þriðjudaginn 19. október 2010 kl. 11:00-14:00 á Grand Hótel
Mættir:
Elsa B. Friðfinnsdóttir, Aðalheiður D. Matthíasdóttir, Áslaug Birna Ólafsdóttir, Fjóla Ingimundardóttir, Guðbjörg Pálsdóttir, Gunnar Helgason, Helga Atladóttir, Herdís Gunnarsdóttir, Hildur Einarsdóttir, Ingibjörg Þórisdóttir, Íris Dröfn Björnsdóttir, Jóhanna Oddsdóttir, Kristín Thorberg, Ragnheiður Gunnarsdóttir, Sigurveig Gísladóttir, Svanhildur Jónsdóttir og Þórunn Sævarsdóttir.
Boðuð forföll:
Stella S. Hrafnkelsdóttir.
Gestir:
Aðalbjörg J. Finnbogadóttir og Cecilie B. Björgvinsdóttir.
1. Niðurskurður í heilbrigðisþjónustunni.
Elsa hafði inngang fyrir umfjöllun um fyrirhugaðan niðurskurð í heilbrigðiskerfinu vegna fjárlagafrumvarps árisins 2011 og fyrirliggjandi forsendur fyrir samdrætti á sjúkrasviðum heilbrigðisstofnana. Að beiðni formanns voru fulltrúar svæðisdeilda Fíh með samantekt um áhrif væntanlegs niðurskurðar á heilbrigðisstofnanir víða um land. Að samantekt lokinni var opnað fyrir almennar umræður og tillögur stjórnarmanna um niðurskurð í heilbrigðisþjónustunni.
Samantekt fulltrúa svæðisdeilda
Fulltrúar svæðisdeilda Höfuðborgarsvæðisins, Vesturlands, Vestfjarða, Norðurlands, Austurlands, Suðurlands og Suðurnesja fóru yfir tillögur um samdrátt í rekstargjöldum heilbrigðisstofnana vegna fjárlagafrumvarps ársins 2011. Farið var yfir hvaða þýðingu og áhrif fyrirliggjandi tillögur um lækkun rekstargjalda mun hafa á starfsemi stofnana, þjónustu við sjúklinga og atvinnumál byggðalaga. Fulltrúar svæðisdeilda í stjórn Fíh ræddu við ýmsa yfirstjórnendur sjúkrastofnana um viðbrögð þeirra og væntanlegar aðgerðir vegna niðurskurðar. Ljóst er að mestur niðurskurður er áætlaður á sjúkrasviðum heilbrigðisstofnanna, eða á bilinu 9,0% til 84,8%. Mun minni niðurskurður er áætlaður á hjúkrunarsviði stofnana og víðast er ekki gert ráð fyrir samdrætti í rekstri heilsugæslusviða. Á flestum sjúkrastofnunum mun koma til umfangsmikilla uppsagna starfsfólks, að mati stjórnenda, eða þar sem niðurskurður er mestur á sjúkraviðum.
Almennar umræður
Í almennum umræðum stjórnarmanna um áætlaðan niðurskurð komu fram eftirfarandi atriði:
- Mikil óvissa og óöryggi er meðal heilbrigðisstarfsmanna víða um land og stefnir í lokun sjúkradeilda, skurðstofu og fæðingardeilda á nokkrum stöðum.
- Áætlaður niðurskurður þýðir uppsagnir um það bil 100 hjúkrunarfræðinga á næsta ári, en margir eiga biðlaunarétt og sparnaður kemur ekki til á árinu 2011. Hjúkrunarfræðingar sem munu missa vinnuna á landsbyggðinni munu ekki fá vinnu á höfuðborgarsvæðinu. Þetta þarf einnig að skoða í ljósi faglegrar umræðu.
- Heimahjúkrun er víða ekki í stakk búin að taka við umfangsmeiri starfsemi og bent var á að meiri vinna mun lenda á konum úti í samfélaginu.
- Miðað við núverandi viðbragðáætlanir heilbrigðisstofnana mun áætlaður niðurskurður ógna öryggi íbúa og ferðamanna, en viðbúnaðaráætlanir heilbrigðisstofnana eru liður í viðbragðsneti alls landsins við öllum hamförum. Taka þarf tillit til þeirra skilgreininga sem settar hafa verið fram um lágmarksviðbragðstíma.
Tillögur
Stjórn Fíh hefur ályktað um að skoða þurfi heildstætt stefnu í rekstri heilbrigðisstofnana og sjúkrahúsa um landið og framtíðarskipulag á samvinnu við alla helstu hagsmunaaðila. Í tengslum við almennar umræður um áætlaðan niðurskurð komu fram eftirfarandi tillögur frá stjórnarmönnum Fíh um verkefni sem félagið vill taka þátt í að leysa:
- Skoða þarf sérstaklega tækifærin sem hjúkrunarfræðingar hafa nú við þessar aðstæður og koma með lausnir sem nýta sérstöðu og sérþekkingu okkar sem hjúkrunarfræðinga og hvaða framlag við höfum til að bæta þjónustu og hagræða í rekstri í heilbrigðiskerfinu.
- Hjúkrunarfræðingar starfa víða við það að forgangsraða í heilbrigðisþjónustunni, á bráðadeildum, dag- og göngudeildum við innlagnir og í móttöku á heilsugæslu. Taka þarf upp ný viðmið í þjónustu með öryggi og þarfir sjúklinga í brennidepli.
- Leggja þarf til hvaða gæðaviðmið við viljum taka upp í heilbrigðiskerfinu og hvaða mælikvarða við viljum hafa til að bera saman starfsemi og árangur í þjónustu.
- Skoða þarf hvar hjúkrunarrými eru nú rekin með sjúkrarýmum. Hjúkrunarrými skulu rekin á hjúkrunarheimilum en ekki á sjúkrastofnunum. Skoða fækkun fagfólks á öldrunarstofnunum, stefnu með einbýli og endurhæfingarrými á öldrunarstofnunum
- Leggja þarf til hvaða forsendur skuli settar þegar leitað verður til sveitarfélaganna um að taka yfir þjónustu við aldraða. Hjúkrunarfræðingar eiga að leiða innleiðingu slíkra breytinga.
- Styrkja þarf heilsugæsluna, þar eru sóknartækifærin. Heilsugæslan er nú að mörgu leyti of læknamiðuð. Hjúkrunarfræðingar þurfa að sjá tækifærin í heimahjúkrun og í sérhæfðri heilsugæsluþjónustu.
- Skoða þarf sjúkraþjónustu á landsbyggðinni með hliðsjón af staðsetningu skurðstofa, samgönguleiðum og sjúkraflutningum.
Til afgreiðslu:
2. Fundargerð síðasta fundar.
Samþykkt eins og er á netinu útg. 03.
3. Útgáfufagnaður vegna útkomu Sögu hjúkrunar á Íslandi á 20. öld.
Saga hjúkrunar er komin út. Útgáfufagnaður verður í framhaldi af hjúkrunarþingi 12. nóvember.
Til umræðu:
4. Breytingar á verkefnum fulltrúa á skrifstofu – Tillaga um breyttan opnunartíma skrifstofunnar.
Verkaskipting fulltrúa á skrifstofu hefur breyst eftir breytingar á húsnæði skrifstofunnar. Annar fulltrúinn hefur tekið við verkefnum Styrktar- og sjúkrasjóðs (SoS) og b-hluta vísindasjóðs, a-hluti hans rekur sig sjálfur. Hinn fulltrúinn mun sjá um afgreiðsluna, símavörslu og tilfallandi verkefni. Vinna í tengslum við Orlofssjóð félagsins hefur ekki minnkað eftir að vefafgreiðsla var tekin upp, eins og talið var, þar sem ýmis önnur verkefni hafa bæst við á vegum sjóðsins. Vegna minni viðveru fulltrúa í afgreiðslu og til að hafa tíma til að ganga frá verkefnum er lagt til að minnka opnunartíma skrifstofu og símasvörunar. Talsverð umræða varð um opnunartímann og hvort útvista ætti verkefnum orlofssjóðs. Samþykkt að breyta opnunartímanum í kl. 10-16 til reynslu í 6 mánuði.
5. Staðan í kjaraviðræðum. Cecilie B. Björgvinsdóttir, sviðstjóri kjara- og réttindasviðs kemur á fundinn kl. 13:15.
Nýja viðræðuáætlun þarf að gera við alla viðsemjendur. Búið að gera þær við Samninganefnd ríkisins (SNR), samtök sveitarfélaga og Reykjavíkurborg. Samkvæmt þeim á samningum að vera lokið fyrir lok nóvember 2010. Samninganefndin er að fara yfir samninginn og hefur fengið tillögur að breytingum frá trúnaðarmönnum. Miklar væntingar eru meðal félagsmanna og CBB telur að erfitt verði að gera samning sem félagsmenn muni samþykkja. Samninganefnd Fíh verður tilkynnt til SNR fljótlega. Fíh verður ekki fyrst að samningaborðinu. Nokkur atriði verða tekin með heildarsamtökunum. Stjórn Fíh er bakland samninganefndarinnar og getur þurft að koma að samningavinnunni á lokastigum. CB hefur kallað eftir tölulegum upplýsingum um laun frá fjársýslunni. Fjársýslan segist ekki hafa heimild til að veita þær og sé verkefni Fjármálaráðuneytisins (FMR). FMR hefur samið við KÍ, BHM og BSRB um að veita þessar upplýsingar og mun ganga frá samningi við Fíh fljótlega. Kjarakönnunin verður endurtekin í byrjun nóvember.
6. Stefna félagsins í hjúkrunar- og heilbrigðismálum – hjúkrunarþing 12. nóvember. Aðalbjörg J. Finnbogadóttir, sviðstjóri fagsviðs kom á fundinn kl. 13:30.
Skjal um stefnu Fíh hefur verið stytt og sett upp eins og stefnumótunarskjal, með gildum og sýn. Stefnan verður málefni hjúkrunarþings 12. nóvember n.k. og geta allir félagsmenn komið þar og haft áhrif á hana. Stefnan verður fullunnin að þinginu loknu og hún send aðalfundi Fíh í maí. Fundur verður með formönnum fagdeilda 2. nóvember um stefnuna. Nokkrar umræður urðu um stefnuna og hvatt til að koma aðalatriðum á eitt blað, gera hana myndrænni og hafa texta hnitmiðaðri. Hafa síðan ítarlegra skjal á bak við sem greinargerð. Stefnan samþykkt eins og hún er á verkefnavefnum og má fara sem kynningarefni fyrir hjúkrunarþingið.
Til kynningar:
7. Innlegg Fíh í skýrslu um eflingu heilsugæslunnar.
Fundarmenn sammála um að þetta væri mjög gott plagg það eina sem vantaði væri um öryggi og gæði. Beðið er eftir fundi með ráðherra til að kynna innlegg Fíh í skýrsluna.
8. Tímabundin ráðning dr. Sólfríðar Guðmundsdóttur í heilsuverkefni.
Mikil eftirspurn eftir námskeiðunum um heilsueflingu, þrjú eru full á höfuðborgarsvæðinu og halda á tvö á landsbyggðinni eftir áramót. Gerður hefur verið tímabundinn samningur við dr. Sólfríði Guðmundsdóttur um þetta verkefni.
9. Önnur mál.
Spurt var hvenær er von á gerðardómi vegna úrsagnar úr BHM. BHM á að skila greinargerð sinni til hans á morgun. Þá tekur gerðardómurinn við þeirra gögnum og hefur allan þann tíma sem hann vill til að skila af sér.
Hvatt var til greinaskrifa hjúkrunarfræðinga í blöðin eins og aðrar heilbrigðisstéttir hafa verið að gera.
Rætt um heilsustyrki til félagsmanna annars vegar á vegum félagssjóðs og hins vegar SoS.
Fundi slitið kl. 14:40
Herdís Gunnarsdóttir, ritari stjórnar Fíh.
Hildur Einarsdóttir, stjórnarmaður Fíh.