Reykjavík 20. janúar 2010
Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8 - 10
150 Reykjavík
Efni: Umsögn um frumvarp til laga um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, 309. mál.
Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) þakkar fyrir að fá tækifæri til að veita umsögn um ofangreint frumvarp. Stjórn Fíh telur frumvarpið og þann ramma sem það setur varðandi mat á faglegri menntun sem aflað er í öðru landi afar mikilvægan. Stjórnin leggur áherslu á að miklar kröfur þurfi að gera til hjúkrunarfræðinga um menntun og faglega hæfni til að tryggja örugga hjúkrunarþjónustu af þeim gæðum sem landsmenn krefjast. Hjúkrunarnám er afar mismunandi milli landa og þvi þarf að tryggja að umsækjendur um starfsleyfi í hjúkrun hér á landi uppfylli ákveðin skilyrði.
Stjórn Fíh gerir einungis athugasemd við 8. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um að ráðherra geti með reglugerð veitt undanþágu frá ákvæðum í lögum er varðar m.a. viðurkenningu á prófum. Stjórnin telur ástæðulaust og varhugavert að gefa þeim ráðherra sem í hlut á svo opna heimild til undanþága í mikilvægu máli. Vert er að benda á tengsl þessa við 11. gr. frumvarps til laga um heilbrigðisstarfsmenn, 116. mál, sem nú liggur fyrir Alþingi. Þar er Landlækni veitt heimild til að veita þeim sem lokið hafa a.m.k. 2/3 hlutum fullgilds náms í tiltekinni grein heilbrigðisfræða tímabundið starfsleyfi. Stjórn Fíh hefur í umsögn um umrætt frumvarp andmælt þessum hugmyndum með öryggi sjúklinga að leiðarljósi. Stjórn Fíh varar við þeim afleiðingum fyrir gæði hjúkrunar og öryggi sjúklinga sem hlotist geta af samspili ákvæða þessara tveggja greina ef frumvörpin verða að lögum.
Virðingarfyllst,
F.h. stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga,
________________________________________
Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður