Hjukrun.is-print-version

Umsögn um drög að frumvarpi til laga

RSSfréttir
19. febrúar 2009

Reykjavík 19. febrúar 2009

Heilbrigðisráðuneytið

bt. Guðríðar Þorsteinsdóttur

Vegmúla 3

150 Reykjavík

Efni: Umsögn um drög að frumvarpi til laga um Eftirlitsstofnun heilbrigðisþjónustu og drög að frumvarpi til laga um Lýðheilsustofnun.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) þakkar beiðni um umsögn um ofangreind drög að umræddum frumvörpum og þakkar jafnframt fyrir það tækifæri að fá að koma helstu sjónarmiðum félagsins á framfæri á fundi í ráðuneytinu þann 12. febrúar sl . Af orðum ráðuneytisstjóra heilbrigðisráðuneytisins á þeim fundi má ráða að litlar líkur eru á að umrædd frumvörp verði lögð fram á yfirstandandi þingi.  Í ljósi þess mun stjórn Fíh einungis fjalla um helstu þætti frumvarpanna í þessari umsögn en lítið um einstakar greinar frumvarpsdraganna. 

Miklar breytingar hafa orðið á lagaumhverfi íslenskrar heilbrigðisþjónustu á undanförnum árum.  Á vorþingi 2007 voru samþykkt ný lög um heilbrigðisþjónustu og ný lög um landlækni, hvoru tveggja eftir margra missera nefndarstarf.  Haustið 2008 voru síðan samþykkt ný og umdeild lög um sjúkratryggingar.  Í kjölfar þeirrar lagasetningar var síðan nýrri stofnun, undir heitinu Sjúkratryggingar Íslands, komið á fót.  Þær breytingar sem af þessum lögum hafa leitt hafa eðlilega valdið nokkru umróti innan heilbrigðiskerfisins og því telur stjórn Fíh markmiðin með frekari breytingum á lagaumhverfi heilbrigðisþjónustunnar og stofnunum þess, þurfi að vera skýr áður en ráðist er í þær.  Stjórn Fíh telur markmiðin með breytingum er leiða af umræddum frumvörpum ekki nægilega skýr.

Í aðdraganda stofnunar Lýðheilsustöðvar árið 2003 fór fram mikil umræða um verkaskiptingu milli hinnar nýju stöðvar og Landlæknisembættisins í því er lítur að forvörnum og lýðheilsu.  Margir töldu heppilegt að flytja allt forvarnastarf frá Landlæknisembættinu og gera það að hreinni eftirlitsstofnun.  Andi þeirra frumvarpsdraga sem hér eru til umfjöllunar er í þessa veru, að Landlæknisembættið breytist í Eftirlitsstofnun heilbrigðisþjónustu og Lýðheilsustofnun sjái alfarið um forvarna- og heilsueflingarverkefni, og fleira.  Stjórn Fíh telur þessa aðgreiningu geta verið til bóta.  Um þrjár stórar stjórnvaldsstofnanir yrði þá að ræða, Sjúkratryggingar Íslands auk hinna tveggja fyrrnefndu.  Stjórn Fíh telur þó mikla vinnu eiga eftir að fara fram í því að marka einstökum verkefnum stað í ofangreindum stofnunum og telur nauðsynlegt áður en lengra er haldið að einstakar stofnanir, sem ætlað er að ganga inn í þessar tvær nýju stofnanir, setji fram greinargerð um helstu verkefni hver á sínu sviði.

Stjórn Fíh vill að svo stöddu einungis gera beinar athugasemdir við tvær greinar umræddra frumvarpsdraga.  Í 2. gr. frumvarpsdraga um Lýðheilsustofnun kemur fram að landlæknir skuli veita stofnuninni forstöðu.  Í bréfi ráðherra til félagsins dags. 28. janúar 2008, kemur fram að rökin fyrir þessari skipan séu þau að mikilvægt sé að varðveita heitið landlæknir, það eigi sér langa sögu, sé vel þekkt meðal þjóðarinnar og skipi ákveðinn sess í huga hennar.  Stjórn Fíh telur þetta hins vegar mjög misráðið.  Ekki er dregið í efa að heitið landlæknir skipi sérstakan sess í huga þjóðarinnar en fullyrða má að flestir tengi landlækni fremur við eftirlit en lýðheilsustarf.  Ef eitthvað, ætti því landlæknir að veita hinni nýju Eftirlitsstofnun heilbrigðisþjónustu forstöðu.  Stjórn Fíh leggst alfarið gegn því að forstaða Lýðheilsustofnunar verði bundin læknum.  Fjöldi annarra heilbrigðisstarfmanna, þar á meðal hjúkrunarfræðinga, hafa sérhæft sig í lýðheilsufræðum og því óverjandi að hæfir einstaklingar verði útilokaðir frá forystu þessarar mikilvægu stofnunar, með því að einskorða forstöðuna við lækna.

Stjórn Fíh vill einnig vekja athygli á því að í áður tilvitnuðu bréfi ráðuneytisins segir að  Eftirlitsstofnun heilbrigðisþjónustu sé m.a. ætlað það hlutverk að veita starfsleyfi.  Þó er í drögum að frumvarpi um stofnunina einungis fjallað um eftirlit með heilbrigðisstarfsmönnum, áminningu og sviptingu leyfis (V. kafli) en ekki frumveitingu starfsleyfis.  Stjórn Fíh bendir á að í drögum að frumvarpi til laga um heilbrigðisstarfsmenn sem Fíh var sent til umsagnar í janúar sl. er gert ráð fyrir að landlæknir fari með veitingu starfsleyfa, áminningar og sviptingar.  Þarna er því algjört misræmi milli fyrirliggjandi frumvarpsdraga.

Í umræddum frumvarpsdrögum er gert ráð fyrir miklum sameiningum stofnana.  Vitað er að slíkar sameiningar eru kostnaðarsamar og flóknar, bæði með tilliti til skipulags og starfsmannamála.  Með hliðsjón af því efnahagsástandi og þeirri óvissu sem ríkir hér á landi um þessar mundir, telur stjórn Fíh ekki heppilegt að fara fram með hugmyndir um svo róttæka uppstokkun á stofnanakerfi heilbrigðisráðuneytisins eins og hér er lagt til.

Ef svo fer að heilbrigðisráðherra leggi fram umrædd frumvörp, áskilur stjórn Fíh sér rétt til að koma á framfæri athugasemdum við einstakar greinar frumvarpanna og frumvörpin í heild.

F.h. stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga,

____________________________________

Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála