Hjukrun.is-print-version

Ályktun stjórnar Fíh um niðurskurð fjárveitinga til LSH

RSSfréttir
6. desember2011
Reykjavík 7. október 2009


Ályktun stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga:


Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga varar við þeim alvarlegu afleiðingum sem stórfelld skerðing á fjárframlögum til Landspítala, samkvæmt nýframlögðu fjárlagafrumvarpi, felur í sér. Undanfarin ár hefur Landspítalanum verið gert að hagræða svo í rekstri að nú er komið að þolmörkum. Ef boðuð lækkun á fjárframlögum til Landspítalans nær fram að ganga mun það leiða til verulega skertrar þjónustu við sjúklinga og þar með ógna öryggi þeirra. Sá árangur sem náðst hefur í heilbrigðisþjónustunni byggir fyrst og fremst á þekkingu heilbrigðis-starfsmanna. Niðurskurðurinn sem nú er boðaður getur leitt til þess að dýrmæt, sérhæfð þekking starfsmanna tapist úr landi, sem tekur ár og áratugi að byggja upp að nýju.

Landspítali er sjúkrahús allra landsmanna og það öryggisnet sem þjóðin reiðir sig á. Því er nauðsynlegt að Landspítalanum sé tryggt það rekstrarfé sem þarf til að mæta þeim kröfum sem til hans eru gerðar og viðhalda þeim árangri sem náðst hefur í heilbrigðisþjónustunni.

Stjórn Fíh sendi í lok júní síðastliðnum heilbrigðisráðherra áherslur og tillögur sínar vegna niðurskurðar í heilbrigðiskerfinu. Þar var lögð áhersla á öryggi og gæði þjónustunnar, endurskoðun á heilbrigðiskerfinu og greiðslufyrirkomulagi vegna heilbrigðisþjónustu, forgangsröðun verkefna og sameiningu heilbrigðisstofnana. Stjórn Fíh ítrekar þessar tillögur og vilja til frekari samvinnu og samráðs í þeim erfiðu verkefnum sem framundan eru.

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála