þriðjudaginn 26. apríl 2011 kl. 10:00-16:00
Mættir
Elsa B. Friðfinnsdóttir, Áslaug Birna Ólafsdóttir, Fjóla Ingimundardóttir, Guðbjörg Pálsdóttir, Gunnar Helgason, Herdís Gunnarsdóttir, Hildur Einarsdóttir, Íris Dröfn Björnsdóttir, Kristín Thorberg, Ragnheiður Gunnarsdóttir, Sigurveig Gísladóttir, Svanhildur Jónsdóttir, Stella S. Hrafnkelsdóttir og Þórunn Sævarsdóttir.
Boðuð forföll
Aðalheiður D. Matthíasdóttir, Helga Atladóttir, Ingibjörg Þórisdóttir, Jóhanna Oddsdóttir
Gestir
Þórir Ólafsson, Sólveig Stefánsdóttir, Dýrleif Kristjánsdóttir og Garðar Víðir Garðarsson.
Til afgreiðslu
1. Fundargerð síðasta fundar.
Fundargerð síðasta fundar samþykkt.
2. Endurskoðaðir ársreikningar 2010. Þórir Ólafsson löggiltur endurskoðandi og Sólveig Stefánsdóttir fjármálastjóri Fíh komu á fundinn kl.10:15.
Á fundinum var farið yfir endurskoðaða ársreikninga félagsins og Þórir og Sólveig gáfu skýringar og svöruðu spurningum stjórnarmanna. Á efnahagsreikningi félagsins fyrir árið 2010 nema skuldir félagsins rúmlega 210 Mkr. og eigið fé sjóða félagsins nemur tæplega 427 Mkr. Eignir félagsins nema því ríflega 637 Mkr. Á rekstrarreikningi félagssjóðs gefa rekstrarhagnaður og fjármunatekjur fyrir árið 2010 hagnað upp á tæpar 40 Mkr.
Rætt var um hvort það væri tilgangur félagsins að safna upp hagnaði og hvort félagsgjöld væru þá ekki of há. Í því sambandi þykir eðlilegt að horfa til lengri tíma en eins árs, eða til 2-3 ára, þó svo að félagssjóður ætti öllu jöfnu að vera gegnumstreymissjóður. Skýringar á hagnaði ársins 2010 felast m.a. í betri ávöxtun sjóða og bréfa, seldri þjónustu til sjúkra- og styrktarsjóðs og endurgreiðslum BHM á eignarhluta í húsnæði.
Endurskoðandi benti á að aukin áhætta getur falist í tekjuskráningu og því beri að vera vakandi yfir því. Að mati endurskoðanda eru tekjur að skila sér vel til félagsins þar sem þess er gætt vel að bera saman gögn og gæta að tekjum, auk þess sem iðgjöld eru móttekin í gegnum bankana. Áhættan er því óveruleg í tekjuskráningu. Einnig er samþykktarferli fyrir öllum kostnaði og félagið áætlanastýrt og eigna vel gætt.
Það er því mat endurskoðanda að ársreikningar Fíh árið 2010 gefi rétta og glögga mynd af rekstri félagsins. Stjórn samþykkti og áritaði ársreikning Fíh fyrir árið 2010.
3. Stefna félagsins í hjúkrunar- og heilbrigðismálum.
Lokaútgáfa af stefnunni er ekki tilbúin og því var ákveðið að bera stefnuna upp til samþykktar á verkefnavefnum, fyrir aðalfund.
Umræða var um diplómanám sem valkost í framhaldsnámi í Hjúkrunarfræðideild. Ákveðið var að tala um meistaranám sem formlegt framhaldsnám í hjúkrun í stefnunni en jafnframt fjalla um aðra kosti til framhaldsnáms í hjúkrun, s.s. diplómanám. Rætt var um að bjóða fram og kalla eftir samstarfi um endurskipulag framhaldsnáms á meistarastigi í hjúkrun.
4. Tillögur til lagabreytinga á aðalfundi 19. maí.
Ákveðið var að leggja engar lagabreytingar fyrir næstkomandi aðalfund en að lagahópur vinni áfram að endurskoðun laga í vinnuhópi.
Ákveðið var að vinnuhópur vinni fram yfir aðalfund og fari yfir skipulagsmál er varðar framsal valds stjórnar, framkvæmdaráð og starfsemi á skrifstofu. Gunnar Helgason var skipaður formaður hópsins og mun kalla hann saman.
5. BHM málið – næstu skref. Dýrleif Kristjánsdóttir, hdl og Garðar Víðir Garðarsson, hdl komu á fundinn kl. 13:00.
Ákvörðun var tekin um að sækja skaðabótamál á fundi stjórnar í upphafi ársins. Dýrleif og Garðar Víðir komu á fundinn og ræddu um efni málsins og þá kröfu sem hægt er að gera til þeirra sem eiga aðild að málinu. Til eru ákvæði í lögum um að félag geti sótt mál fyrir hjúkrunarfræðinga félagsins. Einn möguleiki er að sækja viðurkenningarmál um að hjúkrunarfræðingar eigi rétt í sjóði BHM.
Samþykkt að falla frá fyrri ákvörðun við að fara í fjárkröfu- eða skaðabótamál.
Samþykkt var að félagið sæki hjúkrunarfræðingsmál.
6. Fjármögnun styrktar- og sjúkrasjóða Fíh – notkun biðreiknings.
Samþykkt var tillaga um að innborganir launagreiðenda á biðreikning vegna bráðabirgða styrktar- og sjúkrasjóðs félagsins verði nýttar til greiðslu styrkja úr sjóðnum frá og með apríl 2011. Frá sama tíma verði lántöku úr vinnudeilusjóði Fíh hætt.
7. Tillaga stjórnar vinnudeilusjóðs um frekari fjármögnun sjóðsins.
Stjórnin styður tillögu vinnudeilusjóðs, sem lögð verður fram á næsta aðalfundi, um að félagsmenn greiði 0,3% af dagvinnulaunum í vinnudeilusjóð félagsins. Þessi upphæð leggist ofan á félagsgjald til félagsins.
8. Opnunartími skrifstofu.
Samþykkt var í haust að hafa opnunartíma til prufu frá kl. 10-16. Engar athugasemdir hafa borist, nema örfáar þegar fólk hefur reynt að hringja. Samþykkt var að framlengja þennan opnunartíma. Samþykkt var sumarlokun á skrifstofu frá 11. júlí til og með 1. ágúst 2011.
Til umræðu
9. Starfsemisskýrsla 2010-2011, drög 2.
Formaður óskaði eftir að stjórnarmenn geri athugsemdir við skjal á verkefnavef og ábendingar og breytingar verði komnar inn fyrir lok dags 8. maí n.k.
10. Starfsáætlun 2011-2012, drög 1.
Ákveðið hefur verið að starfsemisáætlun verði unnin í samræmi við stefnuna. Formaður óskaði eftir að stjórnarmenn geri athugsemdir við skjal á verkefnavef og ábendingar og breytingar verði komnar inn fyrir lok dags 8. maí n.k.
11. Staðan í kjarasamningamálum.
Cecilie mætti á fundinn og umræða fór fram um stöðu kjarasamninga og næstu skref, nú þegar félagsmenn hafa verið samningslausir á þriðja ár. Farið var yfir ályktun sem samin hefur verið og var hún samþykkt.
Til kynningar
12. Önnur mál.
- Umræða var um að fara enn frekar yfir kostnaðartölur og sundurliðun kostnaðar til að átta sig á hvar má spara.
- Bent var á að enginn fulltrúi er frá Fíh um endurskoðun heilbrigðisstefnu.
Herdís Gunnarsdóttir, ritari stjórnar Fíh.