Hjukrun.is-print-version

Umsögn um frumvarp til laga

RSSfréttir
3. apríl 2011

 

 

Reykjavík 3. apríl 2011

 

 

Nefndasvið Alþingis

Austurstræti 8 - 10

150 Reykjavík

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um heilbrigðisstarfsmenn, 575. mál.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) þakkar beiðni um umsögn um ofangreint frumvarp til laga um heilbrigðisstarfsmenn. Félagið hefur áður veitt umsagnir um sambærileg frumvörp, síðast 22. júlí 2010. Stjórn Fíh fagnar því að tekið hefur verið tillit til þriggja ábendinga stjórnarinnar í því frumvarpi sem nú er lagt fram.

 

Stjórn Fíh hefur fjallað um fyrirliggjandi frumvarp og ítrekar enn fyrri andmæli sín við þeim fyriráætlunum að fella brott Hjúkrunarlög nr. 8/1974. Hið íslenska heilbrigðiskerfi byggir á tveimur megin stoðum, hjúkrun og lækningum. Hjúkrunarfræðingar og læknar eru þær tvær heilbrigðisstéttir sem bera hvað mesta ábyrgð á veitingu heilbrigðisþjónustu og skipulagi meðferða sjúklinga. Eðli menntunar og starfa hjúkrunarfræðinga er þannig að nauðsynlegt er að um stéttina gildi sérlög.

 

Stjórn Fíh vísar í umsögn sína frá 22. júlí 2010 þar sem ítarlegar athugasemdir eru gerðar við einstakar greinar þess frumvarps sem þá lá fyrir og sem er í öllum aðalatriðum samhljóða því frumvarpi sem velferðarráðherra hefur nú lagt fram. Stjórnin vill þó gera sérstakar athugasemdir við eftirtaldar þrjár greinar þessa nýja frumvarps:

 

-          Í 3. gr. frumvarpsins eru löggiltar heilbrigðisstéttir tilgreindar. Stjórn Fíh ítrekar fyrri ábendingar sínar um nauðsyn þess að greina á milli heilbrigðisstétta eftir menntun þeirra annars vegar og hins vegar eftir því hvort þær komi beint að þjónustu við sjúklinga eða ekki. Stjórn Fíh tekur jafnframt undir tillögur þær sem fram koma í umsögn Sigurðar Guðmundssonar, forseta heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands dags. 09.07.2009, um að skipta heilbrigðisstéttum í tvo hópa. Annars vegar þær stéttir sem bera beina ábyrgð á sjúklingum og fá þá löggildingu og hins vegar stéttir sem ekki bera beina ábyrgð á sjúklingum og verða viðurkenndar heilbrigðisstéttir.  

 

-          Í 11. gr. frumvarpsins er fjallað um tímabundið starfsleyfi. Gerðar hafa verið breytingar á orðalagi þessarar greinar frá fyrra frumvarpi. Þar var kveðið á um að veita Landlækni „heimild til að veita þeim sem lokið hafa a.m.k. 2/3 hlutum fullgilds náms í tiltekinni grein heilbrigðisfræða tímabundið starfsleyfi“. Stjórn Fíh mótmælti þessu ákvæði harðlega með öryggi sjúklinga að leiðarljósi og lagði til að greinin í heild sinni yrði felld brott.

Í því frumvarpi sem nú liggur fyrir er eingöngu rætt um slíkt tímabundið leyfi til læknanema og láðst hefur að tilgreina hversu stórum hluta námsins þeir skuli hafa lokið. Stjórn Fíh mótmælir því harðlega að gefin sé heimild fyrir því að læknanemar gangi hugsanlega í störf hjúkrunarfræðinga eftir að hafa lokið ótilgreindum hluta af sínu læknanámi. Læknisfræði og hjúkrunarfræði eru tvær skyldar en þó ólíkar fræðigreinar og með öllu ófært að þeir sem lokið hafi prófi eða hluta úr námi í annarri greininni geti gengið í störf hinnar. Stjórn Fíh varar eindregið við þeim afleiðingum sem ákvæði þetta getur haft og telur ófært annað en fella ákvæðið brott.

-          Í 13. gr. frumvarpsins er fjallað um faglegar kröfur. Þar er kveðið á um að læknar beri ábyrgð á læknisfræðilegri meðferð. Með tilvísan í 10. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007 telur stjórn Fíh nauðsynlegt að sambærilegt ákvæði verði sett um ábyrgð hjúkrunarfræðinga. Stjórnin leggur til að eftirfarandi málsgreinar bætist við þessa grein frumvarpsins: „Hjúkrunarfræðingur ber ábyrgð á hjúkrun einstaklinga eða þeirra sem til hans leita og hann hefur umsjón með. Óheimilt er að ráða aðra en hjúkrunarfræðinga til sjálfstæðra hjúkrunarstarfa við sjúkrastofnanir, á öldrunarheimili, í heilsuvernd eða við hjúkrun í heimahúsum“.

 

Stjórn Fíh áskilur sér rétt til að koma frekari athugasemdum á framfæri ef þurfa þykir.

 

Stjórn Fíh ítrekar að lokum þá afstöðu sína að sérlög gildi áfram um hjúkrunarfræðinga og lýsir sig reiðubúna til að koma að endurskoðun Hjúkrunarlaga nr. 8/1974.

 

 

F.h. stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga,

 

 

____________________________________

Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála