Hjukrun.is-print-version

27. Fundur stjórnar starfstímabilið 2007- 2009

RSSfréttir
20. október 2008
27. fundur stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga
starfstímabilið 2007 - 2009

20. október 2008 kl. 13:30

Fundinn sátu:

Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður, Eygló Ingadóttir gjaldkeri, Halla Grétarsdóttir 1. varaformaður, Stefanía B. Arnardóttir, varamaður, Elín Ýrr Halldórsdóttir 2. varaformaður, Hólmfríður Kristjánsdóttir, meðstjórnandi og Gyða Ölvisdóttir, varamaður.

Til afgreiðslu:

1. Fundargerð 26. fundar samþykkt með orðalagsbreytingum.
2. Erindi frá orlofsnefnd Fíh þar sem Bryndís formaður deildarinnar óskar eftir fjáreitingu til að bæta við möguleikum í bókunarkerfið Hannibal (kostnaður 400 þús.) var samþykkt.
3. Samþykkt var að gera samning við Guðrúnu Ragnarsdóttir, ráðgjafa um vinnu allt að tuttugu tímum þar sem hún lætur í té ráðgjöf við gerð rammasamnings við samningsnefnd Sjúkratryggingastofnunar Íslands varðandi sjálfstætt starfandi hjúkrunarfræðinga.
4. Ályktun vegna tilflutnings heimahjúkrunar til velferðarsviðs Reykjavíkurborgar var samþykkt og mun verða send til velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Einnig var ákveðið að halda fund í félaginu 19. nóvember, þar sem ráðherra og aðilar tengdir velferðarsviði borgarinnar munu mæta og fræða hjúkrunarfræðinga um tilflutninginn.

„Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) fagnar þeim markmiðum yfirlýsingarinnar að auka og samþætta þjónustu við skjólstæðinga í heimahúsum. Grundvöllur þess að aldraðir og sjúkir geti dvalið sem lengst á eigin heimili er að fagleg og viðeigandi þjónusta standi þeim ávallt til boða heima fyrir. Fíh fagnar þeirri hugmyndafræði að samþætta þjónustuna þannig að hún nýtist sem best hverjum einstaklingi. Þá er það einnig fagnaðarefni að Reykjavíkurborg hyggist leggja aukið fé til þessarar þjónustu.

Stjórn Fíh leggur áherslu á að við þessar breytingar verði þess sérstaklega gætt að hugmyndafræði hjúkrunar verði leiðarljós þjónustunnar og henni stýrt af hjúkrunarfræðingum, enda heimahjúkrun grundvöllur starfsins. Samkvæmt þeim upplýsingum sem félagið hefur fengið er gert ráð fyrir að hjúkrunarfræðingar heimahjúkrunar starfi áfram við hjúkrunina þó stjórnun þjónustunnar færist undir velferðarsvið Reykjavíkurborgar. Það telur stjórn Fíh afar mikilvægt til að tryggja samfellu þjónustunnar við hvern einstakling og til að lágmarka það álag sem slíkar breytingar geta haft í för með sér fyrir skjólstæðingum þjónustunnar. Stjórn Fíh leggur einnig áherslu á að áunninna réttinda hjúkrunarfræðinga verði sérstaklega gætt við umræddar breytingar. Fíh er fúst til samstarfs um þær breytingar sem framundan eru“.

Til umræðu:
5. Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður BHM og Stefán Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri bandalagsins mættu á fundinn. Málin voru rædd stuttlega, t.d. í sambandi við uppbyggingu, hlutverk, þjónustu, framtíðarsýn og ekki hvað síst að mikilvægt væri að vera vakandi fyrir launajafnrétti kynjana.
Einnig var varpað fram hver ávinningur okkar í Fíh er af því að vera í bandalaginu. Guðlaug og Stefán voru sammála um að það væri verulegur ávinningur fyrir báða aðila en að skoða þyrfti í þessu samhengi þá þjónustu og samskipti sem nú eru í gangi.
6. Staða sjóða Fíh – Sólveig Stefánsdóttir, fjármálastjóri kom á fundinn, hún hefur undanfarna daga verið að skoða sjóði félagsins og ljóst er að þar hefur tapast fé eins og í öðrum sjóðum síðustu vikur. Það stendur þó eftir að ávöxtun á síðasta ári hefur verið góð.
Rætt um húsnæðismál og samþykkt að gera Exista tilboð um kaup á lagerhúsnæði og makaskipti á hæðum.

Til kynningar:
7. Elsa B. Friðfinnsdóttir formaður hefur ritað opið svarbréf til Gunnars Gunnarssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra SLFÍ og voru fundarmenn mjög sáttir við þær leiðréttingar sem þar komu fram.

8. Önnur mál.
a. Ljósmæðrafélag Íslands sendi inn bréf þar sem farið er fram á styrk út af lögfræðikostnaði vegna samningamála. Ákveðið var að vísa málinu til stjórnar vinnudeilusjóðs og fá álit þeirra.

b. Elsa ræddi stöðu sögunefndar varðandi bókaútgáfu um sögu hjúkrunar og ætlar að funda með þeim um málið.

Fundi slitið kl. 15:40.
Gyða Ölvisdóttir, fundarritari.


Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála