Reykjavík 13. febrúar 2008
Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8 - 10
150 Reykjavík
Efni: Umsögn um frumvarp til laga um flutning á útgáfu starfsleyfa til landlæknis, 351. mál, breyting ýmissa laga.
Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (FÍH) þakkar fyrir að fá tækifæri til að veita umsögn um ofangreint frumvarp. Stjórnin telur breytingar þær sem lagðar eru til í frumvarpinu vera til bóta og til einföldunar stjórnsýslunnar. Þá telur stjórn FÍH þessar breytingar vera til samræmis þeim anda sem fram kemur í lögum nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu og í lögum nr. 41/2007 um landlækni.
Stjórn FÍH leggur áherslu á mikilvægi nýrrar 6. mgr. 15. gr. laga nr. 41/2007 um landlækni (6. gr. frumvarpsins) um að ákvörðun landlæknis um sviptingu starfsleyfis eða takmörkun starfsleyfis sæti kæru til ráðherra.
Stjórn FÍH vekur athygli á því að ekki er samræmi í notkun á hugtökunum „ráðherra“ annars vegar og „heilbrigðisráðherra“ hins vegar. Þannig er lagt til að í 2. mgr. 1.gr. hjúkrunarlaga nr. 8/1974 komi orðið „heilbrigðisráðherra“ í stað orðsins „ráðherra“. Í 14. og 17. gr. frumvarpsins er hins vegar vísað til „ráðherra“ en ekki „heilbrigðisráðherra“. Stjórn FÍH veltir fyrir sér hvort hér sé um mistök að ræða eða hvort annar ráðherra en heilbrigðisráðherra geti ákvarðað þá þætti sem 14. og 17. gr. frumvarpsins vísa til.
Virðingarfyllst,
F.h. stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga,
________________________________________
Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður