Hjukrun.is-print-version

Umsögn um drög að reglugerð

RSSfréttir
30. ágúst 2010

 

                                               

Reykjavík 30. ágúst 2010

 

 

Ólafur Grétar Kristjánsson,

deildarsérfræðingur á skrifstofu menntamála

Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Sölvhólsgötu 4

150 Reykjavík

 

Efni:   Umsögn um drög að reglugerð um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi.

 

 

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) þakkar fyrir að fá tækifæri til að veita umsögn um ofangreind drög að reglugerð. Við vinnslu umsagnarinnar voru tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB og lög um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi nr. 26/2010, höfð til viðmiðunar.

 

Fíh bendir á að þó heiti reglugerðardraganna sé fengið úr tilskipuninni geti verið heppilegt að bæta orðinu „erlendri“ í heitið hér á landi. Tilskipunin tekur til allra þeirra landa sem undirgangast tilskipanir EB en reglugerðin tekur einungis til Íslands.

 

Um drögin vill Fíh almennt segja að málfar er á köflum afar tyrfið og illskiljanlegt. Sem dæmi má nefna heiti 15. gr. „Niðurfelling á viðbótarráðstöfunum á grundvelli sameiginlegra grunnskilyrða“. Svo virðist sem læsileiki og fegurð íslenskunnar hafi í mörgum tilfellum vikið fyrir einhvers konar embættismannamáli. Fíh telur æskilegt að bæta hér úr. Þá vill Fíh einnig benda á að hugtökin fagstétt, fagmenn og starfsgrein eru notuð sitt á hvað í drögunum án þess að þau séu skilgreind sérstaklega.

 

Fíh gerir eftirfarandi athugasemdir við einstakar greinar draganna:

 

1. gr.   Þó þessi fyrsta grein reglugerðarinnar sé bein þýðing úr tilskipuninni telur Fíh að merking greinarinnar, skilgreining markmiðs reglugerðarinnar, verði mun skýrara ef málsgreininni yrði skipt í tvennt eða þrennt. Hún er nú 69 orð sem er rúmlega þrefaldur sá orðafjöldi sem æskilegur er í einni málsgrein.

 

2. gr.   Í greininni er kveðið á um gildissvið reglugerðarinnar og m.a. kveðið á um að heimilt sé „að beita ákvæðum reglugerðarinnar gagnvart ríkisborgunum annarra ríkja en aðildarríkja samningsins um Evrópska efnahagssvæðið“. Fíh telur að skýra þurfi þessa heimild nánar þannig að samræmi verði í beitingu ákvæðanna óháð því hver gegnir embætti ráðherra hverju sinni.

 

3. gr.   Fíh leggur áherslu á að skýrt sé hvaða merkingu lykil hugtök í reglugerðinni hafa. Auk þeirra hugtaka sem skilgreind eru í 3. gr. leggur Fíh til að hugtökin þjónustuveitendur, fagmenn og starfsgrein verði einnig skilgreind sérstaklega.

 

Heiti II. kafla reglugerðardraganna er „Þjónustustarfsemi“. Þar hefur orðið „frjáls“ fjallið úr sambærilegri umfjöllun í tilskipuninni. Þar sem kaflinn fjallar ekki um þjónustustarfsemi almennt telur Fíh skýrara að hann heiti „Frjáls þjónustustarfsemi“.

 

7. gr.   Í annari efnisgrein er kveðið á um að stjórnvald hér á landi geti kannað „faglega menntun og hæfi þjónustuveitandans áður en hann veitir þjónustu í fyrsta sinn“. Jafnvel þó notkun sagnarinnar að geta sé í fullu samræmi við orðalag tilskipunarinnar, leggur Fíh til að stjórnvaldi hér á landi verði gert skylt að kanna „faglega menntun og hæfi þjónustuveitandans áður en hann veitir þjónustu í fyrsta sinn“.

Fíh fagnar þeim ákvæðum um tímafresti sem kveðið er á um í greininni.

 

8. gr.   Fíh lýsir sérstakri ánægju sinni með það ákvæði greinarinnar að greina eigi þjónustuþega frá niðurstöðum kvörtunar sem hann hefur borið fram.

 

 9. gr.  Fíh fagnar þeirri upplýsingaskyldu sem lögbær yfirvöld hér á landi geta lagt á þjónustuveitanda sem vinnur undir starfsheiti sem notað er í staðfestuaðildarríki. Fíh bendir á að æskilegt væri að slíkar upplýsingar um þjónustuveitendur í heilbrigðisþjónustu væru aðgengilegar þjónustuþegum hér á landi.

 

12. gr. Við vinnslu umsagnar Fíh kom í ljós að hægt er að skilja ákvæði þessarar greinar reglugerðardraganna á ólíka vegu. Svo virðist sem samtengingin sem í þriðju línu fyrstu efnisgreinar vísi í annað en ætla má að átt sé við skv. orðalagi 13. gr. tilskipunarinnar. Þar sem þessi grein er afar þýðingarmikil leggur Fíh til að sérstaklega verði hugað að einföldun hennar þannig að orðalag sé skýrt og afdráttarlaust.

 

14. gr. Í greininni er fjallað um aðlögunartíma og hæfnispróf og vísað til hlutaðeigandi ráðherra. Í síðari efnisgrein 14. gr. er kveðið á um að fyrir hæfnispróf skuli „taka saman yfirlit yfir þær námsgreinar sem með samanburði á menntun umsækjanda og þeirri menntun sem krafist er, prófskírteini eða annar vitnisburður umsækjanda um formlega menntun og hæfi tekur ekki til“. Að mati Fíh er óljóst hvaða stjórnvald ber ábyrgð á að slíkt yfirlit sé tekið saman og einnig hver undirbýr og framkvæmir umrædd hæfnispróf. Þegar um hjúkrunarfræðinga er að ræða er ljóst að heilbrigðisráðherra er sá hlutaðeigandi ráðherra sem ákveður reglur um aðlögunartíma en mat á menntun hjúkrunarfræðinga fellur undir stofnanir menntamálaráðuneytisins.

 

15. gr. Fíh ítrekar þá skoðun sína að heiti greinarinnar sé einstaklega tyrfið og hvetur til einföldunar.

Fíh vekur athygli á því að sem fagfélag hefur Fíh komið að undirbúningi tilskipunarinnar með virkri þátttöku í Evrópusamtökum hjúkrunarfélaga, The European Federation of Nurses Associations (EFN).

 

16. gr. Fíh fagnar þeim ákvæðum um tímafresti sem kveðið er á um í greininni.

 

18. gr. Fíh vekur athygli á því að skilyrði um tungumálakunnáttu þeirra sem fá viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi er hvergi að finna í tilskipuninni. Fíh telur vart heimilt að setja slík skilyrði umfram ákvæði tilskipunarinnar og telur að þau stangist á við ákvæði um frjálst flæði vinnuafls. Fíh leggur áherslu á að hér eftir sem hingað til verði það á forræði og í ákvörðunarvaldi einstakra stjórnenda sem fara með ráðningarvald að setja slík skilyrði um tungumálakunnáttu fyrir ráðningu í starf hér á landi.

 

Fíh ítrekar þá ábendingu sína að dregið verði úr þeim stofnana- og þýðingarbrag sem gætir í reglugerðardrögunum og að áhersla verði á skýrt og afdráttarlaust orðalag. Slíkt eykur vægi reglugerðarinnar og kemur í veg fyrir misskilning og/eða rangtúlkun.

 

 

Virðingarfyllst,

F.h. Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga,

________________________________________

Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála