Reykjavík 17. nóvember 2011
Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8 - 10
150 Reykjavík
Efni: Umsögn um frumvarp til laga um heilbrigðisstarfsmenn, 147. mál.
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) þakkar beiðni um umsögn um ofangreint frumvarp til laga um heilbrigðisstarfsmenn. Félagið hefur áður veitt umsagnir um sambærileg frumvörp, síðast 13. apríl 2011. Stjórn Fíh fagnar því að tekið hefur verið tillit til ýmissa ábendinga stjórnarinnar í því frumvarpi sem nú er lagt fram.
Stjórnin vill gera sérstakar athugasemdir við eftirtaldar tvær greinar þessa nýja frumvarps:
- Í 3. gr. frumvarpsins eru löggiltar heilbrigðisstéttir tilgreindar. Stjórn Fíh ítrekar fyrri ábendingar sínar um nauðsyn þess að greina á milli heilbrigðisstétta eftir menntun þeirra annars vegar og hins vegar eftir því hvort þær komi beint að þjónustu við sjúklinga eða ekki. Stjórn Fíh tekur jafnframt undir tillögur þær sem fram koma í umsögn Sigurðar Guðmundssonar, forseta heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands dags. 09.07.2009, um að skipta heilbrigðisstéttum í tvo hópa. Annars vegar þær stéttir sem bera beina ábyrgð á sjúklingum og fá þá löggildingu og hins vegar stéttir sem ekki bera beina ábyrgð á sjúklingum og verða viðurkenndar heilbrigðisstéttir.
- Í 13. gr. frumvarpsins er fjallað um faglegar kröfur. Þar er kveðið á um að læknar beri ábyrgð á læknisfræðilegri meðferð. Með tilvísan í 10. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007 telur stjórn Fíh nauðsynlegt að sambærilegt ákvæði verði sett um ábyrgð hjúkrunarfræðinga. Stjórnin leggur til að eftirfarandi málsgreinar bætist við þessa grein frumvarpsins: „Hjúkrunarfræðingur ber ábyrgð á hjúkrun einstaklinga eða þeirra sem til hans leita og hann hefur umsjón með. Óheimilt er að ráða aðra en hjúkrunarfræðinga til sjálfstæðra hjúkrunarstarfa við sjúkrastofnanir, á öldrunarheimili, í heilsuvernd eða við hjúkrun í heimahúsum“.
Stjórn Fíh áskilur sér rétt til að koma frekari athugasemdum á framfæri ef þurfa þykir.
Stjórn Fíh ítrekar að lokum þá afstöðu sína að sérlög gildi áfram um hjúkrunarfræðinga og lýsir sig reiðubúna til að koma að endurskoðun Hjúkrunarlaga nr. 8/1974. Hið íslenska heilbrigðiskerfi byggir á tveimur megin stoðum, hjúkrun og lækningum. Hjúkrunarfræðingar og læknar eru þær tvær heilbrigðisstéttir sem bera hvað mesta ábyrgð á veitingu heilbrigðisþjónustu og skipulagi meðferða sjúklinga. Eðli menntunar og starfa hjúkrunarfræðinga er þannig að nauðsynlegt er að um stéttina gildi sérlög.
F.h. stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga,
____________________________________
Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður