Reykjavík 25. janúar 2010
Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8 - 10
150 Reykjavík
Efni: Umsögn um frumvarp til laga um heilbrigðisþjónustu, 308. mál.
Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) þakkar fyrir að fá tækifæri til að veita umsögn um ofangreint frumvarp. Stjórn Fíh leggst alfarið gegn þeim breytingum á lögum um heilbrigðisþjónustu sem í frumvarpinu felast.
Athugasemdir við 1. gr. frumvarpsins
Í athugasemdum við lagafrumvarpið segir m.a.: „Skv. 1. mgr. 10. gr. laganna bera framkvæmdastjóri hjúkrunar og framkvæmdastjóri lækninga faglega ábyrgð á þjónustu stofnunar gagnvart forstjóra. Ekki verður séð að nauðsyn beri til að kveða nánar á um innra skipulag heilbrigðisstofnana í lögum“. Stjórn Fíh heldur fram hinu gagnstæða og bendir á að undanfarin ár hefur fjöldi heilbrigðisstofnana verið sameinaðar og starfsvæði þeirra verið stækkað. Um nýliðin áramót voru átta heilbrigðisstofnanir á Vesturlandi sameinaðar í eina stofnun, Heilbrigðistofnun Vesturlands. Starfssvæði þeirrar stofnunar nær frá Akranesi norður til Hvammstanga og Hólmavíkur. Heilbrigðisstofnun Austurlands nær yfir svæðið frá Vopnafirði suður til Djúpavogs og Heilbrigðisstofnun Suðurlands þjónar íbúum allt vestur af Höfn í Hornafirði til Selfoss. Með stærra starfsvæði eykst þörfin fyrir dreifstýringu. Heilbrigðisþjónusta er í eðli sínu mjög breytileg, bráðaaðstæður skapast og þjónustuþörf skjólstæðinganna getur breyst skyndilega. Stjórnendur í hjúkrun þurfa að forgangsraða verkefnum frá degi til dags og jafnvel frá einni stundu til annarrar til að tryggja gæði þjónustunnar og öryggi sjúklinga. Því fjær vettvangi sem stjórnandinn er því erfiðari og ómarkvissari verður stjórnunin og þjónustan. Stjórn Fíh telur því mikilvægara en nokkru sinni að kveðið sé á um innra skipulag heilbrigðisstofnana í lögum þannig að fagleg ábyrgð deildarstjóra hjúkrunar eða annars skilgreinds hjúkrunarstjórnenda á einstökum starfsstöðvum stórra heilbrigðisstofnana sé skýr, með hagsmuni skjólstæðinga þjónustunnar að leiðarljósi.
Skýr lagaákvæði um faglega ábyrgð deildarstjóra í hjúkrun á sjúkrahúsum eru nauðsynleg í ljósi stærðar þeirra stofnana ekki hvað síst Landspítala (LSH). Stjórnskipulagi LSH hefur nú verið breytt á þann veg að framkvæmdastjórar hafa verið settir yfir stórar og mannfrekar einingar þar sem veitt er gríðarlega flókin og fjölbreytt þjónusta. Aðeins tveir framkvæmdastjórar sviða eru hjúkrunarfræðingar. Framkvæmdastjóri hjúkrunar á LSH ber vissulega faglega ábyrgð á hjúkrun en hefur hvorki fjárhagslega ábyrgð né mannaforráð. Á þeim sviðum LSH þar sem framkvæmdastjóri er ekki hjúkrunarfræðingur gætu komið upp þær aðstæður, verði stöður deildarstjóra felldar brott úr stjórnskipulagi stofnunarinnar, að enginn hjúkrunarstjórnandi annar en framkvæmdastjóri hjúkrunar, verði starfandi á viðkomandi sviði. Má þar nefna lyflækningasvið en undir það svið falla m.a. allar lyflækningadeildir spítalans, krabbameinsdeildir, endurhæfingardeildir og öldrunardeildir. Fjöldi skjólstæðinga sviðsins skiptir hundruðum á hverjum degi, sömuleiðis fjöldi hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða. Deildir sviðsins þjóna bráðveikum, fólki með langvinna sjúkdóma og deyjandi fólki. Að mati stjórnar Fíh er algjörlega óhugsandi að reka viðunandi hjúkrunarþjónustu á sviðinu án hjúkrunarstjórnenda/deildarstjóra á einstökum deildum.
Athugasemdir við 2. gr. frumvarpsins
Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að fella brott ákvæði um yfirhjúkrunarfræðinga heilsugæslustöðva. Á sameinuðum heilbrigðisstofnunum eins og lýst var fyrr í umsögn þessari eru reknar heilsugæslustöðvar sem miklar fjarlægðir eru á milli. Nefna má heilsugæsluna á Hólmavík og heilsugæsluna í Ólafsvík sem dæmi um heilsugæslustöðvar innan sömu heilbrigðisstofnunarinnar. Að mati stjórnar Fíh er óhugsandi að skipuleggja og veita örugga hjúkrunarþjónustu á þessum útstöðvum Heilbrigðisstofnunar Vesturlands án annarra hjúkrunarstjórnenda en framkvæmdastjóra hjúkrunar sem hefur aðsetur á Akranesi.
Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) tilheyra nú 16 heilsugæslustöðvar í sex sveitarfélögum. Um 2/3 hlutar þjóðarinnar sækja sína grunnþjónustu til þessara stöðva, þar sem ófæddir jafnt sem aldraðir fá hjúkrunarþjónustu. Margþætt þjónusta er veitt á heilsugæslustöðvunum, í grunnskólum og á heimilum fólks. Verði frumvarpið að lögum og velji forstjóri HH að leggja niður stöður yfirhjúkrunarfræðinga einstakra heilsugæslustöðva verður framkvæmastjóri hjúkrunar eini stjórnandinn sem getur skipulagt og stýrt daglegri hjúkrunarþjónustu heilsugæslunnar á þessum 16 stöðvum. Stjórn Fíh telur slíkt óhugsandi og að það myndi kippa grundvellinum undan heilsugæslunni, þessari veigamiklu grunnþjónustu sem stjórnvöld leggja áherslu á að styrkist.
Að lokum
Í umsögn fjárlagaskrifstofu Fjármálaráðuneytisins kemur fram að „frumvarpinu sé ætlað að auka möguleika á að einfalda skipulag og ná fram aukinni hagræðingu og sveigjanleika í starfsemi heilbrigðisstofnana“. Frumvarp til laga um heilbrigðisþjónustu er því í þessu tilviki augljóslega lagt fram af fjárhagslegum ástæðum en ekki faglegum. Stjórn Fíh mótmælir því að fagleg rök víki þannig fyrir fjárhagslegum.
Þá vill stjórn Fíh vekja athygli á ákvæðum 33. greinar tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EC um viðurkenningu á faglegri hæfni. Þar er kveðið á um fullt stjórnunarlegt forræði hjúkrunarfræðinga yfir hjúkrunarþjónustu, að hjúkrunarfræðingar verði að bera fulla ábyrgð á skipulagi og stjórnun þjónustu til skjólstæðinga hjúkrunar.
Stjórn Fíh hvetur heilbrigðisnefnd Alþingis til að falla frá þeim breytingum sem lagðar eru til í umræddu framvarpi.
Virðingarfyllst,
F.h. stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga,
________________________________________
Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður