Hjukrun.is-print-version

Umsögn um drög að frumvarpi til laga

RSSfréttir
19. janúar 2009

Reykjavík 19. janúar 2009

Heilbrigðisráðuneytið

bt. Guðrúnar W. Jensdóttur

Vegmúla 3

150 Reykjavík

Efni: Umsögn um drög að frumvarpi til laga um heilbrigðisstarfsmenn.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) þakkar beiðni um umsögn um ofangreind drög að frumvarpi til laga um heilbrigðisstarfmenn.  Félagið hefur áður veitt umsagnir um sambærileg frumvörp, síðast 19. september 2002.  Stjórn Fíh kefur fjallað um frumvarpsdrögin og gerir eftirfarandi athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsdraganna:

-          Í 4.gr. er fjallað um réttindi til að nota starfsheiti löggiltrar heilbrigðisstéttar.  Um þann rétt segir í fyrri a-lið greinarinnar „að loknu prófi og starfsreynslu hér á landi“.  Hjúkrunarfræðingar hafa hingað til fengið leyfi til að kalla sig hjúkrunarfræðing og starfa sem slíkir eftir brautskráningu frá Háskóla Íslands eða Háskólanum á Akureyri.  Leyfisveitandi hefur hingað til ekki farið fram á staðfestingu á starfsreynslu.  Því spyr stjórn Fíh:  Er hér um stefnubreytingu að ræða og hversu löng á þá tilskilin starfsreynsla að vera?

-          Í 6. gr. er fjallað um skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis.  Stjórn Fíh telur nauðsynlegt að skýrar sé kveðið á um eftir hverju Landlæknir skuli fara við mat á því hvort nám teljist fullnægjandi og á jafngildi náms.  Mikilvægt er að skýrt sé kveðið á um að Landlækni beri að leita umsagnar ákveðinna aðila við slíkt mat t.d. sérfræðiráða eða fulltrúa menntastofnana.  Stjórn Fíh telur raunar að ráðherra eigi að vera skylt að skipa slík sérfræðiráð, sem veiti umsagnir um umsóknir um hjúkrunarleyfi hér á landi.  Hið sama ætti einnig að gilda um lækna enda hafa þessar tvær fagstéttir mikla sérstöðu í lögum um heilbrigðisþjónustu.

Í 4. mgr. 6.gr. er veitt heimild til að setja í reglugerð um starfsleyfi skilyrði um að umsækjandi þurfi að gangast undir hæfnispróf.  Í frumvarpsdrögunum kemur hins vegar ekki fram hver skuli bera ábyrgð á útfærslu slíks hæfnisprófs og hvernig það er framkvæmt.

Þá er í 5. mgr. 6. gr. frumvarpsdraganna veitt heimild til að setja kunnáttu í íslensku sem kröfu vegna leyfisveitinga.  Stjórn Fíh telur rétt, með hagsmuni skjólstæðinga heilbrigðisþjónustunnar í huga, að íslenskukunnátta sé gerð að skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis í hjúkrun.

 

-          Í 9. gr. frumvarpsdraganna er fjallað um hvað komi í veg fyrir notkun starfsheitis.  Stjórn Fíh vekur athygli á því að í greininni er greint á milli lækninga og meðferðar og spyr hvort lækning sé ekki meðferð?  Síðar í greininni er talað um „læknisfræðilegar eða faglegar ráðleggingar“  sem vekur upp þá spurningu hvort læknisfræðileg meðferð sé ekki fagleg?  Stjórn Fíh leggur til að sérstök tilvísun til lækninga og læknismeðferðar falli brott.

-     Í 10. gr. er fjallað um tímabundið starfsleyfi.  Stjórn Fíh telur ákvæði þessarar greinar allsendis óviðunandi og leggur til að greinin í heild sinni falli brott.  Sem dæmi um misráðin ákvæði þessarar greinar má nefna:

1) Ekki er skilgreint hvað orðalagið „ef nauðsyn krefur“ felur í sér.

2) Hvað liggur að baki þess að valið er 4/5 en ekki t.d. ¾ hlutar fullgilds náms?

3) Sagt er að einstaklingur með tímabundið starfsleyfi geti fengið leyfi „til að sinna tilteknum störfum í heilbrigðisþjónustunni“.  Það hlýtur að vera lágmarkskrafa að einstaklingur með tímabundið starfsleyfi sinni einungis verkefnum þeirrar fagstéttar sem hið tímabundna leyfi er veitt í.

4) Ekki er kveðið á um til hversu langs tíma má veita slíkt tímabundið leyfi né hvort veita má tímabundið leyfi endurtekið, og þá hve oft.

5) Skýra þarf hvaða „sérstöku aðstæður“ geta kallað á að víkja megi frá 1. og 3. mgr.

6) Þá er í næst síðustu mgr. 10. gr. þessara draga kveðið á um að við sérstakar aðstæður megi „fela heilbrigðisstarfsmanni í annarri grein heilbrigðisfræða að stjórna og hafa eftirlit með handhafa tímabundins starfsleyfis“.  Stjórn Fíh telur slíkt með öllu óviðunandi enda skýrt kveðið á um faglegt forræði hjúkrunarfræðinga yfir hjúkrun í lögum.  Þá þarf að vera tryggt, með tilvísan til laga um réttindi sjúklinga, að einungis þeir sem hafa að baki eða eru í hjúkrunarnámi stundi hjúkrun.

-          Í 12. gr. er fjallað um veitingu takmarkaðra leyfa til að sinna tilteknum störfum, eftir að einstaklingur hefur verið sviftur starfsleyfi.  Stjórn Fíh fagnar þessari grein og telur hana til bóta.

-          Í 13. gr. frumvarpsdraganna er fjallað um faglegar kröfur.  Stjórn Fíh fagnar ákvæðum þessarar greinar en vekur þó athygli á orðalagi 3. mgr. þar sem segir að „Heilbrigðisstarfsmaður ber ábyrgð á greiningu og meðferð þeirra sjúklinga sem til hans leita“.  Á sjúkradeildum setur alla jafna einn hjúkrunarfræðingur fram hjúkrunargreiningar en fleiri koma síðan að meðferðinni.  Ábyrgðin getur því verið fleiri en eins hjúkrunarfræðings.  Þá vill stjórn Fíh einnig benda á mikilvægi þess að tilvísanir þær sem kveðið er á um í 4. mgr. séu skriflegar.

-          Í 14. gr. er fjallað um undanþágu frá starfsskyldu.  Stjórn Fíh telur þetta ákvæði geta stangast á við 15. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996.  Skýrt þarf a.m.k. að vera kveðið á um hverjum ber að tilkynna slíkt og með hvaða hætti.

-          Í 16. gr. frumvarpsdraganna er fjallað um aðstoðarmenn og nema.  Stjórn Fíh gerir athugasemd við að ekki er gerður greinarmunur á fagstéttum og starfsstéttum í heilbrigðisþjónustu.  Lagt er til að ákvæði greinarinnar er varða aðstoðarmenn falli brott en ákvæði þau er lúta að nemum standi.

-          Í 17. gr. er kveðið á um trúnað og þagnarskyldu.  Þar er kveðið á um að heilbrigðisstarfsmaður geti látið „í té upplýsingar með hliðsjón af vilja hins látna ...“.  Skýrt þarf að koma fram hvort hér er vísað til munnlegra upplýsinga eða einungis skriflegra.

-          Í 29. gr. er fjallað um alþjóðlega samninga.  Í lok 1. mgr. segir „að gefa út slíkt leyfi“.  Með öllu er óljóst til hvers konar leyfa verið er að vísa.

-          Í 32. gr. frumvarpsdraganna er kveðið á um brottfellingu laga, m.a. hjúkrunarlaga.  Stjórn Fíh leggst gegn því að fella sértæk hjúkrunarlög niður.  Þau drög að frumvarpi sem hér liggja fyrir fela í sér svo viðamiklar breytingar að þær hljóta að kalla á endurskilgreiningar heilbrigðisstétta, annars vegar í fagstéttir og hins vegar í starfsstéttir í heilbrigðisþjónustu.  Stjórn Fíh ítrekar í þessu sambandi ákvæði 10. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007 þar sem kveðið er á um fagstjórnendur.  Sérstaða hjúkrunarfræðinga og lækna er slík að að mati stjórnar Fíh er nauðsynlegt að um þær stéttir gildi áfram sérlög.

Stjórn Fíh fagnar ýmsum ákvæðum þessara framvarpsdraga en ítrekar mikilvægi þess að lög sem þessi séu skýr og afdráttarlaus.  Þá varar stjórnin við þeirri tilhneigingu í lagasetningu að ráðherra séu færð umtalsverð völd til setninga reglugerða um þætti sem nauðsynlegt kann að vera að séu lögbundnir.

Stjórn Fíh áskilur sér einnig rétt til að koma frekari athugasemdum á framfæri ef þurfa þykir.

Stjórn Fíh ítrekar að lokum þá afstöðu sína að sérlög gildi áfram um hjúkrunarfræðinga og lýsir sig reiðubúna til að koma að endurskoðun hjúkrunarlaga nr. 8/1974.

F.h. stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga,

____________________________________

Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður
Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála