Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8 - 10
150 Reykjavík
Reykjavík, 30. nóvember 2007
Efni: Umsögn um tillögu til þingsályktunar um eflingu rafrænnar sjúkraskrár, 29. mál.
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (FÍH) þakkar beiðni um umsögn um tillögu til þingsályktunar um eflingu rafrænnar sjúkraskár og telur það mikið fagnaðarefni að þingmenn sýni rafrænni sjúkraskrá áhuga. Við vinnslu umsagnarinnar leitaði félagið til Ástu Thoroddsen, hjúkrunarfræðings, sem er sérfræðingur á þessu sviði.
FÍH telur að megin þættir tillögunnar séu til mikilla bóta þar sem Ísland hefur dregist aftur úr Norðurlöndunum í notkun rafrænnar sjúkraskrár. Þótt þróun rafrænnar sjúkraskrár taki aldrei enda er staðan á Íslandi óásættanleg. Því ber að fagna þessari tillögu og vonandi næst samstaða um málið.
Félaginu þykir ástæða til að hnykkja á nokkrum atriðum:
- Mikilvægi nýrrar þarfagreiningar. Í tillögunni er rætt um innleiðingu á rafrænni sjúkraskrá. Áður en innleitt er þarf að kortleggja stöðuna og þörfina, sem engum dylst að er mjög brýn. Rétt er sem kemur fram í tillögunni að Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið (HTR) hafi tilgreint kröfur sem öll sjúkraskrárkerfi þurfi að uppfylla. Þær kröfur eru hins vegar barn síns tíma því þær voru unnar fyrir um 10 árum og engan veginn hægt að nota til að byggja kröfur til sjúkraskrákerfa dagsins í dag. Til samanburðar má t.d. nefna þá gríðarlegu þróun sem orðið hefur í farsímum frá árinu 2000. Tækninni hefur fleygt svo fram á þessum árum að nauðsynlegt er að uppfæra slíka lýsingu.
- Þarfir stofnana eru mjög ólíkar og t.d. er erfitt að bera saman heilbrigðisstofnun úti á landi, þar sem eru fá klínísk kerfi, við Landspítala þar sem rafræn klínísk kerfi í dag eru um 60 talsins. Rafræn sjúkraskrá er því ekki eitt kerfi heldur samsafn af mörgum tölvukerfum sem notuð eru í klínískri vinnu. Segja má að rafræn sjúkraskrá t.d. á Landspítala sé ‘misþroska’ þar sem í notkun eru nýleg, fullkomin tölvukerfi og önnur sem eru úr sér gengin og lúta ekki kröfum um virkni, öryggi og staðla, sem til slíkra kerfa eru gerð í dag.
- Landlæknisembættið setti fram tilmæli um lágmarksskráningu vistunarupplýsinga árið 2001, en þar koma fram kröfur til skráningar hjúkrunar. Embættið hefur ekki getað kallað inn gögn varðandi hjúkrun þar sem gögn um hjúkrun á legudeildum eru ekki til á rafrænu formi hjá sjúkrahúsum.
- Allt ferli sjúklinga á sjúkrahúsum verður að skrá í rafræna sjúkraskrá. Til að full yfirsýn náist yfir gögn um sjúklinga þarf allt ferli að vera skráð í rafræna sjúkraskrá, þ.m.t. hjúkrunarmeðferðir, íhlutir, lífsmörk og mælingar og allar heilbrigðisstéttir að geta skráð sitt mat í rafræna sjúkraskrá. Hjúkrunarfræðingar voru í fararbroddi í þróun rafrænnar sjúkraskrár fyrir um 10 árum. Þrátt fyrir það er í dag svo komið að allar heilbrigðisstéttir sem sinna sjúklingum beint á legudeildum sjúkrahúsa geta skráð sögu, greiningar, meðferð/rannsóknir nema hjúkrunarfræðingar. Síðustu 10 ár hefur ekki fengist fjármagn til þróunar hugbúnaðar eða til kaupa á kerfi/-um til rafrænnar skráningar fyrir það tímabil sem sjúklingar liggja á legudeildum sjúkrahúsa. Ekki er unnt að fá tölulegar upplýsingar (nema um mönnun) um þá hjúkrun sem veitt er, gæði hennar og árangur. Á hjúkrunarheimilum eru aldraðir metnir með RAI mælitækinu skv. reglugerð. Upplýsingar um veitta hjúkrun (og hvort hún taki mið af ástandi og þörfum hins aldraða) eru hins vegar ekki fyrir hendi nema að litlu leyti. Mikil göt eru því í gögnum þeirra sjúklinga sem leggjast á sjúkrahús, og þó margt hafi áunnist þarf að gera betur.
- Öryggi sjúklinga og gæði rafrænnar skráningar. Vel hönnuð upplýsingakerfi geta eflt öryggi sjúklinga með ,,áminningum” og ,,ábendingum”. Einnig geta gögn úr slíkum kerfum nýst til þekkingarþróunar og gefið vísbendingar um öryggisbresti þjónustu.
- Gagnreynd þekking og bestu starfshættir. Forystumenn heilbrigðisþjónustu í iðnvæddum ríkjum eru í síauknum mæli farnir að líta til þess að innleiða klínísk upplýsingakerfi sem leið til að festa í sessi reglur um að framfylgja beri bestu starfsháttum og innihaldi þverfaglegra áætlana um meðferð.
Virðingarfyllst,
F.h. stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga,
________________________________________
Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður