fram eftirfarandi bókun:

Í starfsreglum stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (FÍH) sem samþykktar voru á fundi stjórnarinnar þann 14. nóvember 2005, segir m.a.: „Laun formanns skulu á hverjum tíma vera sambærileg launum hjúkrunarforstjóra Landspítala – háskólasjúkrahúss". Einnig segir: „Starfsreglur stjórnar skulu teknar fyrir á öðrum stjórnarfundi nýrrar stjórnar" en það hefur ekki verið gert síðan ný stjórn tók við.
Formaður FÍH fer fram á launahækkun til samræmis við þau laun sem hjúkrunarforstjóri Landspítala hefur og vill undirrituð árétta samþykki sitt fyrir því. Formaður FÍH fer einnig fram á „leiðréttingu launa" rúmlega eitt og hálft ár aftur í tímann þar sem hjúkrunarforstjóri fékk launahækkun án vitundar formanns FÍH. Undirrituð telur að um mistök í orðalagi starfsreglnanna sé að ræða, enda í fyrsta sinn sem slíkar reglur eru settar. Við setningu þeirra var um það rætt að starfsreglurnar væru ekki lög félagsins og ættu eftir að þróast með tímanum og endurspeglar eftirfarandi setning þennan skilning: „Stjórn getur hvenær sem er á starfstíma sínum endurskoðað og breytt starfsreglum sínum enda hljóti breytingin fylgi meirihluta stjórnar".
Ég tel því ósk formanns FÍH um leiðréttingu launa eitt og hálft ár aftur í tímann ekki réttmæta og sit hjá.

Í framhaldi þessarar bókunar lagði Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður FÍH fram eftirfarandi bókun:

Á fundi stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (FÍH) þann 24. september 2007 lagði Eygló Ingadóttir, gjaldkeri stjórnar félagsins fram bókun vegna umræðu og afgreiðslu á fyrirliggjandi erindi formanns FÍH um leiðréttingu launa.  Umrætt erindi, dags. 27. ágúst 2007, byggir á svohljóðandi grein í starfsreglum stjórnar sem samþykktar voru á fundi stjórnar FÍH þann 14. nóvember 2005: „Laun formanns skulu á hverjum tíma vera sambærileg launum hjúkrunarforstjóra Landspítala háskólasjúkrahúss“.  Þegar ég  hafði kynnt mér umrædda bókun á stjórnarfundinum áskyldi ég mér rétt til að leggja einnig fram bókun þessu tengt.  Í ljósi bókunar gjaldkera stjórnar FÍH geri ég eftirfarandi athugasemdir:

Mig undrar að kjörinn trúnaðarmaður í stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, fag- og stéttarfélags, skuli tala fyrir því að stjórn félagsins brjóti eigin starfsreglur, reglur sem allir þáverandi stjórnarmenn skrifuðu undir, þar á meðal gjaldkerinn, reglur sem hafa verið opinberar á vefsvæði félagsins allt frá setningu þeirra í nóvember 2005.  Viðmiðun launa formanns félagsins hefur þannig verið öllum ljós, einnig þeim sem hugsanlega höfðu áhuga á að gefa kost á sér til formennsku í félaginu vegna kjörs vorið 2007.  Að halda því fram, nú tveimur árum síðar að um mistök í orðalagi starfsreglnanna hafi verið að ræða, gerir ekki aðeins lítið úr þáverandi ritara stjórnar sem hélt utan um samningu starfsreglnanna heldur einnig öllum þeim stjórnarmönnum sem samþykktu starfsreglurnar.  Engin ein grein starfsreglnanna var jafn vel yfirfarin og rædd þá sex mánuði sem vinna við reglusetninguna stóð yfir og umrædd grein um formann félagsins.

Þá er rétt að árétta að formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga er jafnframt framkvæmdastjóri félagsins.  Til samanburðar eru formaður og framkvæmdastjóri í fullu starfi hvor, bæði hjá Læknafélagi Íslands, þar sem félagsmenn eru rúmlega 1000, og í Sjúkraliðafélagi Íslands, þar sem félagsmenn eru rúmlega 2500.  Í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga eru nú yfir 3800 félagsmenn. 

Til umræðu:

       4. Rekstraryfirlit janúar – ágúst 2007 og áætlanir 2007 og 2008.

Rekstraryfirlit og áætlanir til kynningar og verður á dagskrá félagsráðsfundar 27. sept. 2007

  1. Starfslýsing verkefnastjóra kjara- og réttindamála.

Málinu frestað til næsta fundar.

  1. Dagskrá félagsráðsfundar 27. september 2007.

Fundarstjóri verður Elsa B. Friðfinnsdóttir. Fundarritarar verður Jón Aðalbjörn Jónsson og Fríða B. Leifsdóttir

  1. Dagskrá auka aðalfundar 27. september 2007.

Fundarstjóri verður Sigrún Barkardóttir. Fundarritarar verða Jón Aðalbjörn Jónsson og Fríða B. Leifsdóttir.

  1. Starfsmannamál – framhald umræðu frá síðasta stjórnarfundi.

Fulltrúi á skrifstofu fer veikindaleyfi og síðan sumarleyfi samtals í 3 mánuði. Samþykkt að leita eftir afleysingu í ½ starf í þann tíma.

Til kynningar:

  1. Innleiðing Focal skjalavistunarkerfisins.

Focal skjalavistunarkefið verður tekið í notkun 1. okt. 2007. Skrifstofan verður lokuð þann dag þar sem starfsfólk verður að læra á kerfið.

  1. Skipulag morgunverðarfunda með GCG.

Fulltrúa vantar á morgunverðarfund. Gyða Ölvisdóttir bíður sig fram.

  1. Umsögn FÍH um drög að reglugerð um eftirlit landlæknis með rekstri heilbrigðisþjónustu og faglegar lágmarkskröfur.

Umsögn um drögin hafa þegar verið send.

  1. Önnur mál.

Engin önnur mál á dagskrá.

Fundi slitið kl. 16.15.

Fundargerð ritaði Hrund Helgadóttir meðstjórnandi í stjórn FÍH.

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála