Reykjavík 10. september 2010
Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8 - 10
150 Reykjavík
Efni: Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, með síðari breytingum, 658. mál.
Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) sendir hér með umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, sem nú er í meðförum Alþingis. Félagið fékk frumvarpið ekki til umsagnar en þar sem frumvarpið varðar hagsmuni sjúklinga og hjúkrunarfræðinga telur stjórn félagsins nauðsynlegt að koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri.
Miklar breytingar hafa orðið á ráðuneytum hér á landi á undanförnum árum. Ný ráðuneyti hafa verið sett á fót og málaflokkar verið færðir á milli ráðuneyta. Í upphafi aldarinnar var til að mynda mikil umræða um misvægi í stærð ráðuneyta. Sérstaklega var tilgreint að þáverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti væri of stórt og eðlilegt að færa tryggingahlutann frá til að meira jafnvægi ríkti milli ráðuneyta. Það gekk eftir fyrir tveimur árum, árið 2008, þegar tryggingahlutinn var færður til félagsmálaráðuneytis. Samhliða voru gerðar ýmsar breytingar í heilbrigðiskerfinu. Má þar nefna stofnun Sjúkratrygginga Íslands sem yfirtók hluta verkefna Tryggingastofnunar ríkisins. Einnig hefur fjöldi heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni verið sameinaðar í kjölfar setningar laga um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007. Þannig er heilsugæsla, sjúkrahúsþjónusta og öldrunarþjónusta nú víða rekin undir einum hatti.
Sú sameining sem nú er lögð til, þ.e. að sameina heilbrigðisráðuneytið og félags- og tryggingamálaráðuneytið í eitt velferðarráðuneyti, gengur í veigamiklum atriðum þvert gegn þessum breytingum sem átt hafa sér stað á undanförnum árum. Ljóst er að nýtt sameinað ráðuneyti verður gríðarlega umfangsmikið bæði hvað starfsemi varðar og fjármagn. Eins og fram hefur komið mun um helmingur ríkisútgjalda fara í málaflokka þessa ráðuneytis. Útgjöld sex ráðuneyta af tíu skv. frumvarpinu eru hins vegar undir 5% af útgjöldum ríkisins og samanlagt fara innan við 15% ríkisútgjalda í þessi sex ráðuneyti. Misvægi ráðuneyta verður því gríðarlegt og óttast stjórn Fíh að það kunni að veikja hinn mikilvæga málaflokk, heilbrigðismálin.
Stjórn Fíh tekur undir það megin sjónarmið að á hverjum tíma þurfi stjórnvöld að skipuleggja þjónustu hins opinbera á þann hátt að sem mest og best þjónusta fáist fyrir það fjármagn sem til ráðstöfunar er hverju sinni. Þeir málaflokkar sem ætlunin er að sameina undir eitt ráðuneyti velferðarmála skarast á ýmsum sviðum, eins og bent er á í athugasemdum með frumvarpinu. Á undanförnum árum hafa stjórnvöld og stjórnendur stofnana tekið mið af þessari skörun í skipulagi og víðast er gott samstarf milli þeirra aðila í heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu sem sinna sömu einstaklingum eða vinna á sama svæði. Fullyrða má að slík samvinna skilar alla jafna heilstæðari þjónustu til þjónustuþegans og er því af hinu góða svo lengi sem gæði þjónustunnar líða ekki fyrir skipulagið. Stjórn Fíh leggur áherslu á að ekkert sé því til fyrirstöðu að auka samvinnu og samþættingu þjónustu á einstökum stofnunum eða landshlutum. Eins og dæmin sanna er það vel mögulegt og árangursríkt án þess að málaflokkarnir falli undir sama ráðuneyti.
Heilbrigðisþjónusta er í eðli sínu viðkvæm þjónusta sem í fleiri tilfellum en færri, er leitað eftir þegar eitthvað bjátar á hjá fólki. Þannig þarf skipulag þjónustunnar að taka mið af viðkvæmum aðstæðum og mæta þörfum fólks jafnvel um langan tíma. Heilbrigðisþjónusta er samstarf margra sérhæfðra faghópa sem vinna að sama markmiði þ.e. að efla heilbrigði fólks, koma því aftur til heilsu ef eitthvað bjátar á eða stuðla að friðsælum dauðdaga. Margir þættir þessarar sérhæfðu þjónustu eiga lítið sameiginlegt með félagsþjónustu. Stjórn Fíh telur því að sterk rök þurfi að hníga að því að sameining heilbrigðisráðuneytis og félags- og tryggingamálaráðuneytis verði til bóta fyrir þá sem þjónustunnar njóta. Slíka ákvörðun verði að taka með hagsmuni þjónustuþega í huga, ekki einungis á fjárhagslegum forsendum.
Í athugasemdum með frumvarpinu eru sett fram helstu rök fyrir sameiningunni. Stjórn Fíh telur þau rök hvorki skýr né næg til að byggja slíka sameiningu á, þegar um svo viðkvæma og viðamikla málaflokka er að ræða. Stjórnin leggur því til að áður en lengra er haldið verði sérstökum samstarfshópi ráðuneytanna, ásamt fulltrúum þeirra er þjónustuna veita, falið að setja fram ítarlega greiningu á hugsanlegum ávinningi og skaða af sameiningu heilbrigðisráðuneytis og félags- og tryggingamálaráðuneytis í eitt ráðuneyti velferðarmála. Stjórn Fíh er reiðubúin til að koma að þeirri vinnu.
Samgöngu- og sveitastjórnarmálaráðuneyti
F.h. stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga,
____________________________________
Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður