6.
október 2010
Reykjavík 6. október 2010
Ályktun stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga:
Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) mótmælir harðlega þeim mikla niðurskurði á heilbrigðisstofnunum sem boðaður er í frumvarpi til fjárlaga 2011. Stjórnin varar við þeim alvarlegu afleiðingum sem svo miklar og bráðar breytingar á heilbrigðisþjónustunni munu hafa fyrir alla landsmenn. Forstöðumenn heilbrigðisstofnananna hafa ekki verið hafðir með í ráðum í undirbúningi þessarar kerfisbreytingar hvað þá heldur Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, sem er þó lang fjölmennasta fag- og stéttarfélag heilbrigðisstétta. Að mati stjórnar Fíh er alls óljóst hvort Landspítali og Sjúkrahúsið á Akureyri geti tekið við þeim auknu verkefnum sem þangað er beint. Þá telur stjórnin að sparnaðurinn af því að flytja verkefni frá landsbyggðarsjúkrahúsum til hátæknisjúkrahúsanna sé með öllu óviss.
Stjórnin varar einnig við þeim samfélagslegu áhrifum sem svo mikill niðurskurður á heilbrigðisþjónustu mun hafa. Öryggi íbúanna verður ógnað. Heilbrigðisstofnanir eru fjölmennir vinnustaðir í hverju byggðarlagi og ljóst að fjöldi starfsmanna, ekki síst kvenna, mun missa vinnu sína ef svo hart verður gengið fram í niðurskurði eins og boðað er.
F.h. stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga
Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður
s. 540-6400 og 861-2892