þriðjudaginn 27. september 2011 kl. 11:00
Mættir
Elsa B. Friðfinnsdóttir, Svanhildur Jónsdóttir, Ragnheiður Gunnarsdóttir, Gunnar Helgason, Áslaug Birna Ólafsdóttir, Aðalheiður D. Matthíasdóttir, Björk Elva Jónasdóttir, Kristín Thorberg, Guðbjörg Pálsdóttir og Hildur Einarsdóttir, Jóhanna Oddsdóttir, Sigríður Kristinsdóttir, Ingibjörg Þórisdóttir og Fjóla Ingimundardóttir.
Boðuð forföll
Herdís Gunnarsdóttir, Stella Hrafnkelsdóttir og Margrét Blöndal.
Til afgreiðslu
1. Fundargerð síðasta fundar.
Fundargerð síðasta fundar samþykkt.
2. Drög að samkomulagi milli Fíh og félagsmanns vegna annars vegar dómsmáls og hins vegar slysatryggingarmáls.
Drög að samkomulagi lögð fram og rædd af fundarmönnum, ákveðið að hugsa málið fram að næsta fundi og Elsa skoðar afgreiðslu sambærilegra mála hjá öðrum stéttarfélögum.
3. Bréf frá formanni stjórnar bráðabirgða styrktar- og sjúkrasjóða Fíh.
Sjúkrasjóðurinn er í erfiðum málum en staða styrktarsjóðs er betri eftir síðustu kjarasamninga. Útlit er fyrir að 5 milljónir muni vanta í árslok. Sjúkrasjóðurinn er lítill (112 sem greiða í hann) og má ekki við miklu. Elsa mun svara sjóðnum formlega en ekki er unnt að breyta reglum sjóðsins á meðan á málaferlum við BHM stendur.
4. Útgáfa Dagbókar.
Útgáfa dagbókar, komið er að útgáfu dagbókar, og vangaveltur um hvort halda eigi henni áfram þar sem kostnaður við hana er umtalsverður. Ákveðið að gera könnun meðal félagsmanna og fá upplýsingar um notkun þeirra á dagbókinni. Í framhaldi af því og í ljósi niðurstaðna könnunarinnar verður tekin ákvörðun um framtíð dagbókarinnar.
Til umræðu
5. Landflótti hjúkrunarfræðinga.
Miklar umræður urðu um raunveruleg kjör, gjöld og kaupmátt hjúkrunarfræðinga sem starfa tímabundið í Noregi. Einnig var rætt um jákvæðar hliðar þess s.s. vinnuaðstæður og endurmenntunar gildi þess að kynnast öðrum vinnustað. Einnig um ástæður þess að hjúkrunarfræðingar velja að starfa tímabundið í Noregi og áhrif á heilbrigðiskerfið hér á landi. Það var rætt um mikilvægi þess að þessi umræða heyrðist úti í þjóðfélaginu í þeim tilgangi að vekja athygli á stöðu hjúkrunarfræðinga hér á landi. Guðbjörg Pálsdóttir hefur aðgang að hjúkrunarfræðingum sem eru tilbúnir að varpa ljósi á þau kjör sem íslenskum hjúkrunarfræðingum eru að bjóðast og leggja fram gögn því til stuðnings, s.s launaseðla og þess háttar. Á þann hátt er hægt að bera saman stöðuna hér á landi og í Noregi. Ekki verður horft fram hjá því að hjúkrunarfræðingar eru að fara til Noregs og sækja í störf þar.
6. Upplýsingar af WFF fundi í Stokkhólmi.
Kaupmáttur hjúkrunarfræðinga er lægstur hér á landi borið saman við kaupmátt hjúkrunarfræðinga í Ástralíu, Írlandi, Japan, Finnlandi, Kanada, Bretlandi og Svíþjóð. Í næstu skýrslu verða einnig lagðar fram upplýsingar um samsetningu launa í hinum mismunandi löndum, dagvinnulaun, vaktir, lífeyrisjóðsgreiðslur o.s.frv. engar spurningar voru um þennan lið.
7. Úttekt á stöðu hjúkrunar og hjúkrunarfræðinga – sóknaráætlun Fíh.
Elsa sagði frá stöðunni á starfi hópsins. Fyrsti liðurinn er að kortleggja stöðuna og gera könnun meðal hjúkrunarfræðinga. Þórður Víkingur hefur verið fenginn til að gera þessa úttekt, notuð verður svokölluð Delphi aðferð, gerð greining og út frá henni verður útbúin og gerð könnun sem lögð verður fyrir félagsmenn. Delphi hópinn skipa stjórnin, og sköpuðust umræður um það hvort stjórnin væri rétt samansett og lýsandi fyrir hinn almenna félagsmann. Meðal annars kom fram sú hugmynd að fá inn fulltrúa yngri hjúkrunarfræðinga. Elsa leggur þessa hugmynd fyrir Þórð, það er hann sem stýrir þessu verkefni.
8. Vinna starfshóps um lög Fíh.
Kristín sagði frá, hópurinn er fjölmennur og dreifður, áætlað er að hann hittist í dag að loknum stjórnarfundi og skiptir efninu niður á milli sín. Elsa lagði áherslu að ekki er um að ræða endurskoðun á lögunum í heild, heldur eingöngu verið að sníða af vankanta. Halda þarf vel utan um það.
9. Staðan í BHM máli/stefnu.
Búið að fá fulltrúa til að vera stefnandi í málinu,
10. Staða hjúkrunarfræðinga í heilsugæslunni.
Áslaug Birna Ólafsdóttir hefur framsögu. Góð samantekt um stöðu hjúkrunarfræðinga innan heilsugæslunnar. Mikill fjöldi heilsugæslustöðva (60) eru að landinu og starfa 165 hjúkrunarfræðingar á heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins. Mikill áhugi er á að þróa störf hjúkrunarfræðinga innan heilsugæslunnar og taka í notkun ný verkefni og hjúkrunarmóttökur. Það hefur gengið mun betur á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu og var nokkur umræða um hverju það sætti. Fækkun hefur orðið á stöðugildum hjúkrunarfræðinga eftir kreppuna á höfuðborgarsvæðinu en ekki eru upplýsingar um fjölda. Fagdeild heilsugæsluhjúkrunarfræðinga hefur áhyggjur af því að ekki eru neinar stöður Sérfræðinga í hjúkrun innan heilsugæslunnar, en telur það mikilvægt í því skyni að þróa hjúkrunina og bjóða upp á sérhæfða móttöku hjúkrunarfræðinga.
Endurmenntun þarf einnig að vera meiri fyrir hjúkrunarfræðinga, þverfagleg vinna þarf að vera meiri innan heilsugæslunnar og samstarf við lækna má vera betra. Fagdeild heilsugæsluhjúkrunarfræðinga hefur reynt að beita sér fyrir eflingu hjúkrunar innan heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu og hefur fundað með yfirmönnum hennar, einnig er framundan fundur með velferðarráðherra.
Aðalatriðið er að þrátt fyrir að staðan sé veik þá felast í henni mikilvæg sóknarfæri sem brýnt er að nota.
Fundi slitið rétt upp úr kl 14:10
Þórunn Sævarsdóttir, ritari stjórnar Fíh.